Indriði Indriðason fæddist á Grenjaðarstað í Aðaldal 16. apríl 1932. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Skjóli 7. febrúar 2015.
Hann var sonur hjónanna Indriða Indriðasonar, rithöfundar og ættfræðings frá Ytra-Fjalli í Aðaldal. Foreldar Indriði Þorkelsson, skáld og bóndi á Ytra-Fjalli, og Kristín Sigurlaug Friðlaugsdóttir húsfreyja. Móðir Indriða var Sólveig Jónsdóttir frá Brautarholti á Kjalarnesi. Foreldrar Sólveigar voru Jón Jónatansson, alþingismaður á Ásgautsstöðum, Stokkseyri, og Kristjana Benediktsdóttir, húsfreyja. Foreldrar Indriða fluttu til Reykjavíkur 1934 og ólst hann þar upp. Indriði átti tvær systur, Ljótunni, f. 1938, og Sólveigu, f. 1946, d. 2014.
Indriði giftist 28. nóvember 1954 Valgerði Sæmundsdóttur, f. 6. apríl 1931, d. 4. desember 2000. Foreldrar Valgerðar voru hjónin Sæmundur Reykjalín Guðmundsson bóndi frá Lómatjörn í Grýtubakkahreppi og Guðrún Jónsdóttir ljósmóðir frá Hóli í Höfðahverfi. Þau fluttust að Fagrabæ í Grýtubakkahreppi 1938 og bjuggu þar til æviloka.
Indriði og Valgerður eignuðust tvær dætur. Þær eru Guðrún, f. 18. júní 1955, leikskólakennari, gift Jóni Ágústi Sigurjónssyni rafmagnstæknifræðingi. Þeirra börn eru Bjarki Rafn, f. 1979, Vala Sif, f. 1982, Sindri Freyr, f. 1990, og Vera Björk, f. 1992. Sólveig, f. 22. október 1956, tannsmiður, gift Stefáni K. Guðnasyni rafverktaka. Þeirra börn eru Indriði, f. 1977, Heiður, f. 1981, og Arnþór, f. 1983. Indriði átti átta barnabarnabörn sem eru Ágústa Rún, Lilja Mist, Úlfur Hrafn, Stefán Leon, Tómas Ingi, Jökull Smári, Kristín Edda og óskírð Bjarkadóttir.
Indriði ólst upp í Reykjavík en fór í sveit til föðursystur sinnar, Sólveigar, að Syðri-Brekkum og var þar á sumrin og einn vetur og þar leið honum vel. Hann fór í Héraðsskólann á Laugarvatni en að því loknu fór Indriði í skógfræðinám í skóla Skógræktar ríkisins á Grettisgötu 8. Skógfræðinámið tók tvo vetur og þrjú sumur og var Indriði í Alaska í sex mánuði sem var hluti af náminu og safnaði meðal annars trjáfræi. Þegar Indriði kom heim frá Alaska fór hann til starfa í Vaglaskógi en þar kynntist hann eiginkonu sinn Valgerði.
Indriði og Valgerður fluttu að Tumastöðum í Fljótshlíð 1954 og bjuggu þar til 1999 þegar þau fluttu til Reykjavíkur. Indriði var skógarvörður Skógræktar ríkisins frá 1962.
Útför Indriða fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 19. febrúar 2015, kl. 13.
Það er með þakklæti í huga sem ég minnist þín, Indriði tengdapabbi, nú þegar þú ert farinn á stefnumót við hana Völlu þína sem þú misstir fyrir 14 árum. Takk fyrir að fá að búa hjá ykkur Völlu þegar ég var í sumarvinnunni hjá skógræktinni á Tumastöðum fyrir tæplega 40 árum, rétt eftir að ég kynntist henni Rúnu dóttur þinni. Á þessum tíma kennduð þið Valla mér að þekkja helstu trjátegundir á Íslandi, þú sagðir mér sögu skógræktar á Íslandi en ég hef ætíð síðan haft mikinn áhuga á skógrækt. Þakka þér fyrir allar skemmtilegu veiðiferðirnar, sérstaklega í Rangárnar, þú varst lunkinn veiðimaður og náðir oftast í fisk á undan mér en ég kom nokkuð oft heim með öngulinn í rassinum, alla vega framan af. Þú varst safnari af guðs náð og áttir einstakt mynt- og frímerkjasafn ásamt safni litskrúðugra jólakorta og gamalla póstkorta með myndum af bæjum, húsum og fólki frá horfinni tíð. Þú flokkaði þetta allt saman af fagmennsku og raðaðir öllu í möppur og þar til gerðar hirslur. Börnunum mínum fannst alltaf jafn spennandi að koma í heimsókn á Tumastaði nánast hverja helgi í mörg ár til afa og ömmu og fá að skoða peningasafnið þitt. Þú varst prúðmenni alla tíð, skapgóður og nægjusamur og kvartaðir aldrei, ekki einu sinni í veikindum þínum undanfarið ár en fannst leiðinlegt hvað þú varst orðinn gleyminn og oft þreyttur en þú hélst góða skaplyndinu og stríðninni til endalokanna.
Jón Ágúst.
Ég var staddur í Kína þegar ég fékk fréttirnar um að þú værir orðinn rosalega veikur, ég hafði áhyggjur af að ég myndi ekki ná að hitta þig og kveðja. Eins sorglegt og það er að kveðja þig þá er ég þakklátur að hafa komist í tæka tíð til að geta kvatt þig. Margar af mínu bestu og hlýjustu æskuminningum voru hjá þér og ömmu á Tumastöðum þar sem við fjölskyldan eyddum mörgum helgum okkar í heimsókn. Heimilið hjá þér og ömmu var algjör paradís fyrir litla krakka eins og mig og systkinin, sem er líklega ástæðan fyrir því að við eyddum svo miklum tíma hjá ykkur, þið voruð með stóran garð, ferskt grænmeti og ber, rólur, læk til að veiða í og fleiri spennandi hluti í kring. Ég man að ég hafði alltaf svo gaman af því að sjá peningasafnið þitt og svo þegar mér leiddist leyfðir þú mér að telja allt klinkið sem var uppsafnað hjá þér, og ekki skemmdi það fyrir að eftir að því verki var lokið þá deildir þú því jafnt á milli mín og Veru Bjarkar sem við settum svo í sparibaukana okkar.
