[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Orgelkvartett í heimsklassa Daybreak **** Sigurður Flosason á saxófón og Kjeld Lauritzen á Hammondorgel. Með þeim leika Jakob Fischer á gítar og Kristian Leth á trommur. Storyville, 2015.

Orgelkvartett í heimsklassa

Daybreak ****-

Sigurður Flosason á saxófón og Kjeld Lauritzen á Hammondorgel. Með þeim leika Jakob Fischer á gítar og Kristian Leth á trommur.

Storyville, 2015.

Á síðasta ári komu út fjórar skífur með Sigurði Flosasyni saxófónleikara: The Eleventh Hour með Kaupmannahafnarkvartettinum, Blátt líf með íslenska orgelbandinu hans og Jakobi Fischer sem gesti, Í nóttinni með Kristjönu Stefánsdóttur og svo eina þriðja straums skífan íslenska, fyrir utan Samstæður Gunnars Reynis Sveinssonar. Tveir heimar nefndist hún og hafði að geyma verk eftir Gunnar Reyni, Árna Egilsson og Áskel Másson, skífa sem allir áhugamenn um íslenskan tónskáldskap og spuna verða að eiga.

Í þessum mánuði kom svo út önnur skífa Sigurðar með kvartetti hans og danska Hammondorganistans Kjeld Lauritsens. Daybreak nefnist hún, en fyrri skífa þeirra var Nightfall . Á þessari skífu má finna sjö söngdansa auk tveggja verka meistara Ellingtons. Annað þeirra er „I Like The Sunrise“, ballaðan yndislega úr Líberíu-svítu meistarans, sem sungin var af Al Hibler í frumflutningi. Hér er gengið rösklega til verks og ballaðan máluð nýjum litum, sem heppnast fullkomlega og er þetta eitt albesta verk skífunnar, ásamt frábærri túlkun Sigurðar á „Dreamsville“ Henry Mancini. Sigurður og gítaristinn Jakob Fischer leika tveir einir upphafið að slagaranum sem við þekkjum best með Sinatra, „In The Wee Small Hours of The Morning“, síðan bætast Lauritsen og trommarinn Kristian Leth í hópinn. Annar glæsisóló Sigurðar er þarna á ferð og mikið væri gaman að fá dúettskífu með honum og Fischer.

Hinn titurlitli, svali tónn Sigurðar, sem á stundum ber í sér websteríska þoku, hefur sjaldan notið sín betur en á þessari skífu og hann fer aldrei út af sporinu eins og stundum henti hér áður, þó djarft sé teflt, eins og vera ber í ekta orgelkvartetti. Lauritsen er fantafínn organisti og þó hann leiki bassann með vinstri hendi en ekki fótum, heldur hann uppi sterkri sveiflu ásamt Jakobi gítarista og Leth. Sumt fellur kannski ekki að mínum smekk eins og latínskotið upphaf „Blue Moon“ eða „Softly As in A Morning Sunrise“, en það lag hef ég ekki enn heyrt djassleikara kreista til gleði. Það þarf að gera á því „coltranískan“ uppskurð líkt og saxófónleikarinn gerði á „My Favorite Thing“ eftir sömu höfunda, Rodgers og Hammerstein. Aftur á móti hefur kvartettnum tekist nokkuð vel að nota stafróf djassins á söngdans þeirra úr Oklahoma, „Oh, Wath A Beautiful Morning“, með blússkotnum sóló Jakobs Fischers í heiðurssæti. Þar hleypir Sigurður djassfola sínum á sprett og það sýður á Lauritsen. Flott skífa hvort sem er til að hlusta á í dagrenningu eða glymjandi næturstuði.

Hápunktur ADHD

ADHD5 ****½

Magnús Tryggvasen Elíasson á trommur og gjöll, Ómar Guðjónsson á bassa og gítar, Davíð Þór Jónsson á flygil, Hammondorgel og syntha, Óskar Guðjónsson á tenórsax.

ADHD, 2014.

Fimmta skífa ADHD er hreint hunang og besta skífa félaganna til þessa. Það má segja að draumkenndur djassvefur þeirra, sem í ýmsu minnir á það besta í íslensku listpoppi og töfraheimi eins besta djassgíarista norðursins, Jakob Bro, sé kominn á leiðarenda. Lengra verði ekki náð í þessum stíl. Annar hápunktur á ferli ADHD, tónleikar þeirra í Eldborg á Jazzhátíð Reykjavíkur í fyrra, þar sem nýju og gömlu efni var blandað saman í heildstætt tónverk, styður ennfremur þá skoðun mína að tími sé til þess kominn að kanna nýja stigu – enda eru þeir ekki listamenn þeirrar gerðar er endurtaka sig eilíflega.

