Bókin Skálholt, verk Guðmundar Kamban verður endurútgefin á næstu mánuðum. Endurútgáfan verður gerð hjá Bókaútgáfunni Sæmundi á Selfossi og kemur út í tveimur hlutum. Í fyrri hlutanum sem kemur út í sumar er sagt frá Ragnheiði Brynjólfsdóttur.
Skáldsagan Skálholt kom fyrst út í fjórum bindum á árunum 1930-1935 en hefur síðan þrisvar verið endurprentuð, síðast 1982. Í tilkynningu frá bókaútgáfunni Sæmundi er greint nánar frá efni verksins en þar er rakin fjölskyldusaga Brynjólfs Sveinssonar (1605-1675) biskups í Skálholti „en meinleg örlög Ragnheiðar dóttur hans og ástmanns hennar Daða Halldórssonar hafa lengi verið þjóðinni hugstæð“, segir í tilkynningunni.
Torfhildur Hólm skáldkona var sú fyrsta sem skrifaði sögulega skáldsögu um líf biskupsfjölskyldunnar 1882 en eftir stórvirki Kambans hálfri öld síðar komu verk eftir aðra höfunda. Einnig hefur verið gerð ópera um þessa fjölskyldusögu.