Margrét Kr. Sigurðardóttir margrét@mbl.is Svo virðist sem bifreiðasala sé komin á skrið en 25% aukning var í sölu fólksbíla í janúar á milli ára. Kaupendur dýrari bíla hafa nú frekar efni á þeim en áður var án hárrar lánsfjármögnunar.

Sala á fólksbílum var 25% meiri nú í janúar en á sama tíma í fyrra og salan var 69% meiri en hún var í desember. Gert er ráð fyrir að bílasala aukist um 15% á þessu ári til samanburðar við síðasta ár og að rúmlega 11.000 fólksbílar muni seljast þetta árið.

Þegar bílainnflutningur var hvað mestur árið 2005 seldust rúmlega 18.000 bílar. Í kjölfar hrunsins féll bílasala mikið og fór salan niður í 2.020 bíla árið 2009. Aukning í sölu fólksbíla var mjög hæg árin eftir hrun en heldur hefur verið að bætast í undanfarið ár.

Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, segir skýringuna á þessari aukningu vera að frá hruni hafi orðið endurnýjun á bílum að neinu marki. „Eftirspurnin er orðin mikil eftir nýjum bílum því bílaflotinn er orðinn gamall og slitinn. Aðstæður fólks eru að batna þannig að það hefur tök á að endurnýja bílana sína. Þá hafa lánamöguleikar verið að opnast aftur sem hefur ekki verið til langs tíma og fólk getur nú fengið hagstæð bílalán,“ segir Özur og bætir við að þá sé verð á bílum ágætt því bifreiðaumboðin hafi verið öflug við að ná verði niður frá framleiðendum.

Minni bílar og millistærð

Aukningin hefur aðallega verið í minni bílum og millistærð en dýrari bílar hafa einnig selst betur þó í minna magni sé. „Salan á dýrari bílum er að komast á skrið aftur en það var nánast engin sala á þeim. Breytingin sem hefur orðið er að núna eru dýrari bílarnir ekki fjármagnaðir með 100% lánum heldur hafa kaupendurnir ráð á þeim.“

Özur segir þó að ytri aðstæður eins og kjarasamningar og gjaldeyrishöft geti haft áhrif á endurnýjun bílaflotans.

Flotinn sá elsti í Evrópu

Erna Gísladóttir forstjóri BL segir að söluaukningin gefi til kynna að nú loksins sé hægt að horfa á byrjun þess að bílaflotinn endurnýist. „Flotinn er orðinn mjög gamall. Meðalaldur bifreiða hér á landi er orðinn sá hæsti í Evrópu eða 12 ár. Það er því þjóðhagslega hagkvæmt að endurnýja flotann.“ Hún segir að lánamöguleikar hafi batnað og þegar fólk reikni út rekstrarkostnað þar sem viðgerðir og bensínnotkun er tekin inn í þá sé oft hagstæðara að kaupa nýja bíla sem eru með 3ja ára ábyrgð og eyða jafnvel helmingi minna en eldri bílar. Því sé oft á tíðum hagstæðara að skipta.