Skíði
Sindri Sverrisson
sindris@mbl.is
Þegar María Guðmundsdóttir kom í mark í svigkeppninni á HM í Beaver Creek í Bandaríkjunum um helgina, einum og hálfum mánuði eftir að hafa snúið aftur til keppni eftir langvinn meiðsli, náði hún besta árangri íslenskrar konu í svigi á HM á þessari öld. María náði 36. sæti í greininni, og var 9,92 sekúndum á eftir sigurvegaranum Mikaelu Shiffrin. Sigríður B. Þorláksdóttir gerði síðast betur í svigi á HM árið 1999, á sömu slóðum, þegar hún náði 29. sæti.
Árangur Maríu, sem hafði raunar lagt skíðin á hilluna eftir tvö krossbandsslit, stóð upp úr á HM að þessu sinni. Fleiri gerðu gott mót og frammistaðan í heild var mun betri en í Schladming fyrir tveimur árum, þar sem fimm af sex fulltrúum Íslands í ár þreyttu frumraun sína á HM. Helga María Vilhjálmsdóttir náði 42. sæti í svigi og komst einnig áfram í stórsvigi þar sem hún varð í 56. sæti. Dagný Linda Kristjánsdóttir náði því síðast í Svíþjóð 2007 þegar hún varð í 45. sæti í stórsvigi, og 26. sæti í risasvigi og bruni. Einar Kristinn Kristgeirsson varð í 48. sæti í stórsvigi í ár, 15 sekúndum á eftir sigurvegaranum, eftir að hafa lent í 55. sæti fyrir tveimur árum, 26 sekúndum á eftir sigurvegara.
Átta árum frá besta aldri
„Þetta er hópur sem hefur nú keppt á tveimur heimsmeistaramótum, einum ólympíuleikum og nokkrum HM unglinga, og þau eru bara orðin reynslunni ríkari. Framtíðin er því björt, því ef við horfum til að mynda til meðalaldurs sigurvegara á heimsmeistaramótum núna þá er hann kominn í 28-30 ár í stað 24 ára áður,“ sagði Jón Viðar Þorvaldsson, framkvæmdastjóri SKÍ, við Morgunblaðið. Allir sex fulltrúar Íslands á HM eru á aldrinum 19-21 árs. Þar af eru fjórar konur en þær voru fimm fyrir tveimur árum. Fram að því átti Ísland ýmist enga, eina eða tvær konur á HM.„Við fórum ekki í neitt sérstakt átak vegna þessa. Það kom bara upp kynslóð af góðum stelpum. Þær eru allar á svipuðu aldursbili og hafa sem hópur staðið mjög sterkar saman um árabil,“ sagði Jón Viðar, sem tekur undir að árangur Maríu hafi staðið upp úr í Colorado í ár.
„Þetta er mjög góður árangur hjá Maríu, og besti árangur sem við höfum séð í langan tíma á HM. María er einstakur karakter, hefur rosalega gaman af þessu og er náttúrlega gríðarlega hæfileikarík. Það er frábært að hafa fengið hana aftur inn,“ sagði Jón Viðar. „Þegar við förum svo að bera þetta saman við árangur Kristins [Björnssonar] og Björgvins [Björgvinssonar] þá er samt alveg ljóst að þeir voru einfaldlega á öðru stigi. Að sjálfsögðu er stefnan að við fáum slíka skíðamenn aftur,“ bætti hann við.
Kristinn var í sérflokki á sínum tíma og náði meðal annars 20. sæti í svigi á HM 1990, og 32. sæti í stórsvigi. Besti árangur Björgvins á HM var árið 2005 þegar hann náði 28. sæti, en hann varð einnig heimsmeistari unglinga í stórsvigi 1998.
HM 2015
» María Guðmundsdóttir varð í 36. sæti í svigi. Helga María Vilhjálmsdóttir varð í 42. sæti í svigi og 56. sæti í stórsvigi. Erla Ásgeirsdóttir varð í 45. sæti í svigi. Freydís Halla Einarsdóttir komst ekki í gegnum niðurskurð eftir fyrri ferðir.
» Einar Kristinn Kristgeirsson náði 48. sæti í stórsivigi en féll í svigi. Magnús Finnsson náði ekki í gegnum undankeppni.