Á síðustu árþúsundum hefur mannsheilinn minnkað. Ástæðan er einfaldlega sú að hér áður fyrr þurfti fólk að vita talsvert meira til þess að komast af. Tilveran var eflaust að mörgu leyti einfaldari enda þurfti fólk ekki að hafa áhyggjur af t.d. skattskýrslum og gjaldeyrishöftum á tímum landbúnaðarbyltingarinnar, en engu að síður þurfti talsverða þekkingu á umheiminum til þess að komast af. Líf nútímamanns krefst nánast engrar þekkingar á heiminum eða gangi náttúrunnar. Ef við kæmum háttsettum einstaklingi úr íslensku samfélagi – segjum til dæmis vel menntuðum stjórnanda í fjárfestingarbanka eða umhverfisráðherra – fyrir á afskekktri eyðieyju ásamt litlum apa, þá værum við líklegri til að veðja á apann þegar kæmi að því að bjarga sér og komast lífs af. Apinn mun aldrei skilja hugmyndir um hvernig tryggja eigi hagvöxt og framfarir á eyjunni þegar hún byggist loks eða röksemdarfærslur þess efnis að framtíðarráðamenn eyjunnar geti notið góðs af því að misskilja vísvitandi orðalag alþjóðasamninga, en hann mun engu að síður að öllum líkindum spjara sig ágætlega þarna fyrst um sinn og mun betur en hinir viti bornu ferðafélagar hans.
Annað sem er ljóst að hefur dvínað umtalsvert er athyglisgáfa okkar. Forfeður okkar neyddust til þess að helga sig líðandi stund, þeir þurftu að hlusta á umhverfishljóð, renna á lykt, gaumgæfa hvað var að gerast í kringum þá. Þess vegna höfum við ólík skynfæri. Sama gildir um dýr í náttúrunni, þau lifa hér og nú, komast ekki upp með annað. Við á hinn bóginn höfum enga sérstaka þörf fyrir að vera vakandi gagnvart því sem er á seyði í kringum okkur. Við getum auðveldlega liðið í gegnum daga, mánuði, ár án þess að pæla nokkuð í umhverfi okkar, starandi á ómótstæðilegan skjá sem örvar okkur í sífellu. Tækin í lífi okkar gera okkur kleift að lifa annars staðar en þar sem við erum í raun. Hver kannast ekki við að endurhlaða samskiptamiðlasíður reglulega, aftur og aftur og aftur, í leit að örvun, læki, einhverju sem skekur sálina í augnablik? Snjallsímar, samskiptamiðlar, internetið – þessi fyrirbrigði hafa breytt heiminum á marga vegu, eflaust oft til góðs, en þau hafa líka breytt okkur í fanga eigin fýsna og langana.
En það er líka eitthvað í samfélagsgerðinni sjálfri sem fær okkur til að hafna líðandi stund. Við þráum að sogast inn í framtíðina, því þar liggur lykillinn að bættum lífskjörum. Við trúum því einlægt að morgundagurinn verði betri en dagurinn í dag – þessi hugsun er grundvöllur hagkerfisins. Á morgun mun líta dagsins ljós nýtt tæki – snjallsími, úr, bifreið – sem mun bæta tilveruna á meira afgerandi hátt en þau tæki sem við höfum í dag. Framfarir morgundagsins munu gera allt betra. Þessu trúum við jafnvel þótt ekkert bendi til þess að við séum hamingjusamari en forfeður okkar. Samt erum við þúsund sinnum tæknivæddari og valdameiri en þeir. Kannski er ein ástæðan sú að óháð ytri aðstæðum getur maður endalaust dreift athygli sinni með skipulagningu, þrám eða áhyggjum til framtíðar, en dýpsta rót hamingjunnar er alltaf fólgin í meðvitund og athygli í líðandi stund.
Halldór Armand