Frjálsar
Sindri Sverrisson
sindris@mbl.is
Aníta Hinriksdóttir úr ÍR fær mikla samkeppni í baráttu sinni um verðlaun á Sainsbury's Grand Prix í Birmingham á laugardag, sterkasta innanhúsmóti Breta ár hvert. Jenny Meadows er á meðal keppenda en hún hefur tvívegis hlaupið 800 metra hlaupið undir tveimur mínútum í ár. Íslandsmet Anítu innanhúss, sem hún setti fyrr í mánuðinum, er 2:01,77 mínútur.
„Ég er ekki búinn að grandskoða aðra keppinauta en þekki auðvitað vel til Jenny Meadows sem er einn frægasti hlaupari Breta. Hún hefur vakið mikla athygli í vetur og er greinilega í fantaformi, með tvo bestu tímana sem mælst hafa í ár,“ sagði Gunnar Páll Jóakimsson, þjálfari Anítu.
Aníta á næstbesta skráða tímann af keppendunum í vetur en auk Meadows verða andstæðingar hennar Leah Barrow og Shelayna Oskan-Clarke frá Bretlandi, Megan Krumpoch, Charlene Lipsey og Lauren Wallace frá Bandaríkjunum, og Stina Troes frá Danmörku sem er þekktari sem 400 metra grindahlaupari. Keppni í 800 metra hlaupinu er einn af hápunktum mótsins, næstsíðasta greinin, þó að á meðal keppenda séu 14 verðlaunahafar frá Ólympíuleikum.
„Aníta hefur mætt nokkrum af þessum stelpum og veit að þær eru mjög jafnar. Athyglin verður á Jenny en Aníta á alla möguleika á að vera mjög framarlega. En þetta verður mjög jafnt og taktískt hlaup, og það er það sem Aníta þarf á að halda núna. Ég veit að hana langar mikið til að bæta Íslandsmetið. Þetta er líka góður undirbúningur fyrir EM,“ sagði Gunnar Páll en Evrópumótið fer fram í Prag 5.-8. mars.