Fjármálaþjónusta Steinunn Kristín Þórðardóttir hefur gengið til liðs við sænska fjármálaráðgjafarfyrirtækið Beringer Finance AB sem meðeigandi og verður hún framkvæmdastjóri á nýrri skrifstofu fyrirtækisins sem áformað er að opna í Osló í Noregi. Í samtali við ViðskiptaMoggann segir Steinunn að undirbúningur sé þegar hafinn við að finna starfsfólk og húsnæði en stefnt sé að því að skrifstofan verði opnuð fyrir sumarið. „Við gerum ráð fyrir að hafa 5 starfsmenn á skrifstofunni í Osló en það verður mikil samvinna við aðrar starfsstöðvar Beringer Finance.“
Beringer Finance AB er sænskt fjármálaráðgjafarfyrirtæki sem sinnir verkefnum tengdum ráðgjöf við kaup, sölu, sameiningar og fjármögnun fyrirtækja í Norður-Evrópu. Höfuðstöðvar eru í Stokkhólmi en Beringer Finance er einnig með starfsemi á Íslandi sem Jónmundur Guðmarsson stýrir.
Steinunn segir að það sé gífurleg samkeppni á fyrirtækjaráðgjafarmarkaðnum en þar sem Beringer Finance sé með mjög víðtæka og sérhæfða þekkingu í tæknigeiranum veiti það samkeppnisforskot ásamt sterku tengslaneti meðal fyrirtækja, fjárfesta og frumkvöðla. „Áherslan verður á tækninálgun í sjávarútvegi, orkugeiranum og öðrum atvinnugreinum þar sem sérþekking okkar nýtist viðskiptavinum best.“ Steinunn hefur síðustu 5 ár verið búsett í Björgvin í Noregi og rekið þar eigið ráðgjafarfyrirtæki Akton AS. Áður var hún meðal annars framkvæmdastjóri hjá Íslandsbanka í London og leiddi uppbyggingu og rekstur bankans þar. Steinunn er með BA-gráðu í alþjóða viðskipta- og stjórnmálafræði og MBA-gráðu með áherslu á fjármál.