Brandarakarl Pavel Jech, skólastjóri FAMU í Tékklandi.
Brandarakarl Pavel Jech, skólastjóri FAMU í Tékklandi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is FAMU-kvikmyndaskólinn í Prag í Tékklandi er einn sá virtasti í Evrópu og þaðan hafa útskrifast heimskunnir leikstjórar á borð við Milos Forman og Emir Kusturica sem og íslenskir kvikmyndagerðarmenn, þ.ám.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

FAMU-kvikmyndaskólinn í Prag í Tékklandi er einn sá virtasti í Evrópu og þaðan hafa útskrifast heimskunnir leikstjórar á borð við Milos Forman og Emir Kusturica sem og íslenskir kvikmyndagerðarmenn, þ.ám. Grímur Hákonarson, Börkur Gunnarsson og Haukur Már Helgason. Skólastjóri FAMU, Pavel Jech, býr yfir mikilli reynslu þegar kemur að skrifum kvikmyndahandrita og verður hann gestur Stockfish-kvikmyndahátíðarinnar. Jech mun annars vegar halda fyrirlestur á morgun kl. 20 í Bíó Paradís um handritaskrif sem er opinn öllum og hins vegar leiða lokaða handritavinnustofu um helgina, 21. og 22. febrúar þar sem fjögur íslensk kvikmyndaverkefni verða tekin fyrir.

Grínið hjálpar til

Yfirskrift fyrirlestur Jech er bæði forvitnilegur og skondinn, Tíu brandarar sem munu kenna þér allt sem þú þarft að vita um handritaskrif . Jech segir brandarana að vísu ekki kenna mönnum allt sem þeir þurfi að vita um handritaskrif, það séu takmörk fyrir því hversu mikið sé hægt að kenna fólki á 60-90 mínútum. „Þetta er skemmtileg leið til að skoða ákveðin umfjöllunarefni eða vandamál sem handritshöfundar þurfa að takast á við,“ segir hann. Það sé alltaf erfitt að kenna slík skrif, útskýra ólíkar hliðar þeirra og þessi aðferð geti hjálpað til.

Blaðamaður spyr Jech hvort hann sé til í að segja einn brandara og skólastjórinn lætur tilleiðast.

„Maður einn er dæmdur til fangelsisvistar og þegar hann kemur í fangelsið heyrir hann fangana kalla upp númer. „Númer 3!“ hrópar einn og allir hlæja og annar hrópar „númer 7!“ og aftur er hlegið. Maðurinn spyr einn fanganna hvað sé eiginlega á seyði og fær þau svör að í fangelsinu séu allir brandarar orðnir svo gamlir að menn nenni ekki að segja þá lengur og hafi þess vegna gefið þeim ákveðin númer. Fanginn spyr manninn hvort hann vilji prófa og hann gerir það. Maðurinn hrópar „númer 2!“ en fær engin viðbrögð. Hann hrópar „númer 6!“, enginn hlær og svo aftur „númer 5!“ og þá hlær einn illkvittnislega að honum. Maðurinn spyr hvað sé eiginlega að gerast, hvort þetta séu ekki brandarar? Fanginn segir að jú, vissulega séu þetta brandarar en sumir geti sagt þá og aðrir ekki,“ segir Jech. Með brandaranum sé hann að benda á að framreiðslan skipti jafnmiklu máli og innihaldið. „Flestir brandaranna eru skrautlegri en þessi,“ bætir Jech við og hlær.

Ekki gleyma áhorfendum

Jech segir handritshöfunda oft telja umfjöllunarefni sín áhugaverð en það sé aðeins hluti af því að ná árangri. „Þetta snýst m.a. líka um það hvaða upplýsingar eru veittar og hverjar ekki, hverjar er beðið með að veita og öll þessi atriði sem handritshöfundar þurfa að hafa í huga og læra. Aðrir geta aðstoðað þá í þeirri vinnu og svo eru ýmis tæknileg atriði sem tengjast ólíkri uppbyggingu,“ segir Jech. Þegar kennslan verði of tæknileg og jafnvel leiðinleg sé gott að grípa til brandara til að ná athygli fólks.

Spurður að því hvaða mistök hann sjái ítrekað hjá handritshöfundum nefnir Jech sem dæmi að þeim hætti til að gleyma áhorfendum við skrifin. „Þetta snýst ekki bara um að trúa því að maður sé að skrifa eitthvað stórfenglegt heldur líka að kynna það fyrir áhorfendum þannig að þeir skilji það. Önnur algeng mistök eru að laga persónurnar of mikið að sögunni, ráðskast með þær þannig að þær verða ótrúverðugar. Höfundarnir vilja koma sögunni á framfæri og laga persónurnar að henni.“

Erfitt að skrifa handrit

– Ef persónurnar eru ótrúverðugar nýtur maður ekki myndarinnar...

„Já, algjörlega. Það er að stóru leyti ástæðan fyrir því að fólk nýtur ekki kvikmyndar, fær ekkert út úr henni og getur ekki lifað sig inn í hana. Stór hluti þess að njóta kvikmyndar er að verða hluti af lífi annarra og læra eitthvað af því. Að gleyma sér í þeim heimi og fá eitthvað út úr því. Þetta gleymist stundum því það er mjög erfitt að skrifa handrit, það er marglaga vinna og hluti hennar er afar stærðfræðilegur og getur náð yfirhöndinni eða gleymst. Maður þarf að finna jafnvægið milli þessara ólíku þátta,“ segir Jech að lokum.

Fjögur kvikmyndaverkefni

Mini MIDPOINT handritavinnustofan fer fram um helgina. Framleiðandi og handritshöfundur eða leikstjóri með fyrstu eða aðra mynd í þróun sóttu sameiginlega um setu í vinnustofunni og voru fjögur verkefni valin og er lögð áhersla á að reyndir aðilar vinni með þeim sem eru skemmra á veg komin á ferlinum, að því er segir í tilkynningu frá Stockfish. Verkefnin eru eftirfarandi:

• The Ambassador, Jónas Knútsson handritshöfundur

og Júlíus Kemp framleiðir ásamt Ingvari Þórðarsyni

• One Kiss Away from Love, handritshöfundur Hallgrímur Helgason

og Lilja Ósk Snorradóttir framleiðandi.

• Party Beneath a Stone Wall, Vera Wonder Sölvadóttir

handritshöfundur og Gudrún Edda Þórhannesdóttir framleiðandi.

• Rogastanz, Ingibjörg Reynisdóttir handritshöfundur

og Júlíus Kemp framleiðandi.

Verkefnin voru valin af nefnd sem samanstóð af MIDPOINT, Kvikmyndamiðstöð og fulltrúum sex fagfélaga sem koma að kvikmyndagerð hér á landi og standa að baki Stockfish. MIDPOINT er handritamiðstöð stofnuð af FAMU og er markmið hennar að styrkja handritagerð í Evrópu. Frekari upplýsingar um hana má finna á midpoint-center.eu.