Bolludagur, sprengidagur, öskudagur. Nokkuð er síðan Víkverji var á þeim aldri að hann gæti tekið fullan þátt í þessum hátíðahöldum, en þetta voru meðal skemmtilegri daga í minningunni.
Bolludagur, sprengidagur, öskudagur. Nokkuð er síðan Víkverji var á þeim aldri að hann gæti tekið fullan þátt í þessum hátíðahöldum, en þetta voru meðal skemmtilegri daga í minningunni. Til dæmis minnist Víkverji þess að allir krakkarnir í skólanum hafi þurft að búa til bolluvönd vikuna á undan, gagngert til þess að vekja foreldrana með á mánudeginum.
Nú er Víkverji ekki orðinn að foreldri sjálfur, en eitthvað grunar hann að sú lífsreynsla að flengja fólk á fætur hafi verið heldur skemmtilegri fyrir hann sjálfan en foreldrana, enda er Víkverji af langri ætt B-fólks. Er raunar mesta furða að Víkverji sjálfur hafi náð að koma sér á fætur nógu snemma til þess að bregða bolluvendinum á loft.
Fyrir unga fólkið er öskudagurinn líklega sá sem heillar mest af þessum þremur. Víkverji rifjaði upp um daginn nokkra öskudagsbúninga úr æsku sinni ásamt vinnufélögum sínum. Það sem búningarnir þá áttu flestir sameiginlegt var að ímyndunaraflið fékk lausan tauminn. Svartir ruslapokar gátu til dæmis orðið að alls kyns klæðnaði þegar annað skorti. Eitthvað hefur slíkum fatnaði fækkað á síðustu árum, en meira ber á nánast fullkomnum eftirlíkingum, beint úr leikfangabúðinni, af öllum helstu karakterum bíómynda og sjónvarpsþátta. Víkverji getur ekki gert að því, en honum finnst dagurinn missa aðeins „sjarmann“ við það að minna reynir á hugmyndaauðgi krakkanna. En vitanlega er líka gaman að sjá krakkana taka sig vel út í „ekta“ búningum. Nú þarf bara að vekja aftur upp þann sið að festa öskudagspoka á fólk.