Sala á fólksbílum var 25% meiri nú í janúar en á sama tíma í fyrra og salan var 69% meiri en hún var í desember. Gert er ráð fyrir að bílasala aukist um 15% á þessu ári til samanburðar við síðasta ár og að rúmlega 11.000 fólksbílar muni seljast þetta árið.
Þegar bílainnflutningur var hvað mestur árið 2005 seldust rúmlega 18.000 bílar. Í kjölfar hrunsins féll bílasala mikið og fór salan niður í 2.020 bíla árið 2009. Aukning í sölu fólksbíla var mjög hæg árin eftir hrun en heldur hefur verið að bætast í undanfarið ár.
Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, segir skýringuna á þessari aukningu vera að frá hruni hafi orðið endurnýjun á bílum að neinu marki. „Eftirspurnin er orðin mikil eftir nýjum bílum því bílaflotinn er orðinn gamall og slitinn. Aðstæður fólks eru að batna þannig að það hefur tök á að endurnýja bílana sína. Þá hafa lánamöguleikar verið að opnast aftur sem hefur ekki verið til langs tíma og fólk getur nú fengið hagstæð bílalán,“ segir Özur og bætir við að þá sé verð á bílum ágætt því bifreiðaumboðin hafi verið öflug við að ná verði niður frá framleiðendum.
Minni bílar og millistærð
Aukningin hefur aðallega verið í minni bílum og millistærð en dýrari bílar hafa einnig selst betur þó í minna magni sé. „Salan á dýrari bílum er að komast á skrið aftur en það var nánast engin sala á þeim. Breytingin sem hefur orðið er að núna eru dýrari bílarnir ekki fjármagnaðir með 100% lánum heldur hafa kaupendurnir ráð á þeim.“Özur segir þó að ytri aðstæður eins og kjarasamningar og gjaldeyrishöft geti haft áhrif á endurnýjun bílaflotans.