Teiknimyndabókin „Jesus og Mo“ kemur út í Danmörku á morgun. Útgáfan er sérstök að því leyti að hvorki höfundur né útgefandi leggja nafn sitt við bókina. „Útgefandi þorir ekki að tengja nafn sitt við nýja Múhameðs-háðsádeilu,“ sagði í fyrirsögn á viðtali við höfundinn í blaðinu Berlingske Tidende í vikunni. Í blaðinu Politiken var daginn eftir bent á að það væri ekki það eina, sem væri sérstakt við málið, því að nafn höfundar greinarinnar kom ekki heldur fram.
Breski teiknarinn hefur í tíu ár teiknað myndir af félögunum Jesú og Mó. Teiknaranum hefur oft verið hótað á heimasíðunni þar sem teikningarnar birtast. Eftir árásina á ritstjórn franska blaðsins Charlie Hebdo í byrjun janúar var ákveðið að nöfn þýðanda og útgefanda dönsku útgáfunnar myndi ekki heldur koma fram. Árásin í Kaupmannahöfn um helgina hefur ugglaust styrkt þá ákvörðun.
Fólk er hrætt og vart um sig
Menningarritstjóri og ritstjóri Berlingske Tidende vildu ekki ræða við fjölmiðla hvers vegna greinin hefði verið nafnlaus. Palle Weis, menningarritstjóri Jyllands-Posten , segir í Politiken að þetta sé „sorgleg“ þróun.„Þetta segir sitt um að fólk er hrætt og vart um sig þegar það skrifar svona fréttir þessa dagana,“ segir hann. „Þetta er ekki bara skömm heldur sorglegt að svo sé komið. Ég get skilið að menn vilji nú vera sérstaklega varkárir, en þetta er ekki leiðin fram á við. Ég vona að við munum ekki sjá meira af þessu.“
Weis segir að Jyllands-Posten hafi ekki íhugað að fjarlæga nöfn blaðamanna af fréttum. Hins vegar hafi verið rætt hvernig ætti að skreyta frétt blaðsins um bókina, hvort sýna ætti kápu hennar eða nota teikningar úr henni.
Jyllands-Posten birti ekki teikningar úr Charlie Hebdo eftir árásina í París, en það gerðu Berlingske , Politiken og Information .
Á morgun kemur einnig út í Danmörku bókin „Den bedste bog“ eftir Kåre Buitgen. Þar er Múhameð lýst sem drukknum hafri, sem stelur ljóðum frá ókunnugum og verður móðgaður þegar hann er gripinn. Buitgen var í lykilhlutverki þegar teikningarnar af Múhameð spámanni birtust í
Jyllands-Posten
á sínum tíma. Þegar enginn vildi myndskreyta barnabók Buitgens um Múhameð af ótta við viðbrögðin ákvað Jyllands-Posten að efna til samkeppni um teikningar af Múhameð til að kanna mörk sjálfsritskoðunar. Hin nýja bók Buitgens er án teikninga.
kbl@mbl.is