ADHD 5 er bæði gefin út á geisladiski og vínýl og þar verður mjúkur þokukenndur og getzískur hljómur tenórs Óskars Guðjónssonar enn mýkri. Hrynveggurinn að baki markar jafnt taktinn og magnar upp seið. Í upphafi meistaramelódíunnar „Sveðjunnar“ slær Davíð Þór Jónsson flygilinn, annars er Hammondið hans hljóðfæri og hljómar glæsilega eins og gítar Ómars Guðjónssonar í fáum markvissum sólóum þeirra er tenórinn þagnar. Magnús Tryggvason Elíasen er jafn ævintýralega góður sem fyrr við trommusettið.Átta lög, hvert öðru betra, og ekki að undra þetta sé vinsælasta djasshljómsveit landsins. Hér er listpoppið undirspil djassins.

Millispil þríleiksins

Hold ***½-

Árni Karlsson Trio: Árni Karlsson á píanó, Þorgrímur Jónsson á bassa og Scott McLemore á bassa.

Árni Karlsson 2014

Hold er önnur skífa í tríólógíu píanistans Árna Karlssonar. Sá fyrsti heitir Mold og ætli sá þriðji beri ekki eitthvert rímorð í samhengi. Mold er að mínu viti besta skífa sem Árni Karlsson hefur sent frá sér og þó Hold sé verðugur fylgifiskur er hún ekki eins tær og fyrirrennarinn. Árni ber hér frekar með sér að vera klassískt skólaður píanisti og á stundum finnst mér hann vera dálítið kantaður – en á því bar ekki í Mold . Sem fyrr eru laglínur hans draumfagrar og oft er spuninn rennandi fínn, einsog í „Tímans skauti“, einni fallegustu melódíu disksins. Bassaleikur Þorgríms Jónssonar er kraftmikill og voldugur og kallast á við þungan undirstraum í píanóleiks Árna. Trommarinn Scott McLemore er svo límið í tríóinu – léttstígari en þeir félagar en hryntraustur með afbrigðum. Ég mæli með þessari skífu og það verður spennandi að heyra hvernig lok tríólógíunnar hljómar.

Sálmar á atómöld

525 ****-

Gunnar Gunnarsson á píanó. Með honum leika Ásgeir Ásgeirsson á gítar og Þorgrímur Jónsson á bassa.

Dimma, 2014

525 Gunnars Gunnarssonar er öðruvísi píanóskífa. Gunnar fær til liðs við sig Ásgeir Ásgeirsson gítarista og Þorgrím Jónsson bassaleikara og er samvinna þeirra hnökralaus. Gunnar er fádæma smekklegur píanisti og hefur allt litróf tónanna á valdi sínu, frá miðaldamúsík til djass. Hann er ekki djasspíanisti í klassískum skilningi orðsins heldur fyllir þann flokk sem sífellt fer vaxandi í Evrópu og notar aðferðir djassins við að kanna tónsmíðar eigin þjóðar og hefur þannig rifið sig frá bandarískri djassmenningu og skapað nýja list á þjóðlegum grunni og í fáguðum einfaldleika sínum hefur hann markað sér sérstöðu meðal íslenskra djasspíanista, ekki ólíkt og Jan Johansson gerði meðal sænskra.

Á þessari ljúflingsskífu endurskapar Gunnar sálma eftir samtímatónskáld og djassista frá Atla Heimi Sveinssyni til Sigurðar Flosasonar. Þarna má finna „Allt eins og blómstrið eina“ úr óperu Gunnars Þórðarsonar um jómfrú Ragnheiði og „Minningu“ Tómasar R. Einarssonar, sem er einstaklega vel leikin, ekki síst af bassaleikaranum Þorgrími Jónssyni. Hér er lagið flutt án spuna og oftar er spuninn ekki í fyrirrúmi í túlkun verkanna. Stundum bregður Gunnar fyrir sig blokkhljómum eins og í þýsk-íslenska sálminum, „Þá lærisveinarnir sáu hann“, sem er ásamt öðrum sálmi, einnig frá því um og eftir 1600, „Þá lærisveinarnir sátu þar“, ævintýralegustu verkin á plötunni. Það er eins og Gunnar færist allur í aukana í þessum gömlu sálmum og láti hina hefðbundnu túlkun er einkennir nútímasálmana lönd og leið.

Gunnar á eitt lag á diskinum, „Morgunsálm“, þar sem Ásgeir spilar laglínuna undurblítt í upphafi og Gunnar skreytir hljómum. Einfaldleikinn í spunalínum Gunnars og klassískir hljómar leiða hugann að John Lewis – og þar er ekki leiðum að líkjast. Innan sinna marka er þessi skífa nær fullkomin, eins og skífa Flosasonar og Lauritzens, og er óbrigðult meðal til að róa hugann og lyfta andanum í veðrabrigðum vetrarins.