Hlíðarendi Væntanlega styttist í það að framkvæmdavegur verði lagður á Hlíðarendareitnum.
Hlíðarendi Væntanlega styttist í það að framkvæmdavegur verði lagður á Hlíðarendareitnum. — Morgunblaðið/Ásdís
Agnes Bragadóttir agnes@mbl.is Meirihlutinn í borgarstjórn samþykkti að hefja undirbúningsframkvæmdir á Hlíðarendareitnum, á fundi sem lauk seint í fyrrakvöld, líkt og fram kom í Morgunblaðinu í gær.

Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

Meirihlutinn í borgarstjórn samþykkti að hefja undirbúningsframkvæmdir á Hlíðarendareitnum, á fundi sem lauk seint í fyrrakvöld, líkt og fram kom í Morgunblaðinu í gær.

Njáll Trausti Friðbertsson, bæjarfulltrúi á Akureyri og annar tveggja formanna félagssamtakanna Hjartað í Vatnsmýrinni, félagsskapar sem vill standa vörð um Reykjavíkurflugvöll, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að afgreiðsla meirihluta borgarstjórnar í fyrrakvöld á leyfi fyrir undirbúningsframkvæmdum væri sér og þeim í Hjartanu í Vatnsmýrinni mikil vonbrigði.

„Við í Hjartanu í Vatnsmýrinni erum á allan hátt sammála þeirri bókun sem samráðshópur Rögnunefndarinnar gerði á mánudag. Vitanlega átti að bíða eftir niðurstöðum nefndarinnar, sem samið var um að yrði gert fyrir einu og hálfu ári,“ sagði Njáll Trausti í samtali við Morgunblaðið í gær.

„Mig grunar nú að almenningur hljóti að hugsa sitt, miðað við það hvernig framvindan hefur verið í málinu hjá borgaryfirvöldum undanfarnar vikur og mánuði. Ég held að mörgum komi á óvart hvernig borgaryfirvöld hafa unnið í málinu eftir að Rögnunefndin tók til starfa,“ sagði Njáll Trausti.

Menn hafi haldið að sátt væri komin um að bíða þar til Rögnunefndin hefði lokið störfum og skilað niðurstöðum, „en það liðu ekki nema átta vikur eftir að samkomulagið var gert haustið 2013 þar til búið var að auglýsa nýtt deiliskipulag fyrir Hlíðarenda. Þar með var sáttin rofin“, sagði Njáll Trausti.

Framkvæmdavegur

Brynjar Harðarson, framkvæmdastjóri Valsmanna hf., sagðist ánægður með niðurstöðu borgarstjórnar. „Á þessu stigi eru það ekki Valsmenn hf. sem fá framkvæmdaleyfi, heldur er það samráðshópur Reykjavíkurborgar, Vals og Valsmanna hf. sem mun fá framkvæmdaleyfi til þess að leggja svokallaðan framkvæmdaveg, sem hefur ekkert að gera beint með okkar byggingarleyfi,“ sagði Brynjar.

Hann benti á að það væru níu lóðir á Hlíðarendareitnum og Valsmenn hf. ættu einungis fjórar þessara lóða. Framkvæmdavegurinn væri m.a. hugsaður til þess að hægt yrði að komast að öllum lóðunum níu.

„Staðreyndin er sú, að Reykjavíkurborg á engra annarra kosta völ en að leggja þennan framkvæmdaveg, það hefur ekkert með Valsmenn að gera eða flugbrautina títtnefndu. Hlíðarendareitur er að fara í uppbyggingu, umfram það sem er að gerast hjá Valsmönnum hf.,“ sagði Brynjar.

Brynjar segir að það næsta sem gerist hjá Valsmönnum hf. sé að þeir muni nú fyrir lok þessa mánaðar leggja inn byggingarnefndarteikningar fyrir D-reit, sem hafi verið í vinnslu sl. átta mánuði. „Þá munu þær fara í umfjöllun umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, svo sem hvort þær standast deiliskipulag, byggingarreglugerðir og svo framvegis. Í framhaldi af því sækjum við væntanlega um framkvæmdaleyfi,“ sagði Brynjar.