Elísabet Sverrisdóttir er ráðgjafi hjá Hagvangi, og hefur unnið þar síðan hún lauk MSc.-gráðu í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands. Hennar helstu viðfangsefni eru ráðningar en samhliða því hefur Elísabet veitt ráðgjöf í mannauðsmálum og starfsmannavali. Í því felst m.a. að hanna starfslýsingar, sjá um fyrirlögn og túlkun prófa og annast úttektir og greiningar á stjórnskipulagi fyrirtækja. Einnig hefur Elísabet sérhæft sig í starfslokaráðgjöf sem er einn hluti ráðgjafarþjónustu fyrirtækisins gagnvart einstaklingum sem missa vinnu sína. ,,Því miður er enn verið að segja upp fólki hér og þar. Við finnum þó að atvinnumarkaðurinn er að styrkjast og er talsvert líflegri en verið hefur um langt skeið. Við erum því líka að upplifa mikla jákvæðni og eftirvæntingu um betri tíma fram undan.“
En hver eru áhugamálin? Fjölskyldan er númer eitt, tvö og þrjú og svo reynum við að ferðast eins og við getum. Núna er ég í námi í verkefnastjórnun við Háskólann í Reykjavík sem styrkir mig í því að leiða flóknari ráðningarferli sem og önnur stefnumótandi verkefni. Því gefst lítill tími fyrir annað en fjölskylduna en ég klára í vor svo þetta fer að verða rólegra. Við fórum síðast út til Flórída, hlóðum batteríin og söfnuðum smá D-vítamínforða. Það var gott frí, við höfum verið áður erlendis um jól og það er yndislegt inn á milli.“
Sambýlismaður Elísabetar er Guðmundur Hjalti Sveinsson, viðskiptastjóri á fyrirtækjasviði hjá Verði tryggingum hf., og dóttir þeirra er Ísold María 5 ára, nemandi í Barnaskóla Hjallastefnunnar í Garðabæ.
En hvað á að gera í tilefni dagsins? „Ég ætla bara að njóta dagsins í faðmi fjölskyldunnar. Dóttir mín er búin að segja mér að hún ætli að teikna mynd handa mér og semja sögu fyrir mig og er nokkuð hægt að biðja um betri gjöf?“