Vefsíðan Nútímamaðurinn þarf að hafa góða yfirsýn yfir gengi gjaldmiðla.

Vefsíðan

Nútímamaðurinn þarf að hafa góða yfirsýn yfir gengi gjaldmiðla. Stöðug ferðalög út í heim, fjölþjóðlegir viðskiptasamningar, nú eða hreinlega áhugavert glingur sem gaman er að panta hjá kínverskri netverslun kallar á að geta fundið út hratt og vel hvert rétt gengi er.

Ekki virðist hægt að finna betri tæki en vefinn XE.com til að kafa ofan í heillandi heim alþjóðlegra gjaldmiðla.

Svo virðist sem allar heimsins myntir séu skráðar í gagnagrunn XE, allt frá kúbverskum pesó (bæði þeim sem ríkið notar og hinum sem ferðamennirnir fá að kaupa dýrum dómum), yfir í zambískan kwacha (í dag má fá 18,5 íslenskar krónur fyrir einn kwacha).

Alla þessa gjaldmiðla má bera saman þvers og kruss og gengið alltaf nýuppfært.

Áhugamenn um gjaldeyrismál geta síðan skemmt sér við að skoða línurit sem sýna sögulega þróun gjaldmiðla gagnvart hver öðrum, yfir tímabil sem spanna allt frá einum degi upp í tíu ár. Hver veit hvaða áhugaverðu mynstur koma þá í ljós.

Svo verður að nefna XE.com-appið sem er ómissandi á ferðalögum. Þegar síminn er í netsambandi uppfærir forritið nýjustu gengistölur og hægt að umreikna á ferðinni yfir í krónur í einum hvelli, hvort sem þarf að prútta á markaði í Buenos Aires eða panta af matseðlinum í Istanbúl.

ai@mbl.is