Kaupmennirnir Pétur Alan og Friðrik Ármann Guðmundssynir standa vaktina í Melabúðinni alla daga vikunnar. Þeim finnst mikilvægt að vera í nánum tengslum við viðskiptavini sína og vilja þjónusta þá sem best.
Kaupmennirnir Pétur Alan og Friðrik Ármann Guðmundssynir standa vaktina í Melabúðinni alla daga vikunnar. Þeim finnst mikilvægt að vera í nánum tengslum við viðskiptavini sína og vilja þjónusta þá sem best. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Margrét Kr. Sigurðardóttir margret@mbl.is Bræðurnir í Melabúðinni standa vaktina alla daga vikunnar. Þeim finnst mikilvægt að vera í nánum tengslum við viðskiptavini sína, þjónusta þá sem best og hika ekki við að kynna fyrir þeim nýjar vörur.

Margrét Kr. Sigurðardóttir margret@mbl.is Bræðurnir í Melabúðinni standa vaktina alla daga vikunnar. Þeim finnst mikilvægt að vera í nánum tengslum við viðskiptavini sína, þjónusta þá sem best og hika ekki við að kynna fyrir þeim nýjar vörur. Þeim er kaupmannseðlið í blóð borið en þeir eru líka flinkir rekstrarmenn sem sést á sterkri fjárhagslegri stöðu Melabúðarinnar sem hefur skilað 33% arðsemi eigin fjár að meðaltali síðustu fimm ár og 25 milljóna króna árlegum arðgreiðslum.

Þegar bræðurnir í Melabúðinni eru spurðir hver sé lykillinn að árangursríkum rekstri til margra áratuga þurfa þeir ekki að hugsa sig lengi um. „Þekking á því hvað viðskiptavinirnir vilja á hverjum tíma,“ segja þeir bræður Pétur Alan og Friðrik Ármann Guðmundssynir en þeir sjá um daglegan rekstur verslunarinnar sem er í eigu fjölskyldunnar. Melabúðin er sögð vera helsta félags- og menningarmiðstöð Vesturbæinga en verslunin er á horni Hofsvallagötu og Hagamels. En það eru ekki einungis Vesturbæingar sem versla hjá þeim bræðrum. Fólk kemur víða að til að ná í vörur í Melabúðinni og þá ekki eingöngu frá öðrum hverfum höfuðborgarinnar heldur einnig frá nágrannasveitarfélögunum og jafnvel gerir fólk af landsbyggðinni sér sérstaka ferð í búðina.

Melabúðin var stofnuð af Sigurði Magnússyni í júlí 1956. Faðir bræðranna, Guðmundur Júlíusson, keypti reksturinn árið 1979 af Hreini Halldórssyni athafnamanni, sem hafði rekið verslunina í nokkur ár og eignaðist húsnæðið sem hýsir verslunina nokkru síðar. Guðmundur byrjaði sína kaupmennsku árið 1964 í Kjörbúð Vesturbæjar á Melhaga 2 en sá rekstur var seldur fljótlega eftir að hann keypti Melabúðina. Bræðurnir hafa þannig komið að rekstri frá unga aldri og er því óhætt að segja að það renni kaupmannsblóð í æðum þeirra. Þeir voru aðeins smástrákar þegar þeir voru komnir í búðarvinnu og hefur Pétur verið viðloðandi reksturinn í Melabúðinni frá 1979. Friðrik kom alfarið inn síðar eða árið 2001 sem var á sama tíma og faðir þeirra hætti að mestu leyti afskiptum af rekstrinum.

Þegar rýnt er í rekstrartölur Melabúðarinnar síðustu ár kemur í ljós sterk fjárhagsleg staða sem meðal annars sést á háu eiginfjárhlutfalli sem er 63%, veltufjárhlutfallið er 2,44 og lausafjárhlutfallið 1,96. Hagnaður síðustu ára eftir skatta hefur verið á bilinu 35 milljónir króna til 51 milljón króna. Sjóðsstreymið er jákvætt og hefur ekki verið lægra en 39 milljónir króna. Meðaltalsarðsemi eigin fjár hefur verið 33% síðustu fimm ár og arðgreiðslur hafa verið 25 milljónir króna árlega. Það telst nokkurt afrek í rekstri að ná svo hárri arðsemi eigin fjár og rétt að taka fram að fyrirtækið hefur ekki þurft á aðstoð bankastofnana að halda.

