Gormur Ein nýjasta útfærsla Gests á gormaundirstöðunni.
Gormur Ein nýjasta útfærsla Gests á gormaundirstöðunni. — Morgunblaðið/Sigurður Ægisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Sigurður Ægisson sae@sae.is Snjóflóð eru þær náttúruhamfarir sem kostað hafa einna flest mannslíf á Íslandi, allt frá landnámi til okkar daga. Þau falla þegar yfirdráttur jarðar verður sterkari en samloðunarkraftur snjóþekjunnar.

Baksvið

Sigurður Ægisson

sae@sae.is

Snjóflóð eru þær náttúruhamfarir sem kostað hafa einna flest mannslíf á Íslandi, allt frá landnámi til okkar daga. Þau falla þegar yfirdráttur jarðar verður sterkari en samloðunarkraftur snjóþekjunnar. Eitt það mannskæðasta hér á landi varð árið 1613, að því er sagnir herma, þegar 50 manns fórust í Nesskriðum á aðfangadagskvöld á leið til jólamessu á Siglunesi. Ári síðar var aðalkirkjan ásamt prestsetri flutt inn á Hvanneyri í Siglufirði.

Það nýjasta í baráttunni við þessa ógnarkrafta er SM4 snjódýptarmælirinn. Hann virkar þannig að röð hitaskynjara er komið fyrir með ákveðnu millibili á stöng sem fest er á yfirborð jarðar á upptakasvæðum snjóflóða, og stendur upp úr snjónum. Mælingar eru skráðar með nokkurra mínútna millibili og síðan sendar reglulega til miðlægrar tölvu í gegnum GSM-kerfið.

Örn Ingólfsson hjá POLS-verkfræðistofu á Ísafirði hefur hannað umræddan búnað og þróað í samstarfi við Veðurstofu Íslands, en Örn er jafnframt snjóaeftirlitsmaður hennar á Vestfjörðum.

Snjódýptarmæling SM4 byggist á því að meira flökt er á hita í andrúmslofti en í snjónum. Slíka mæla er nú að finna víða um land og að auki í Noregi og Svíþjóð. Á vefsíðunni snowsense.is er unnt að skoða niðurstöður mælanna, bæði einstök hitasnið og mat á snjódýpt á mismunandi tímum. Má því segja að um byltingu sé að ræða.

Tilraunaverkefni

Eitt af því sem hefur þó gert mönnum erfitt fyrir er að möstrin hafa fallið, stikurnar eyðilagst. En Gestur Hansson, vélstjóri og snjóaeftirlitsmaður Veðurstofunnar í Siglufirði, er líklega búinn að finna ráð við þessu. Hann festir stangirnar á volduga gorma.

„Þetta er hugmynd sem við höfum verið að gæla við í nokkur ár, en svo ákvað ég einn daginn að slá til og einfaldlega prófa. Við, snjóaathugunarmennirnir, höfum alltaf verið í vandræðum með stikurnar sem við höfum sett upp í fjöllin til þess að fylgjast með snjódýptinni – þetta eru tréstikur með tveimur 30 sentimetra plasthólkum á, þar sem annar er hvítur en hinn blár og þá er hægt að telja bilin sem standa upp úr snjónum – vandamálið hefur verið að á vorin brotna þær alltaf og það er geysileg vinna að halda þessu við. Þær eru stagaðar niður með vírum sem halda bara ákveðið og þegar snjórinn leggst á þær slitna stögin. Hugmyndin var að smíða búnað sem heldur stikunni uppi þó hún leggist niður, að hún reisi sig aftur og með þessari gormaútfærslu gæti lausnin verið fundin.“

Um er að ræða tilraunaverkefni sem er styrkt af Rannís, POLS Engineering á Ísafirði og Veðurstofunni.

„Það eru gormar úr jeppanum mínum sem ég prófaði að setja í þetta fyrst. En nú er ég kominn með nokkrar fleiri gerðir. Ég setti þetta svo í farveginn í Strengsgilinu, sunnan við Stóra-Bola, prófaði að láta reyna á hann, bara stikuna, sjá hvað myndi gerast ef snjóflóð færi á þetta. Þessa útfærslu er hvergi að finna annars staðar í heiminum, svo ég viti,“ segir Gestur.

