Hlaup
Sindri Sverrisson
sindris@mbl.is
Víðavangshlaup ÍR fer fram í hundraðasta sinn eftir rúma tvo mánuði, sumardaginn fyrsta hinn 23. apríl. Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því að Jón Kaldal vann fyrsta hlaupið árið 1916 en Gunnar Páll Jóakimsson, þjálfari hjá ÍR og sigurvegari hlaupsins árið 1982, segir það ávallt skipa sérstakan sess í huga margra.
„Í hugum keppnishlaupara hefur það alltaf verið mjög eftirsóknarvert að vinna þetta hlaup. Þessi langa saga hlaupsins þýðir að maður getur notað það til að lesa í það hverjir hafa verið bestu hlauparar landsins í gegnum árin, og á mínum ferli var það einn eftirminnilegasti sigurinn að hafa unnið Víðavangshlaup ÍR,“ sagði Gunnar Páll við Morgunblaðið.
Hlaupið er að vanda 5 kílómetra langt og hefst í Tryggvagötu en endar við Arnarhól. Nú til dags er hlaupið á malbiki og því í raun um götuhlaup að ræða, en sú var ekki raunin á fyrstu árum hlaupsins.
„Menn hlupu mjög fljótlega einhvern hluta hlaupsins á götum, úr því að það endaði í miðbænum. Í sögunni hefur hins vegar oft verið hlaupið yfir skurði og girðingar og þvíumlíkt, en undir lok síðustu aldar var hlaupið alfarið orðið götuhlaup. Menn hafa þó ekki breytt nafninu enda á hlaupið sér ríka sögu,“ sagði Gunnar Páll.
Ingvar Hjartarson og Arndís Ýr Hafþórsdóttir úr Fjölni eru ríkjandi meistarar og þau Aníta Hinriksdóttir og Kári Steinn Karlsson unnu tvö ár í röð þar á undan. Mikill fjöldi tekur nú þátt í hlaupinu ár hvert, og að þessu sinni er börnum undir 16 ára aldri boðin þátttaka án endurgjalds, sem reyndar er ekki óþekkt í hlaupinu.
„Það kom fyrir í kringum árið 1970 að það var innan við tugur manna sem tók, svo fámennt var. Með þeirri miklu vakningu sem orðið hefur í götuhlaupum hleypur þátttakendafjöldinn á hundruðum í dag,“ sagði Gunnar Páll.
Á meðal þátttakenda í ár verða margar kempur en öllum núlifandi sigurvegurum þess er boðið á staðinn hvort sem þeir taka þátt eða fylgjast með. Þar á meðal eru gamlar hetjur á borð við Kristleif Guðbjörnsson, Stefán Árnason og Hauk Engilbertsson, sem eru á áttræðis- og níræðisaldri.
„Við höfum fengið mjög góðar undirtektir og menn koma jafnvel erlendis frá sérstaklega til að vera viðstaddir hlaupið,“ sagði Gunnar Páll.
Forskráning í hlaupið er hafin á vefsíðunni hlaup.is og stendur yfir til miðnættis 22. apríl.