Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
„Meðvindurinn sem við höfðum í stélið á leiðinni heim var töluverður. Þegar best lét var hraðinn 426 hnútar eða 790 km. á klukkustund,“ segir Jóhann Ingi Sigtryggson, flugmaður hjá Flugfélagi Íslands.
Áhöfn á Dash-8 vél frá félaginu sló hraðamet á leiðinni Nuuk á Grænalandi og Reykjavíkur í fyrrinótt, og fór þessa leið á 2:15 klst. Algengur flugtími á þessari leið er um þrjár klukkustundir, en þessi leggur er 800 mílur eða um 1.480 km.
Jóhann Ingi segir að yfir Grænlandsjökli, þar sem flogið var í 25 þúsund fetum, hafi vindurinn verið 100 hnútar og á sundinu milli Grænlands og Íslands hafi bætt í vind og farið í 149 hnúta. Það jafngildir um 80 metrum á sekúndu.
Bein lína á 65. gráðu
Áður en farið var í loftið frá Reykjavík á mánudagskvöld reiknuðu flugumsjónarmenn Flugfélags Íslands út hvernig vindar myndu blása á flugleiðinni. Sáu að vindur stóð beint af vestri, en segja má að leiðin milli þessara höfuðstaða Íslands og Grænlands sé bein lína á 65. gráðu norðlægrar breiddar. Þeir færðu því flugleiðina sem fara skyldi um 100 kílómetra norður fyrir þekkta leið – og þar með fyrir mesta vindstrenginn. Þetta reyndist rétt ákvörðun sem stytti flugtímann um 20 mínútur frá því sem ella væri. Eigi að síður tók flugið 3:50 klst. sem er í lengra lagi. Úr því var hins vegar bætt á hinn veginn á leiðinni til baka.„Aldrei svo vitað sé hefur Nuuk-vélin verið jafn fljót í förum,“ segir Jóhann Ingi sem var flugmaður í áhöfn Kristjáns Jakobssonar flugstjóra. Lent var í Reykjavík rétt fyrir klukkan þrjú aðfaranótt þriðjudagsins. Þá voru starfsmenn Reykjavíkurflugvallar búnir að ryðja og hreinsa brautir en þessa nóttina var hvasst í Reykjavík og töluverð ofankoma. Allt gekk vel en um borð voru um 20 farþegar og frakt.
Um loftin blá
Í vetur hefur verið nokkur hræringur í lægða- og veðrakerfunum á Norður-Atlantshafinu og við slíkar aðstæður gerast stundum merkilegir hlutir í fluginu. Má í því sambandi geta þess að um miðjan mars í fyrra voru Jóhann Skírnisson flugstjóri og áhöfn hans á Dash 8 aðeins 1:15 á heimleið til Reykjavíkur frá Kulusuk á austurströnd Grænlands. Frá því meti var greint hér í Morgunblaðinu á sínum tíma – og ferðin frá Nuuk nú í byrjun vikunnar hefur verið gerð að umfjöllunarefni á vefsertinu groundspeedreecod.com en þar er greint frá ýmsum þeim metum sem flugmenn víða í veröldinni slá í ferðum sínum um loftin blá.Áfram til Danmerkur
Yfir vetr-artímann flýgur Flug-félag Íslands tvisvar í viku til Nuuk. Lagt er upp frá Reykja-vík um kl. 20 að kvöldi og komið til baka síðari hluta nætur. Að sögn Inga Þórs Guðmundssonar, forstöðu-manns sölu- og markaðssviðs FÍ, er hugsunin með þessari flugáætlun sú að farþegar frá Grænlandi geti, strax eftir að komið er til Reykjavíkur, farið suður á Keflavíkurflugvöll og þaðan með morgunvélunum áfram til Evrópu, svo sem Kaup-mannahafnar, sem er strangt til tekið höfuðborg Grænlands.Þá er FÍ einnig með Grænlandsferðir til Kulusuk, Ilulissat, Narsuruad og Scoresbysund en tíðni ferða á þessa staða er breytileg frá einum tíma til annars yfir árið.