Í kvöld klukkan 21 verður slegið á létta strengi í Stúdentakjallaranum á Háskólatorgi. Þar koma fram ýmsir uppistandarar sem þykja efnilegir. Aðgangur er ókeypis og geta þeir sem enska tungu skilja einnig haft gaman af herlegheitunum því uppistandarinn York Underwood fer einnig með gamanmál. Hann er kynnir kvöldsins en þeir sem láta ljós sitt skína eru þau Bylgja Babylóns,
Andri Ívarsson, Snjólaug Lúðvíksdóttir, Björg Magnúsdóttir, Jón Magnús Arnarsson og Ólafur Freyr Ólafsson. Allir eru velkomnir á uppistand Stúdentakjallarans og GOmobile.
Stúdentakjallarinn öðlaðist nýtt líf þegar hann var opnaður fyrir rúmum tveimur árum í viðbyggingu við Háskólatorg en áður var hann við Hringbrautina og var starfræktur þar frá 1975 til 2007. Nýja húsnæðið er töluvert stærra en það gamla og er notað undir ýmsar skemmtanir og dagskrá á vegum stúdenta.