Tilbreyting „Við Höfum við til dæmis boðið upp á að afmarka sviðið með tjöldum og stilla upp fundarsvæði á sviðinu sjálfu,“ segir Sólveig um möguleikana.
Tilbreyting „Við Höfum við til dæmis boðið upp á að afmarka sviðið með tjöldum og stilla upp fundarsvæði á sviðinu sjálfu,“ segir Sólveig um möguleikana. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Einn glæsilegasta funda- og ráðstefnustað landsins má finna á Akureyri. Menningarfélag Akureyrar hefur nú tekið yfir rekstur Hofs, Leikfélags Akureyrar og Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands.

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Einn glæsilegasta funda- og ráðstefnustað landsins má finna á Akureyri. Menningarfélag Akureyrar hefur nú tekið yfir rekstur Hofs, Leikfélags Akureyrar og Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands. Með sameiningunni hefur orðið til fjölbreyttari funda- og ráðstefnuaðstaða með ólíka og margbreytilega sali í bæði Hofi og gamla Samkomuhúsinu, og henta fyrir jafnt smáar sem stórar uppákomur.

Sólveig Elín Þórhallsdóttir er sviðsstjóri viðburðasviðs hjá Menningarfélagi Akureyrar. Hún segir aðalsal Hofs, Hamraborg, vera kjörinn vettvang fyrir ráðstefnur, kynningar og fyrirlestra. „Þar eru sæti fyrir 510 gesti og sviðið er bæði stórt og vítt. Salurinn er hannaður fyrst og fremst með tónlistarflutning í huga en er margnota rými sem hentar vel fyrir ráðstefnur. Salurinn er ríkulega tækjum búinn, með skjávörpum, tjöldum og ljósum sem leyfa ýmsar útfærsur,“ segir hún. „Við Höfum við til dæmis boðið upp á að afmarka sviðið með tjöldum og stilla upp fundarsvæði á sviðinu sjálfu, og gefur það óhefðbundna en skemmtilega umgjörð utan um fundinn.“

Fallegur fjörðurinn

Salurinn Hamrar hefur á sér allt annað yfirbragð. Þar má rúma 200 manns á flötu gólfinu. Hægt er að nota palla og upphækkanir til að búa til svið svo að allir sjái vel til ræðumanna. „Þá erum við með einn „dulinn sal“ á jarðhæðinni, en það er anddyri stóra salsins. Er um að ræða fallegt rými með gluggaröð sem vísar inn Eyjafjörðinn og útsýnið sérlega fallegt á öllum árstímum en þó alveg sérstaklega á sumrin. Salurinn er bjartur og hátt er til lofts og fer vel á að halda þar veislur og móttökur. Þó er aðeins hægt að nýta rýmið með þessum hætti að því gefnu að ekki sé á sama tíma verið að nota stóra salinn undir annan viðburð.“

Minni fundarsalir hússins kallast Setberg, Dynheimar og Sólheimar. „Setberg rúmar 10-14 manns og er mjög vinsæll fyrir minni fundi fyrirtækja og stofnana á svæðinu. Eru þar glerveggir, annar sem vísar inn í húsið og hinn sem vísar út og skapar þetta létta og orkumikla umgjörð. Hægt er að draga fyrir gluggana með gluggatjöldum ef fundurinn kallar á meira næði,“ segir Sólveig. „Dynheimar henta fyrir allt að 65 gesti og Sólheimar rúma um 35 manns. Á stærri ráðstefnum eru þessir salir stundum notaðir sem vinnustöðvar fyrir ráðstefnugesti.“

Hafa sig til í förðunarherbergi

Aðstaðan í húsinu er á margan hátt einstök og þannig er til dæmis fyrsta flokks förðunarherbergi í kjallaranum sem leikarar og tónlistamenn nota áður en stigið er á svið. Ef mikið liggur við hafa fyrirlesarar þannig aðstöðu til að hafa sig til og vera upp á sitt besta áður en funda- og ráðstefnudagskráin hefst. Á Akureyri er mögulegt að tvinna saman fundahald og afþreyingu og getur verið tilvalið að ljúka deginum með eftirminnilegri leiksýningu eða sinfóníutónleikum.

Veitingastaðurinn 1862 Nordic Bistro sér um matarhliðina í Hofi og segir Sólveig að þar sé enginn skortur á metnaði og hugmyndaflugi.

„Veitingamennirnir okkar hafa verið með okkur frá upphafi og eru þaulvanir að bregðast við ólíkum óskum viðskiptavinanna. Auk þess að þjónusta fundi og ráðstefnur sjá þeir einnig iðulega um að framreiða hátíðarkvöldverði vegna fundahalda í Hofi. Á veitingastaðnum, sem opinn er alla daga vikunnar, er áherslan lögð á fjölbreyttan bistro-matseðil og danskt smurbrauð. Þá hefur sunnudags-brunchinn slegið í gegn hjá bæjarbúum.“

Loks ljóstrar Sólveig upp að til standi að bjóða upp á fundaaðstöðu í gamla Samkomuhúsinu. „Eftir nýlegan samruna heyrir rekstur Leikfélags Akureyrar undir Menningarfélag Akureyrar og höfum við því afnot og aðgang að þessu fallega og sögufræga húsi. Byggingin var vígð á Þorláksmessu árið 1906 og býr yfir sérstökum og góðum anda sem allir finna sem þangað koma inn. Það verður gaman að sjá hvernig nýta má Samkomuhúsið til funda- og viðburðahalds.“

„Eins og að koma til útlanda“

Sólveig segir að því fylgi margir kostir að halda fund eða ráðstefnu á Akureyri. Með því að færa gestina út úr sínu daglega umhverfi á suðvesturhorninu geti þeir einbeitt sér betur að dagskránni og losni við ýmsar truflanir. „Að koma hingað norður er líka svolítið eins og að koma til útlanda. Fólk kúplar sig út úr sínu reglulega mynstri og fær ákveðna hvíld með því að vera komið nýtt umhverfi, í þessum krúttlega og aðlaðandi bæ sem hefur upp á svo margt að bjóða.“

Á Akureyri, segir Sólveig, er hægt að eiga skilvirkan fundadag og svo njóta lífsins á kvöldin. „Leikhús, kvikmyndahús, tónleikastaðir og veitingastaðir bíða eftir gestum á kvöldin, á meðan áhugaverðar verslanir, söfn og skíðabrekkur bjóða ferðalanga velkomna yfir daginn.“