En nú ert þú kominn á betri stað og loksins sameinaður með ömmu. Bless afi minn og heilsaðu ömmu frá mér.
Þinn,
Sindri Freyr.
„Blóm eru ódauðleg. Þú klippir þau á haustin, og þau vaxa aftur á vorin – einhvers staðar.“
(Halldór Laxness.)
Indriði Ingi Stefánsson.
Að lokinni skólagöngu, sendi Hákon okkur til Alaska. Fyrst vorum við þar við vinnu við stígagerð, veiðivörslu og síðar um haustið við fræsöfnun. Þegar heim kom sinntum við ýmsum skógræktarstörfum. Indriði réð sig sem skógarvörð og ræktunarstjóra Skógræktar ríkisins að Tumastöðum í Fljótshlíð. Hann var góður ræktunarmaður, en þau hjónin Indriði og Valgerður unnu bæði af mikilli elju og samviskusemi við uppeldi trjáplantna. Eftir að við eignuðumst fjölskyldur efndum við oft til endurfunda og fórum saman um landið öllum til mikillar ánægju.
Indriði var áhugasamur safnari, safnaði frímerkjum, peningum og kortum. Hann var ætíð reglusamur. Hann var mjög sjálfstæður, lét ekki stjórna sér og fór sínar eigin leiðir.
Ég tel það hafi verið mér mikils virði að fá að vera náinn vinur hans Indriða. Hann var mér að sumu leyti eins og bróðir. Við áttum ekki bræður og þurftum að tuskast eins og bjarnarhúnar gera. Sem betur fer urðum við ekki fyrir hnjaski, því þetta var allt vegna vinskapar sem aldrei bar skugga á.
Við Dísa þökkum samfylgd í gegnum tíðina og vottum Systu, Rúnu og allri fjölskyldunni okkar dýpstu samúð.
Vilhjálmur Sigtryggsson
Indriði hafði 1949 ráðist til starfa hjá Skógrækt ríkisins og byrjað verklegt skógræktarnám á Vöglum í Fnjóskadal sem var hluti af námi í skóla Skógræktar ríkisins frá 1951 til 1953. Árið 1953 fór Indriði í námsferð til Alaska, vann á rannsóknastöð í fimm mánuði og safnaði fræi fyrir Ísland á í tvo mánuði um haustið. Að lokinni þessari skólagöngu var Indriði fastráðinn verkstjóri í gróðrarstöðinni á Tumastöðum en forstöðumaður hennar og skógarvörður 1962.
Þessi kafli í skógræktarsögu Íslands, þegar hafin er stórfelld ræktun skógarplantna í stórum gróðrarstöðvum víða um land, markar þáttaskil í ræktunarferlinu. Indriði og fleiri ungir menn öfluðu sér menntunar og reynslu hérlendis og erlendis, lögðu grunn að vaxandi skógrækt í landinu. Ekki var alltaf hægt að yfirfæra erlenda þekkingu á íslenskar aðstæður en með útsjónarsemi, elju og grænum fingrum náðu menn smátt og smátt tökum á verkefninu og var Indriði fremstur meðal jafningja. Um árabil ráku þau Valgerður Sæmundsdóttir, kona hans, stærstu skógarplöntustöð landsins og framleiddu plöntur í flesta eldri skóga á Suður- og Vesturlandi sem nú eru grunnurinn í skógarauðlind Íslands og uppistaðan í þeim viðarafurðum sem fást með grisjunum þjóðskóganna þessi misserin. Fjöldi garða og sumarhúsalóða er líka prýddur trjám og runnum frá Tumastöðum. Lifandi minnisvarðar um ævistarf Indriða og Valgerðar eru um land allt.
Þegar ég gegndi stöðu skógarvarðar á Austurlandi 1978-1990 var ekki ónýtt að geta leitað til reynslubolta eins og Indriða og fengið ráð og leiðsögn um rekstur stöðvarinnar og á þessum árum kynntist ég honum best. Ég upplifði Indriða sem ljúfan mann, íhugulan, vandvirkan og útsjónarsaman sem hafði góða stjórn á sínu fólki og verkefnum. Eitt af því sem ratað hefur í orðabók skógræktarmanna er athugasemd sem Indriði kom gjarnan með þegar skógarverðir sátu á hugarflugi og lögðu upp stórhuga áætlanir um eflingu skógræktar í landinu: „En hver á svo að vinna verkið?“ Þetta kom mönnum stundum niður á jörðina aftur.
Segja má að gróðrarstöðvarekstur hafi verið aðalstarf Indriða þau rúmu 50 ár sem hann starfaði hjá stofnuninni. Hann átti stóran þátt í að þróa og móta þær framleiðsluaðferðir sem notaðar voru á þessu tímabili frá dreifsetningu til móbands og að lokum fjölpottaræktun í gróðurhúsum. Það var gæfa Skógræktar ríkisins að hafa á að skipa mönnum eins og Indriða sem byggðu upp þekkingu á skógarplöntuframleiðslu í landinu og gátu miðlað henni áfram.
Við Berit vottum fjölskyldu og aðstandendum innilega samúð okkar.
Jón Loftsson
skógræktarstjóri.