13.500 vörunúmer í 220 fermetrum

Vöruúrvalið í Melabúðinni er gríðarlegt. Á aðeins 220 fermetrum eru mörg þúsund vörutegundir og sem dæmi þá var 13.500 vörunúmerum velt síðustu sex mánuði. Kjöt- og fiskborðið er þeirra aðalsmerki en nú orðið eru fáar verslanir sem bjóða upp á slíkt. „Fólk gapir yfir öllu vöruúrvalinu. Við reynum að bjóða upp á vörur sem eru árstíðabundnar. Erum með villtan lax á sumrin, hreindýr fyrir jólin, svartfuglsegg og fjölbreytt grænmeti eftir árstíðum,“ segir Pétur. Þeir flytja inn töluvert af vörunum og þá sérstaklega vörur frá Bretlandi sem ekki eru fáanlegar hér. Nýjast í hillunum hjá þeim er „grænt“ Coca-Cola með færri kaloríum og náttúrulegu sætuefni. „Ef fólk spyr um eitthvað og við eigum það ekki þá í flestum tilvikum reddum við því. Við bara finnum út úr því og komum því í hillurnar.“ Þeir segja að ostaúrvalið í Melabúðinni sé það mesta sem er í boði hér á landi. Til vitnis um það bjóða þeir upp á 20-30 tegundir af geitaosti einum saman. Villti laxinn er eftirsóttur og selst alltaf allur sá lax sem þeir komast yfir, eitt sumarið seldust hátt í fjögur tonn.

Þeir bræður hika ekki við að taka inn nýjar vörur til að leyfa viðskiptavinunum að prófa. „Það er mjög oft sem fólk kemur fyrst til okkar með eigin vörur eða innfluttar til að spyrja hvort við séum tilbúnir að selja þetta. Við erum því oft fyrstir til að vera með nýjungar,“ segir Friðrik. „Við erum ekki með innkaupanefnd sem tekur langan tíma að funda um vöruna. Við segjum bara flott, komdu með hana og varan er jafnvel komin samdægurs í hillurnar.“

Pétur bætir við að þeir þurfi að vita hvað er að seljast á hverjum tíma. „Hvaða vörur eru vinsælar fyrir jólin þar sem hefðir eru í hávegum hafðar og hvað væri hægt að selja fyrir áramótin þegar fólk er meira fyrir nýjungar. Við fylgjumst líka vel með hvaða uppskriftir eru vinsælar og hvaða hráefni þarf í þær,“ segir hann en þeir hafa meðal annars lagt mikla áherslu á að vera með lífrænar vörur.

Í Melabúðinni er grillaður hinn þekkti Melabúðarkjúklingur og eldað slátur og svið eftir þörfum viðskiptavinarins. „Við erum ekki að grilla of mikið í einu þannig að viðskiptavinurinn fær þetta nánast beint úr ofninum. Hér er hægt að fá hálfan kjúkling, hálfa gúrku og einn tómat. Við tökum mið af viðskiptavinum okkar sem margir hverjir eru einir í heimili og þurfa ekki mikið magn eða stórar pakkningar,“ segir Pétur. Viðskiptavinir geta pantað hjá þeim kjöt og fisk og hefð er fyrir jóla- og áramótapöntunum í villibráð og öðru góðgæti. Viðskiptavinirnir þurfa jafnvel ekki að leggja á minnið magnið sem þeir keyptu síðast því hægt er að fletta því upp í pöntunarbókunum mörg ár aftur í tímann.

Skulda ekki neitt

En hvernig var reksturinn hjá þeim bræðrum eftir hrunið þegar mörg fyrirtæki bárust í bökkum og sum búin að offjárfesta? „Við erum ekki í fjárfestingum og við tökum ekki lán,“ segja þeir bræður. „Við fjárfestum einungis í búðinni. Við sinnum henni vel og viljum ekki fara í neina útrás.“ Þeir segjast ekki vera sérstaklega vinsælir viðskiptavinir bankanna þar sem þeir skuldi ekki neitt. „Við vorum aldrei á boðslistum bankanna þegar hæst bar og fórum engar ferðir í einkaflugvélunum,“ segja þeir hlæjandi.

Margsinnis hefur verið rætt við þá um opnun á fleiri búðum í öðrum hverfum Reykjavíkur og í nágrannasveitarfélögunum. Í eitt sinnið var um að ræða erlendan aðila sem skoðaði matvörumarkaðinn í heild sinni á höfuðborgarsvæðinu. Að skoðun lokinni sagðist hann einungis vilja fjárfesta í Melabúðar-keðjunni en þegar upplýst var að einungis væri um eina slíka verslun að ræða fór málið ekki lengra.

