[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stefán Einar Stefánsson ses@mbl.is Tvö innflutningsfyrirtæki skipta með sér markaði með salt hér á landi. Má áætla að salt fyrir liðlega 350 milljónir króna hafi farið á göturnar á síðasta ári.

Ríflega 88 þúsund tonn af salti eru flutt inn til landsins árlega, að langstærstum hluta í gegnum tvö fyrirtæki, Saltkaup sem er með um 65% markaðshlutdeild og Stólpavík sem er með 35% hlutdeild. Innflutningurinn er nokkuð mismunandi milli ára en þar ráða aflabrögð og tíðarfar mestu, þ.e. hversu mikil þörf sjávarútvegsins er á hverjum tíma annars vegar og Vegagerðarinnar og sveitarfélaga hinsvegar. Kaup sjávarútvegsins vega mun þyngra en hins opinbera en á árinu 2014 fóru 24,7% saltsins á götur og vegi. Almennt útsöluverð á salti til hálkuvarna má áætla í kringum 17.000 krónur á tonnið. Söluverð vegna þess á síðasta ári gæti því hafa numið allt að 357 milljónum króna án virðisaukaskatts en í þeim tölum er þó ekki tekið tillit til þess afsláttar sem magnkaupendur fá.

Á árunum 2006-2014 má gera ráð fyrir því að rúmlega 193 þúsund tonn hafi farið í að tryggja veggrip íslenskra bifreiða landið um kring. Samkvæmt opinberum tölum sem ná aftur til ársins 1999 náði saltinnflutningur hámarki árið 2008 þegar hann slagaði í 113 þúsund tonn en lægst fór hann yfir sama tímabil í rétt rúm 65 þúsund tonn árið 2010. Heildarinnflutningur salts frá 1999 til ársloka 2014 var 1,5 milljónir tonna. Samkvæmt listaverði næmi kaupverð þess um 3,3 milljörðum króna.

Salt (NaCl) er bergtegund sem unnin er í miklum mæli úr jarðlögum á landi eða með uppgufun sjávar. Saltið sem hingað er flutt kemur frá Túnis og Spáni. Það er ekki ósnert af mannavöldum og bæði saltið sem notað er í sjávarútvegi og á götur er blandað sérstöku mýkingarefni en það er gert til þess að losa um það og auðvelda notkun þess. Efnin sem oftast eru notuð í þessu tilliti nefnast sodium ferrocyanide og calcium ferrocyanide. Saltið sem notað er til hálkuvarna er með sterkari blöndu efnisins eða um 100 milligrömm í hverju kílói en saltið sem notað er til manneldisins er með tuttugufalt veikari blöndu eða 5 milligrömm í hverju kílói.

Nýsköpun í greininni

Frá árinu 2011 hefur Stólpavík þróað aðferð til endurvinnslu á því salti sem sjávarútvegurinn skilar af sér. Að lokinni endurvinnslu er það nýtanlegt til hálkuvarna. Þróunin hefur átt sér stað með samstarfi fyrirtækisins, útgerðarfyrirtækjanna Þorbjarnar og Vísis í Grindavík, Hitaveitu Suðurnesja og Matís. Aðferðin byggist á því að saltið er hreinsað og við það er blandað rotvarnarefnum sem tryggja eiga gæði þess. Frá því að tilraunastarfið hófst hafa um 20.000 tonn verið unnin og seld. Þá er talið að mögulegt sé að endurvinna um 10-15 þúsund tonn árlega af því salti sem fellur til í landinu.

Ábatasöm starfsemi

Líkt og meðfylgjandi tafla sýnir hafa innflutningsfyrirtækin gengið vel á undanförnum árum og þau skilað ágætum hagnaði. Stærðarmunur fyrirtækjanna er þó töluverður. Þegar litið er til skuldastöðu þeirra verður að taka með í reikninginn að stór hluti skuldanna er veltutengdar skammtímaskuldir, en langtímaskuldir Saltkaups nema um 286 milljónum króna.