Jónína Ragnarsdóttir fæddist 22. febrúar 1952. Hún lést 10. febrúar 2015. Útför Jónínu fór fram 17. febrúar 2015.
Mikil var heppni okkar að kynnast þér og þínum fyrir níu árum síðan þegar Hildur dóttir okkar og Grétar sonur þinn og Finns rugluðu saman reytum sínum.
Það eru forréttindi að hafa kynnst þér, betri tengdamóður hefði dóttir okkar ekki getað eignast. Vináttan við ykkur hefur verið okkur dýrmæt og þakklæti er okkur efst í huga.
Nálægðin við ykkur hefur alltaf verið mikil og ómetanleg, það er gott að búa nálægt fjölskyldu sinni eins og við höfum gert.
Skemmtilegt var að þegar við kynntumst þá gátum við Geir Óttar sagt þeim hjónum frá því að langamma hans bjó í Ráðagerði með manni sínum uppúr aldamótunum 1900. Á heimili okkar eru húsgögn sem voru í Ráðagerði á þeim tíma.
Þú varst höfðingi heim að sækja, árlegu skötuveislunnar á Þorláksmessu verður ævinlega minnst, bæði af okkur og ekki síður ömmunum í fjölskyldunni sem fengu að njóta með ykkur.
Barnabörnin sem við eigum saman hafa verið lánsöm að fá að kynnast veröld ykkar Finns. Stefán sagði einhverju sinni að þú værir amman sem kynni að sauma, prjóna og spila og baka bestu pönnukökur í heimi.
Jonný og Finnur gerðu okkur kleift að upplifa að tína dún í Sviðnum og sigla um Breiðafjörð með fjölskyldunni á Lukkunni hans Jóns Freys.
Elsku Finnur, missir þinn, Grétars og Freyju, tengdabarnanna og barnabarnanna er mikill, en Jonný verður í huga okkar um alla eilífð. Við kveðjum kæra vinkonu með söknuði og vottum ykkur okkar dýpstu samúð. Blessuð sé minning hennar.
Geir Óttar Geirsson og Margrét Harðardóttir.
Kletturinn sem alltaf var hægt að treysta á. Eins og eyjarnar í Breiðafirði þaðan sem hún kom. Hvort sem fárviðri geisar og brimið brotnar á ströndinni eða sólin skín og spegilsléttur sjór, alltaf eru eyjarnar á sínum stað, keikar og tignarlegar. Þannig var Jonný.
Við kynntumst fyrst þegar hún kom í Gagnfræðaskólann í Hólminum um fermingaraldur. Eyjalíf gaf barni og unglingi aðra reynslu og aðra sýn en lífið í þorpi eða bæ. Jonný vissi og kunni svo margt sem ég ýmist hafði ekki heyrt af eða stóð beinlínis ógn af. Eins og lundaveiðarnar sem hún sagði frá! Og ég, vatnshrædd manneskjan, hlustaði óttaslegin á frásagnir af ferðum milli eyja með kindur á bátum sem hún jafnvel stýrði sjálf! Og ekki alltaf í logni og sól. Orðaforði og tungutak var þroskaðra en okkar hinna. Svo hafði hún borðað sel. Þar dró ég mörkin.
Jonný var eldklár, sem bæði sýndi sig á prófum, samtölum við hana og í lífinu sjálfu. Við lukum landsprófi saman og héldum saman í 3. bekk Menntaskólans á Akureyri þar sem við deildum herbergi á heimavistinni. Það ár settu örlögin upp sinn vef. Hún og Finnur í sjötta bekk hittust eins og fleiri þriðjubekkjar- og sjöttubekkjarnemar. Jonný fylgdi Finni sínum suður og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík. Við eignuðumst elstu drengina okkar sama árið og eignuðumst báðar tvö börn í viðbót. Við áttum sameiginlega vini öll og héldum lengi hópinn mörg saman. Þó að samskiptin hafi ekki verið mikil hin síðari ár var alltaf strengur okkar í milli og gott að hittast þegar þau tækifæri gáfust.
Jonný og Finnur hafa mátt þola óvenjumikil áföll í sínu lífi. Saman hafa þau tekist á við þau svo að vakið hefur aðdáun allra sem til þekkja. Ég hygg þó að veikindi yngri sonarins, Jóns Freys, hafi verið hvað þyngst að bera. Þessa skemmtilega, sjálfstæða unga manns, sem ég náði að kynnast nokkuð umfram hin börnin. Hann var vanur að sigla um Breiðafjörðinn á bátnum sínum og lét fötlun ekki aftra sér. Hann lést í desember 2011. Ég veit að hann hefur tekið fagnandi á móti mömmu sinni við ströndina og boðið hana velkomna um borð.
Ég sé þau fyrir mér saman brosandi, gamansöm og tilbúin að takast á við ný verkefni.
Jonnýju þakka ég gefandi vináttu og samfylgd í gegnum árin.
Elsku Finnur, Grétar og Freyja og fjölskyldur. Við Jóhann sendum ykkur öllum okkar dýpstu samúðarkveðjur.
Bryndís.