Hefur það aldrei verið freistandi þegar menn hafa komið með gylliboð um að opna fleiri Melabúðir? „Jú stundum, en aðeins í svona eina mínútu,“ segir Pétur og brosir. „Það er ekki nóg að opna verslun. Það þarf að sinna henni alla daga og viðskiptavinirnir þurfa að koma aftur og aftur,“ segir Friðrik og bætir við að fólk vilji fá gömlu hverfisverslanirnar aftur inn í hverfin núna þegar kaupmaðurinn á horninu er nánast horfinn.

„Borgaryfirvöld hafa komið að máli við okkur til að ræða hvort væri hægt að opna hverfisbúðir í ýmsum hverfum borgarinnar en það er enginn rekstrargrundvöllur fyrir því,“ segir Pétur. „Fólk er ekki tilbúið í svona langan vinnutíma. Hjá okkur er þetta bara hjartans mál. Það verður að sinna búðinni og vera á staðnum. Það eru ekki allir tilbúnir í þetta alla daga, öll kvöld og helgar,“ segir Pétur. Friðrik bætir við að það væri heldur ekki víst að verslun eins og Melabúðin mundi ganga annars staðar. „Velvild viðskiptavina okkar er mikil og fólk kemur langt að til að sækja vörurnar sem við bjóðum upp á.“

Stækkum innan frá

Í gegnum tíðina hafa reglulega bæst við fermetrar þegar veggir hafa verið teknir niður og verslunarrýmið sjálft stækkað. Mesta stækkunin varð þó fyrir hreina tilviljun þegar bifreið keyrði með eftirminnilegum hætti á vegg verslunarinnar árið 2013. „Þetta var lán í óláni því það gaf okkur tækifæri á að stækka verslunina og koma stórum kæli inn í búðina í gegnum gatið sem við höfðum ekki haft möguleika á að koma inn áður,“ segir Pétur.

Það eru líklega fáir viðskiptavinir sem vita að skrifstofa Melabúðarinnar er í íbúð í blokkinni sem búðin liggur að. Bræðurnir fjárfestu í íbúðinni fyrir nokkrum árum, opnuðu á milli og breyttu henni í skrifstofu og kaffiaðstöðu fyrir starfsfólkið. Viðtalið er tekið á skrifstofunni í blokkinni og þarf líklega ekki að taka fram að bræðurnir tóku ekki lán fyrir stækkuninni. „Það má segja að útrásin okkar sé innanfrá, við þurfum ekkert að opna aðra verslun,“ segir Friðrik.

Í Melabúðinni starfa 15 fastir starfsmenn og hátt í 30 í hlutastörfum. 50 ára aldursmunur er á yngsta og elsta starfsmanninum sem er rúmlega sjötugur. „Þetta er búð sem þarf mikla natni. Það þarf mikið af starfsfólki því við erum stanslaust að fylla á. Það eru ekki margar raðir af sömu vörutegund. Kannski bara ein röð því við þurfum að koma öllu vel fyrir. Við reynum að hafa nóg af starfsfólki til að þjóna öllum okkar viðskiptavinum,“ segir Pétur.

Þegar þeir eru spurðir hvort þeir hafi ákveðna verkaskiptingu sín á milli segja þeir að svo sé í ákveðnum málum en hún sé ekkert sérstaklega niðurnjörvuð. „Við skiptum á milli okkar dögunum og helgunum. Við viljum að viðskiptavinirnir og starfsfólkið finni okkur hér, því er nánast alltaf annar hvor okkar á staðnum og oftast erum við báðir,“ segir Pétur og Friðrik bætir við að það gefi ákveðið traust að vera með starfsfólkinu á gólfinu innan um viðskiptavinina.

Samkeppni stóru keðjanna

En hvað segja bræðurnir um stórmarkaðina sem þeir eru að keppa við? „Fólk kaupir pakkavöruna í stórmörkuðunum en kemur til okkar til að fá sérvöruna og vörur í minna magni. Það er erfitt að keppa við stórmarkaðina í pakkavörunni en inn á milli eru vörur hjá okkur sem ég fullyrði að eru ódýrari hjá okkur en í stórmörkuðunum,“ segir Friðrik. Pétur segir að stórmarkaðirnir kaupi inn á miklu lægra verði en þeir. „Afsláttarkjör hjá heildsölum eru svo brengluð því ef heildsölurnar veita ekki þessum keðjum það sem þær vilja þá er þeim bara hent út, valdið er svo mikið,“ segir Pétur og Friðrik bætir við: „Þetta vald höfum við ekki. En við fullyrðum að við erum með lægri heildarálagningu en stórmarkaðarnir, þeir eru með hærri álagningu.“

