Fjölnir í Grafarvogi er eitt yngsta félag borgarinnar en það kemur ekki að sök enda félagið örugglega eitt það stærsta í Reykjavík þar sem það þjónar einu fjölmennasta hverfi borgarinnar. Fótboltinn er að sjálfsögðu fyrirferðarmikill í starfi Fjölnis, eins og gengur og gerist hjá stærri klúbbum landsins. Vel er haldið utan um allt starf hjá félaginu og segir Kristján Einarsson, formaður knattspyrnudeildar Fjölnis, að aldrei hafi fleiri iðkendur í yngriflokkastarfi verið valdir í landsliðshópa. „Gott starf barna- og unglingaráðs okkar er að skila sér og þá sérstaklega í kvennaboltanum þar sem við sjáum aukinn áhuga hjá yngstu flokkum kvenna. Það er góður grunnur að byggja á inn í framtíðina enda stefna félagsins að spila á sem flestum uppöldum leikmönnum í afreksdeildum okkar.“
Kvennalið Fjölnis spilar í 1. deild í sumar og segir Kristján stefnt á að koma liðinu upp í efstu deild. Þeim árangri náði karlalið félagsins á síðasta ári og leikur því meðal bestu liða landsins í sumar. „Góður árangur meistaraflokka liðsins skilar sér inn í yngriflokkana okkar og núna er nokkur undiralda hjá okkur.“
Samkeppnin er hörð í efstu deild, bæði karla og kvenna, en það er ekkert til fyrirstöðu fyrir Fjölni að ná góðum árangri í sumar. Með góðan hóp leikmanna í öllum flokkum og stórt og öflugt hverfi á bak við sig er ekki spurning hvort heldur hvænar Fjölnismenn fagna Íslands- eða bikarmeistaratitlinum.