Ég man líka eftir því þegar við Freyja vorum 11 ára og það skall á kennaraverkfall. Jonný hvatti okkur þá til að klára skólahópverkefnið okkar um Spán á meðan á verkfallinu stæði svo við gætum sparað okkur tíma þegar skólinn byrjaði aftur af fullum þunga. Þegar skólinn byrjaði aftur var verkefnið hins vegar fellt niður vegna tímaskorts og við Freyja frekar svekktar yfir að öll þessi vinna hefði orðið til einskis. Nú skil ég hins vegar vel að Jonný vildi líklegast bara að við værum ekki aðgerðarlausar þessar 6 vikur og kunni góða leið til að hvetja okkur til verka. Mér er líka minnisstæðar ferðirnar í Svefneyjar og Sviðnur. Þar sigldum við um Breiðafjörðinn í því sem mér fannst vera pínulítill bátur á risastóru hafi en undir öruggri stjórn Jonnýjar, einu konunnar sem hafði færni til að sigla stórum bát um Breiðafjörð. Þvílíkt ævintýri fyrir ungling úr höfuðborginni.
Á meðan ég var erlendis í námi kíkti ég stundum í Ráðagerði í jóla- eða sumarfríum og þá sýndi Jonný alltaf einlægan áhuga á því hvað á daga mína hafði drifið síðan síðast og um mína hagi. Eftir að ég flutti aftur til Íslands hafði Jonný alltaf þegar við hittumst orð á því að ég ætti að koma oftar í heimsókn. Heimsókn var alltaf á dagskrá en vegna amsturs daglegs lífs urðu heimsóknirnar því miður miklu færri en óskandi hefði verið.
Eftir að veikindi hennar greindust náði ég þó að kíkja nokkrum sinnum í heimsókn og dáðist mikið að því af hversu miklu æðruleysi og jákvæðni Jonný tók lífinu og ákveðni hennar í að njóta hvers dags. Mér fannst líka frábært að hún skyldi hafa haft tækifæri til að fara í langt sumarfrí með öllum barnabörnunum síðast liðið sumar áður en veikindin greindust.
Ég kveð Jonný með söknuði og þakka góða samfylgd. Elsku Finnur, Freyja, Grétar og fjölskyldur, ég samhryggist ykkur innilega og hugur minn er hjá ykkur.
Ásdís Helgadóttir.
Við Jónína sátum saman á skrifstofu um tíma. Vel fór á með okkur og aldrei bar skugga á. Ég kynntist því af eigin raun að hún var í góðu sambandi við alla starfsmenn Lýsis. Hún þekkti hvern einasta þeirra, enda komu allir við hjá henni. Hún umgekkst alla með sama jákvæða og hlýja fasinu, og fór ekki í manngreinarálit. Okkur þótti öllum vænt um hana og var illa brugðið þegar við fréttum af veikindum hennar í haust.
Jónína var góður samstarfsmaður og leysti öll sín störf með sóma. Hún var samviskusöm og vildi aldrei skila hálfkláruðu verki.
Jónína hafði þá gáfu, sem oft prýðir fólk af hennar kynslóð, einkum þá sem koma úr dreifðum byggðum, en það er að hafa áhuga á öðrum. Sá áhugi var einlægur og alveg laus við hnýsni. Yfirleitt röktust saman þræðir þegar við ræddum um einhverja sem annað okkar þekkti. Og svo skemmtilega vildi til að barnabörn okkar voru á sömu deild í leikskóla. Við gátum því skipst á sögum af þeim félögum.
Veikindi hennar komu ekki í veg fyrir að hún héldi sambandi við samstarfsmenn sína, því hún mætti á árshátíð Lýsis í nóvember, á jólahlaðborð í desember og kom í heimsókn á skrifstofuna seint í janúar, alltaf glöð og jákvæð. Og margir litu inn til þeirra Finns í Ráðagerði. Ég hitti hana nokkrum dögum fyrir andlátið, og hún brosti sama hlýlega brosinu og áður, hugurinn jafn opinn og skýr, þótt líkaminn væri orðinn veikur.
Ég votta Finni, börnum þeirra, barnabörnum og fjölskyldum samúð mína.
Blessuð sé minning Jónínu Ragnarsdóttur.
Jón Ögmundsson.
Veikindin komu skyndilega og var okkur, samstarfsfélögum hennar, mjög brugðið þegar við fengum fréttir af hrakandi heilsu Jónínu. Hún var límið sem hélt okkur saman og minnti okkur á að slaka á og njóta lífsins þó mikið væri að gera. Ég minnist þess með hlýjum hug þegar við fórum tvær úr vinnunni í hádegisheimsókn til Jónínu og Finns í Ráðagerði. Þá fengum við loksins að sjá fallega húsið þeirra sem Jónína var búin að lýsa svo vel fyrir okkur. Við fengum að sjá útsýnið sem hún horfði daglega á út um gluggana og hlustuðum á sögur. Það var notalegt að sitja í eldhúsinu í Ráðagerði, einhver værð sem kom yfir mann á fallegu heimili þeirra hjóna.
Það er sárt að kveðja hana Jónínu og ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að kynnast þessari frábæru konu. Ég veit líka að hún hefði viljað að við minntumst hennar með bros á vör eða eins og hún orðaði það sjálf: „Styðjið og hvetjið og gleðjist.“
Fjölskyldunni allri og vinum sendi ég innilegar samúðarkveðjur.
Þóranna Hrönn
Þórsdóttir.