![Sýningin „Verkin einkennast af formrænni fjölbreytni, svífandi hreyfingu og léttleika sem er nokkuð ólík þeirri formfestu sem einkennir geómetrísk málverk margra kollega hennar hér á landi á sama tíma,“ segir rýnir um verk Valgerðar Hafstað (1930-2011). Sýningin er í Gerðarsafni í Kópavogi og lýkur á sunnudaginn kemur.](/myndir/gagnasafn/2015/02/19/GFDTMIGG.jpg)
Valgerður Hafstað (1930-2011) mun hafa sýnt verk sín í fyrsta skipti í Galerie La Rouge árið 1957 á samsýningu með Gerði Helgadóttur (1928-1975) myndhöggvara. Báðar voru þá búsettar í Parísarborg eftir að hafa numið þar myndlist. Leiðir myndverka þeirra liggja nú aftur saman á tveimur sýningum á efri hæð Listasafns Kópavogs, Gerðarsafns. Efnt hefur verið til sýningar á verkum Valgerðar undir yfirskriftinni „Andvari“ í öðrum salnum og í hinum stendur yfir innsetningin „Stúdíó Gerðar“, sem jafnframt er smiðja og fræðslusýning um Gerði.
Á sýningunni og í smiðjunni „Stúdíó Gerðar“ eru aðgengilegir sýningartextar á veggjum og salnum er skipt hugvitsamlega upp í „herbergi“ í þeim tilgangi að varpa ljósi á ólíka þætti í listsköpun Gerðar Helgadóttur. Sýningarreynslan verður þannig eins og lítið ævintýri þar sem hægt er að hverfa á vit fortíðar og fá innsýn í vinnustofu Gerðar í París, og taka virkan þátt í sköpuninni. Þegar undirritaða bar þar að garði var ljóst að yngri kynslóðir sýningargesta höfðu ekki látið sitt eftir liggja. „Stúdíó Gerðar“ er metnaðarfull og vel heppnuð fræðslusýning og ekki spillir fyrir að hún er í aðalsal safnsins (en ekki á neðri hæð, í hliðarherbergi eða jafnvel skoti við stiga eins og oft er raunin með slíkt starf í listasöfnum hérlendis, þótt vandað sé). Á neðri hæð safnsins er svo áfram unnt að öðlast innsýn í listsköpun Gerðar, m.a. með því að skoða þar tímalínu um feril hennar og horfa á heimildarmyndina Líf fyrir listina .
Sýningin „Andvari“ er forvitnileg enda hafa verk Valgerðar Hafstað fremur sjaldan sést á sýningum hérlendis. Hún var virk í íslensku listalífi þegar strangflatarlistin var áberandi á 6. áratug 20. aldar og má á sýningunni sjá nokkuð af geómetrískum afstraktverkum sem hún vann með gvasslitum á pappír um miðbik þess áratugar. Verkin einkennast af formrænni fjölbreytni, svífandi hreyfingu og léttleika sem er nokkuð ólík þeirri formfestu sem einkennir geómetrísk málverk margra kollega hennar hér á landi á sama tíma. Í afstraktmálverkum frá 1959 sést hvar hún hefur horfið frá hreinum flötum og skýrum línum geómetríunnar, og sett í öndvegi túlkun birtunnar á ljóðrænan hátt.
Áhorfandinn verður hins vegar að geta í eyðurnar varðandi listsköpun Valgerðar á 7., 8. og 9. áratugnum því engin verk er að sjá frá þessu tímabili utan eins verks dagsetts 1988-1990. Engin skýring er gefin á þessu. Stærsti hluti verkanna á sýningunni er frá 10. áratugnum auk verka frá upphafi 21. aldar og er óhlutbundið myndmál þar áfram í fyrirrúmi. Yngri verkin á sýningunni hafa til að bera pastelkennda mýkt þar sem áherslan er gjarnan á miðlægt, ferningslaga form (stundum húsaform), sem í verkum nr. 30-37 leiða hugann að ferningum í súprematisma rússneska listamannsins Malevich, eða þá að myndflöturinn skiptist upp í mörg form, oft ferninga. Verkin hanga gjarnan þétt saman á vegg en maður veltir fyrir sér hvort fínleg mýktin í myndum Valgerðar þarfnast ekki meiri nándar við áhorfandann og sýningarsals sem heldur betur utan um þau en hinn víðáttumikli salur Gerðarsafns. Sýningarborð með skissum og módelstúdíum frá Parísarárunum skapar tilbreytingu í salnum en heildaryfirbragð sýningarinnar er fulldauft og einhæft.
Jón B.K. Ransu ritar texta í sýningarskrá og bendir þar á að Valgerður hafi, eins og ýmsir afstraktlistamenn aðrir, verið áhugasöm um dulspeki og andlegar víddir tilverunnar og er áhugavert að skoða sýninguna með það í huga. Hins vegar er ekki ljóst hvað hann á við þegar hann segir að með hliðsjón af áhuga Valgerðar á esóterisma séu óhlutbundin verk hennar „ekki gerð fyrir listarinnar sakir“, heldur séu þau hluti af löngu ferli innri könnunar. Þetta mætti skilja sem svo að listrænt gildi verkanna væri aukaatriði. En er listsköpun ekki ávallt hluti af könnunarferli á innri og ytri veruleika? Tengsl milli verkanna og hins andlega eru gefin til kynna sem leiðarstef sýningarinnar í sýningartextanum og raunar einnig með yfirskriftinni „Andvari“ – en þó er þessum tengslum ekki fylgt markvisst eftir á sýningunni sjálfri.
Sýningin á verkum Valgerðar nýtur á vissan hátt góðs af kraftinum sem stafar frá vinnustofu Gerðar en við samanburðinn vakna hins vegar spurningar, t.d. um það hvers vegna þar séu ekki einnig upplýsandi sýningartextar á vegg (og ef til vill eins og ein mynd af Valgerði við iðju sína). Þótt ólíkar væru deildu Valgerður og Gerður áhuga á óhlutbundinni myndtjáningu og dulspeki auk sameiginlegrar reynslu í París. Þessi tengsl listamannanna eru ekki dregin fram í safninu en með því að upplýsa sýningargesti betur um þau, hefði óneitanlega kviknað líflegri samræða milli sýninganna tveggja.
Anna Jóa