Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is
Liðin eru þrjú ár síðan hótelið var tekið rækilega í gegn og varð að Icelandair hótel Reykjavík Natura. Endurbæturnar miðuðu m.a. að því að gera yfirbragð hótelsins léttara og nútímalegra og um leið að áherslum í veitingum og þjónustu var breytt í áttina að aukinni hollustu og heilnæmi.
Berglid Ósk Bárðardóttir er ráðstefnu- og viðburðastjóri hótelsins og segir hún Rekjavík Natura hafa á að skipa mörgum fallegum sölum sem henti viðburðum af öllum stærðum og gerðum. „Við höfum hér fjórtán sali sem henta fyrir allt frá tveggja manna starfsmannasamtölum upp í 350 manna fund eða standandi móttöku með 500 gestum.“
Létt og hollt
Salirnir eru búnir nýjustu tækni, háskerpuskjám og fullkomnum hljóðkerfum. Tæknimenn eru ávallt á staðnum og ganga úr skugga um að tæknihliðin gangi snurðulaust fyrir sig.
Þegar hótelið var klætt í nýjan búning hóf þar starfsemi nýr og spennandi veitingastaður, Satt, þar sem hollusta, ferskleiki og bragðgæði eru í fyrrirúmi. Satt heldur utan um alla veitingaþjónustu í tengslum við fundi og ráðstefnur og segir Berglind hægt að velja hagkvæma veitingapakka eftir lengd og eðli viðburðarins. „Er t.d. í boði að kaupa hálfsdags eða heilsdagsveitingar allt eftir því hvað hentar. Oft vilja viðskiptavinir okkar lífga upp á fyrirlestur eða kynningu með léttu hanastéli og snarli eða brjóta upp heilsdagsráðstefnu með því að bjóða gestum í hádegisverðarhlaðboð á Satt.“
Berglind minnir á að þótt veitingastaðurinn Satt sé kunnur fyrir hollustu þá starfræki Satt sitt eigið bakarí og baki ferskt brauð og sætmeti á degi hverjum. Það er því sjálfsagt að verða við óskum þeirra sem vilja klassísk vínarbrauð og kökur með kaffinu, en hún getur þess að Reykjavík Natura er þekkt fyrir að halda flottar erfidrykkjur og annars konar veislur með hefðbundnu kaffihlaðborði.
Margir sjá þó mikla kosti við að velja frekar veitingar í hollari kantinum og fundar- og ráðstefnugestir séu oft glaðir að fá léttar og grænar veitingar. „Heilsusafarnir og smoothie dagsins hafa reynst mjög vinsælir á viðburðum fyrir bæði í einkageiranum og opinbera geirann og er þess vandlega gætt að hafa alltaf grænmetisrétti í boði fyrir þá sem það vilja. Matreiðslumennirnir á Satt hafa líka gaman af að takast á við skemmtilegar sérþarfir og óskir, t.d. ef viðskiptavinurinn vill hafa tiltekið litaþema í veitingunum.“
Betri orka með góðri næringu
Ekki skyldi vanmeta mikilvægi góðra veitinga fyrir vel heppnaðan viðburð. Góður matur setur oft punktinn yfir i-ið, gleður og kætir. „Fagfólk nú til dags gerir sér líka góða grein fyrir því að hollur matur með rétta næringargildið gefur þeim betri orku til að fylgjast vel með og taka þátt af fullum krafti. Liðin er sú tíð að fólk haldi sér gangandi með hverjum kaffibollanum og vínarbrauðinu á fætur öðru, til að halda blóðsykurfalli og sleni í skefjum,“ segir Berglind kímin.Það hefur ýmsa kosti að halda ráðstefnu á hóteli, sér í lagi þegar von er á erlendum gestum. Berglind segir spara tíma og auðvelda utanumhald að hafa alla undir sama þakinu. Gestir spari sér löng ferðalög milli hótelherbergja og fundarstaðar og minnki líkur á töfum og truflunum sem raskað geta dagskránni. Þá getur mjög hagkvæmt verð verið í boði þegar keypt er saman gisting og fundaraðstaða.
„Það færist í aukana að þegar fyrirtæki halda árshátíðir sínar hjá okkur þá velji gestir að kaupa sér gistingu í leiðinni. Það kostar ekki ósvipað og farið með leigubíl út í sum ystu hverfi höfuðborgarsvæðisins. Eftir nærandi svefn og morgunverð bíður svo bíllinn þar sem honum var lagt kvöldið áður.“
Náttúra og iðandi flugvöllur
Sumir fundarsalir á Reykjavík Natura bjóða upp á óvenjulega og eftirminnilega umgjörð. Berglind nefnir gamla bíósalinn sem ber skemmtilegt „retró“ yfirbragð og Sóley Natura Spa í kjallaranum þar sem hægt er að stilla upp óhefðbundnu fundarrými. Aðrir fundarsalir hafi óviðjafnanlegt útsýni yfir flugvöllinn og út á haf og margir sem sækja gagngert í að panta sal þar sem fylgjast má með flugvélunum lenda og taka á loft yfir daginn.Í næsta nágrenni hótelsins er svo hægt að stunda ýmislegt sem lífgar upp á dagskrána og vel hægt að ímynda sér að gönguferð um Öskjuhlíðina eða stuttur sundsprettur í Nauthólsvík geti komið fundar- og ráðstefnugestum í stuð, hlaðið batteríin og örvað sköpunargáfuna.