„Fólk heldur kannski að vara sem er keypt á 100 krónur af heildsala sé með mismunandi álagningu verslana en það gleymist að spyrja hver afsláttarkjörin eru, eru þau tíu prósent eða fjörutíu prósent,“ segir Pétur. Þeir eiga hillurnar og kælana sjálfir og ráða því hvað er í þeim og í hvaða stærðareiningum vörurnar eru. „Fólk áttar sig ekki á að hillurnar eru oft á tíðum keyptar í stórmörkuðunum. Við erum ekki að selja okkur til heildsalanna,“ segir Friðrik.

Hvað með bandarísku stórverslunina Costco þegar hún bætist við samkeppnina? „Það mun ekki koma við okkur því okkar sérstaða er svo mikil. Varan hérna selst í minni einingum og er ferskari. Þeir eru með stærri einingar fyrir stærri heimili,“ segir Pétur.

Aðgengi að búðinni mikilvægt

Breytingarnar sem gerðar voru á Hofsvallagötunni skora ekki hátt hjá bræðrunum. „Hjólastígarnir duga bara stuttan tíma á ári, núna er til dæmis enginn að hjóla úti á Hofsvallagötu. Það eru líka mjög fáir sem hjóla út í búð til að versla meira en eina, tvær vörur,“ segir Pétur.

Það eru vandamál með bílastæði nú þegar Kaffihús Vesturbæjar hefur bæst við og aukin aðsókn er í Vesturbæjarlaugina. „Við erum hræddir við það ef á að breyta Hofsvallagötunni meira og takmarka aðgengi bíla að búðinni. Ég er ekki viss um að fólk vilji fá hérna á hornið klukkubúð með minna vöruúrval og hærra verð,“ segir Pétur.

Ráðdeild í rekstri og einkalífi

Rekstrarhagnaður verslunarinnar gæti gefið fullt tilefni til að bræðurnir gætu leyft sér ýmislegt en sömu ráðdeild og notuð er fyrir verslunina nota þeir í sínu persónulega lífi. Vitnisburður um það er að báðir eiga þeir bíla sem eru orðnir 10 ára gamlir. „Við búum nálægt versluninni og erum snöggir að koma okkur hingað. Við eyðum ekki miklu og viljum ekki kaupa neitt nema eiga fyrir því,“ segja þeir.

Pétur og Friðrik halda á lofti merkjum kaupmannsins á horninu sem annars er að hverfa. Bræðurnir eru á besta aldri, fæddir 1960 og 1963, og eiga sjálfsagt eftir að standa vaktina lengi enn.

En hver er framtíðarsýnin fyrir reksturinn? „Við höldum ótrauðir áfram með sömu hugmyndafræði og við höfum verið með hingað til. Það sem aðallega gæti sett strik í reikninginn eru skipulagsyfirvöld ef aðgengi fólks að búðinni verður heft,“ segir Friðrik. Pétur bætir við að það liggi aukin tækifæri í því að innflutningur á ferskvöru sé að opnast meira. „Fólk vill fá ferskvöru. Viðskiptavinir okkar vilja margir hverjir gera hlutina frá grunni og í því felast tækifæri.“

Þótt ráðdeildin sé höfð í fyrirrúmi í rekstri Melabúðarinnar er ekki hægt að saka þá bræður um að vera gamaldags því þeir fylgjast vel með öllum nýjungum og eru jafnvel þeir fyrstu á markaðnum til að bjóða upp á nýjar vörur. „Það er mikilvægt að fylgjast vel með markaðnum, vita hvað viðskiptavinirnir vilja á hverjum tíma. Neyslumunstrið breytist sífellt,“ segir Pétur.

En hafa bræðurnir tíma til að sinna öðrum hugðarefnum en Melabúðinni? „Ég er mikill áhugamaður um veiði og veiðihunda. Ég rækta veiðihunda og er veiðihundadómari ásamt því að hafa mikinn áhuga á ljósmyndun,“ segir Pétur. Friðrik er mikill maraþonhlaupari og er núna staddur í Tókýó í Japan að hlaupa eitt af mörgum maraþonum sínum. Aðaláhugamálið er þó Melabúðin og umfram allt vilja þeir halda vel utan um rekstur hennar.