Ómar Friðriksson
omfr@mbl.is
Atkvæðagreiðsla meðal grunnskólakennara um endanlega útgáfu á nýju vinnumati hefst í dag. Megn óánægja hefur verið meðal kennara með ákvæði um viðbótarkennslu samhliða eigin kennslu í allt að sjö tíma í hverjum mánuði, sem talið hefur verið að gæti jafnvel leitt til þess að vinnumatið yrði fellt.
Verkefnisstjórnin um vinnumatið vísaði þessari grein samningsins til samningsaðila til endurskoðunar og að sögn Ólafs Loftssonar, formanns Félags grunnskólakennara (FG), náðist á endanum samkomulag við sveitarfélögin um að ákvæðið færi út. „Það er því ekkert að flækjast fyrir þegar menn gera upp hug sinn varðandi það hvort þeir vilja taka upp nýtt vinnumat eða ekki,“ segir hann.
Félag grunnskólakennara og Samband íslenskra sveitarfélaga skrifuðu undir kjarasamning 20. maí sl. og felur samningurinn í sér gerð nýs vinnumats kennara þar sem metinn er sá tími sem kennari ver til skilgreindra verkefna. Verkefnisstjórn hefur unnið að vinnumatinu frá því í júní í fyrra og er það lokaútgáfa þess, svonefndur leiðarvísir að vinnumati, sem borinn er undir atkvæði kennara. Verði breytingarnar felldar í atkvæðagreiðslunni fellur kjarasamningurinn úr gildi 1. mars og ekki kemur til frekari launahækkana skv. honum en grunnskólakennarar eiga næst rétt á 9,5% hækkun 1. maí nk. ef nýtt vinnumat tekur gildi.
Atkvæðagreiðsla Félags framhaldsskólakennara (FF) um nýtt vinnumat í framhaldsskólunum fer í gang á mánudaginn og niðurstöður úr báðum atkvæðagreiðslunum eiga svo að liggja fyrir á föstudaginn í næstu viku.
Atkvæðagreiðslurnar um nýja vinnumatið eru rafrænar.