Hitastigið ræður mestu

„Hluti af því sem ég geri er að hanna og smíða þessar undirstöður og koma þeim fyrir á upptakasvæðum snjóflóða á Tröllaskaganum og í Skálavík fyrir vestan. Við erum að setja þessar gormastikur á nokkra sjálfvirka snjódýptarmæla, SM4, þannig að við gætum jafnvel séð á tölvuskjá þegar snjóflóð fer á þær og fellur undan þeim. Hitastigið er eiginlega það sem ræður mestu í þessu öllu, hvað er að gerast í snjóþekjunni. Við getum t.d. verið með snjóþekju sem er eins metra djúp og það snjóar kannski í mínus 5 gráðum. Svo kemur annað skot og það er að snjóa í mínus 8 gráðum. Við þetta getur myndast veikt lag og þessi græja teiknar upp hitastigulinn. Svo grafast þau niður þessi veiku lög og geta varðveist allan veturinn sem gerir það að verkum að við förum að fá stór flóð á vorin. Á ákveðnum tímapunkti verður álagið á þekjuna það mikið að hún brestur, annaðhvort undan skíðum eða vélsleða eða aukinni snjóþyngd eða þá að veðurfarið er að gera það, hitinn að breytast, rigning eða eitthvað sem eykur álagið. Þessi græja er þá augu okkar og eyru. Það kemur sér afar vel hér í Siglufirði, sérstaklega hvað varðar skíðasvæðið. Þarna erum við að sjá hvort það er að bætast á uppi á Illviðrishnjúk eða uppi á Grashólabrúninni. Þetta eru þau svæði sem við erum hræddir við að safni miklum snjó á stuttum tíma. Í vitlausum veðrum eigum við erfitt með að greina það, en núna getum við lesið á mælunum heima í tölvu. Þetta er búið að veita mér mikinn stuðning í þessu eftirliti. Svo erum við að sjá fleiri upplýsingar á þessu.“

Lenti sjálfur í snjóflóði

Gestur, sem er fæddur og uppalinn í Siglufirði, hefur á eigin skinni upplifað þann vágest sem snjóflóð eru, því vorið 2008, þegar hann var nýlega byrjaður sem snjóaeftirlitsmaður Veðurstofunnar, lenti hann í einu.

„Já, ég var á stað sem ég taldi vera öruggan, enda búinn að taka snjógryfjur allan veturinn norðan við Strengsgilið ofarlega í hlíðinni,“ segir hann. „Það var fínasta veður, bjart og úrkomulaust. Ég notaði snjódýptarstöngina til að finna yfirborð jarðar undir snjónum og færði mig því aðeins lengra í suður en það hallar mjög hratt niður í gilið þarna.

Þegar ég stakk stönginni niður aftur kom hvellur, líkt og skotið væri úr byssu, og það opnaðist sprunga sem ég féll niður í og barst niður gilið með flóðinu. Þegar ég fór í þessar ferðir var hundurinn minn alltaf með, var á undan, en í þetta skipti hélt hann sig fyrir aftan mig og slapp við að fara með flóðinu. Þetta var mín eldskírn. Ég var svolítið lemstraður og skelkaður, tapaði bakpokanum, húfunni og vettlingunum og var að finna dótið mitt næstu daga.“

Líka í Skandinavíu

„Örn Ingólfsson hefur líka verið að setja upp mælibúnað sinn á stikur í Skandinavíu. Það eru alls konar útfærslur þar líka. Þetta er hans líf og yndi. Hann er núna að þróa vindhraðamæli,“ segir Gestur.

Hann segir að snjódýptarmælarnir, sem settir hafa verið upp í Siglufirði, séu mjög spennandi verkefni. „Við erum núna miklu rólegri og eigum miklu betur með ákvörðunartöku, með að meta ástandið hverju sinni, bara með því að sjá hitastigið. Þetta er magnað.“

Ýmsar útfærslur á mælistönginni

Ýmsar tilraunir hafa verið gerðar með útfærslu á stönginni. Efsta stagið er haft lélegt, til að það slitni við átak og stöngin geti lagst niður; svo sprettur hún upp þegar snjórinn fer af. Undirstaðan er boltuð í klett. Í nýjustu útfærslunni eru notaðar keðjur til að stífa gorminn.

„Maður er alltaf að sjá betur og betur hvernig á að gera þetta. Sveigjanleiki í mastrinu og stífur gormur er það sem við erum að leita eftir. Það er svolítið puð að halda á þessu upp, koma þessu á endanlegan stað,“ segir Gestur.

„Álagið þarna uppi er alveg gríðarlegt. Það kafísar stundum, sér ekki í mælana, en samt sýna þeir snjódýptina og annað, alveg á kafi í klaka, og svo bara vindurinn sem getur verið þarna uppi, hann er ekki lítill.“

Hvað varðar Tröllaskaga er ein gormastika í Hafnarfjallinu, ofan við suðurbæinn í Siglufirði, þar er Gestur að athuga hvernig hún reynist í skriðþunga snjósins á vorin og önnur er sunnan við Miðstrandargil á Hvanneyrarströndinni. Sú á Illviðrishnjúk, upp af skíðasvæðinu í Skarðsdal, er ekki gormastika. Og svo er ein í Múlanum.“