Stórleikari Hoffman og frú Robinson í The Graduate.
Stórleikari Hoffman og frú Robinson í The Graduate.
Ljósvakarýni varð á í messunni í síðasta pistli sem birtist í blaðinu í gær.

Ljósvakarýni varð á í messunni í síðasta pistli sem birtist í blaðinu í gær. Í honum var fjallað um stórleikarann Dustin Hoffman í tilefni af sýningu RÚV á Midnight Cowboy og taldi rýnir að Hoffman-æði hefði runnið á dagskrárstjóra þar sem RÚV myndi brátt sýna aðra stórmynd með Hoffman, The Graduate. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að The Graduate er ekki á dagskrá RÚV heldur ruglaði auglýsing RÚV, fyrir merkilega heimildarmynd um einn merkasta ráðningastjóra Hollywood, ljósvakarýni í ríminu. Þar kom Graduate við sögu og virðist hafa smitað rýni af Hoffman-æði. Óskaði hann þess að RÚV sýndi eina Hoffman-mynd í viku árið á enda því maður fær aldrei nóg af Hoffman.

Þetta vissi ráðningastjórinn (starfsheiti þess sem sér um að finna leikara í hlutverk í sjónvarpi eða kvikmyndum) Marion Dougherty sem fyrrnefnd heimildarmynd fjallaði um. Doherty kom m.a. auga á Hoffman á sviði og sá til þess að hann fengi hlutverk Ratso Rizzo í Midnight Cowboy. Fleiri stórleikarar eiga frægð sína og frama henni að þakka, m.a. Jon Voight sem einnig lék eftirminnilega í Midnight Cowboy. Mögnuð kona hún Doherty heitin.

Helgi Snær Sigurðsson

Höf.: Helgi Snær Sigurðsson