Helgi Bjarnason
helgi@mbl.is
Meðalverð á minkaskinnum á loðskinnauppboði danska uppboðshússins sem lauk um helgina var 11% hærra en á uppboðinu í janúar. Skinnin höfðu hækkað um 10% í janúar þannig að verðhækkunin hélt áfram. Er það kærkomið fyrir minkabændur eftir gríðarlegt verðfall á síðasta ári.
Á febrúaruppboðinu voru boðnar til sölu um 6 milljónir minkaskinna og seldust öll skinnin sem er mikilvægast að mati Einars E. Einarssonar, ráðunautar Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins í loðdýrarækt.
Kaldur vetur í Kína
4% af hækkuninni í febrúar skýrist af hækkun Bandaríkjadals gagnvart danski krónu og evru þannig að kaupendur fá í raun um 7% hækkun á markaðsverði. Frá því í september hefur dollarinn styrkst um 14% gagnvart evru og danskri krónu og á það mikinn þátt í þeirri verðhækkun sem orðið hefur.Fram kemur á vef uppboðshússins, Kopenhagen Fur, að 570 kaupendur mættu á febrúaruppboð, þar af 300 frá Kína. Veturinn hefur verið kaldur í Kína og renna skinnin því glatt út úr búðum og birgðageymslum. Þetta uppboð var það síðasta fyrir kínversku áramótin og því um leið síðasti möguleiki fyrir kínverska kaupendur að kaupa skinn til að hafa í verkmiðjum sínum við upphaf nýs ár. Einnig hefur verið kaldur vetur í Bandaríkjunum og talsverð eftirspurn þaðan. Uppboðshúsið er einnig ánægt með eftirspurnina í Evrópu þótt þar hafi veður verið hlýtt. Á þessum mörkuðum vinnur hátískan með loðskinnum.
Uppboðshúsið vekur athygli á því að í lok mánaðarins er stór skinnasýning í Hong Kong og þá muni skýrast hvernig markaðurinn bregst við þeim markaðsverðum sem verið hafa að myndast á síðustu uppboðum.
Meðalverð allra seldra minkaskinna á uppboðinu var 409 danskar krónur eða um 8.000 íslenskar. Frá Íslandi voru seld um 29 þúsund skinn sem er um 15% af íslensku framleiðslunni á síðasta ári. Þessi skinn deilast á marga flokka og því er erfitt að segja mikið um stöðu framleiðslunnar í samkeppni þjóðanna en að mati Einars verður þó það sem sést út úr tölunum að teljast jákvætt fyrir íslensku framleiðsluna.
Telur hann að ef þetta markaðsverð helst út sölutímabilið megi bændur vel við una því þá verði skinnaverðið aftur komið yfir framleiðslukostnað. Á síðasta ári náði það ekki framleiðslukostnaði og var því tap á framleiðslunni.