Baksvið
Ágúst Ingi Jónsson
aij@mbl.is
Gististaðir eru ekki heimilir í Örfirisey samkvæmt nýrri deiliskipulagstillögu fyrir svæðið, en fram hafa komið hugmyndir um slíkan rekstur þar. Þá er ekki gert ráð fyrir stækkun eða fjölgun stórmarkaða og skal slík starfsemi vera víkjandi á svæðinu, segir í greinargerð með tillögunni.
Þar er byggt á aðalskipulagi frá síðasta ári og er meginmarkmið hennar að spyrða saman gildandi áætlanir í eina heildstæða deiliskipulagsáætlun. Í greinargerð kemur fram að margar deiliskipulagsáætlanir eru í gildi sem samanlagt taka til nánast alls skipulagssvæðisins. „Þær hafa verið gerðar eftir því sem eftirspurn og þarfir gáfu tilefni til. Því verður ekki sagt að unnið hafi verið samkvæmt fyrirfram ákveðinni stefnu til langs tíma hvað varðar byggðarmynstur og umhverfismál,“ segir í greinargerðinni.
Opinn fiskmarkaður
Auglýsing skipulagsfulltrúans í Reykjavík er dagsett 16. febrúar og er frestur til að gera athugasemdir til 30. mars. Í auglýsingunni segir að markmið deiliskipulagsins sé að hafnarstarfsemi verði efld og vaxtarskilyrði tryggð, að Vesturhöfn verði áfram miðstöð útgerðar og fiskvinnslu. Í greinargerð segir að á vesturhafnarsvæðinu gegni sjávarútvegur og vinnsla sjávarafurða áfram lykilhlutverki og ekki verði þrengt að þeirri starfsemi.Til framtíðar hefur verið mörkuð stefna um uppbyggingu á Reykjavík Seafood Hall í tengslum við starfsemi í húsi Íslenska sjávarklasans í Grandagarði 16, segir í greinargerðinni. Þar segir að útleiga Faxaflóahafna á verbúðum við Grandagarð 15-37 til fjölbreyttrar verslunar- og þjónustustarfsemi sé í samræmi við markmið aðalskipulags.
Svæðinu er skipt í þrjú svæði hvað varðar landnotkun og er hafnsækin starfsemi í fyrirrúmi. Fjölbreyttari landnotkun s.s. verslun, þjónusta og fínleg atvinnustarfsemi er þó heimil á ákveðnu svæði við Fiskislóð og Grandagarð. Þar er sérstaklega talað um matvöruverslanir (stórmarkaði) og segir að slík starfsemi skuli vera víkjandi á svæðinu. Einnig að gististaðir séu ekki heimilir þar.
Olíuhöfnin í Örfirisey er ekki hluti þessa deiliskipulags, en við heildarendurskoðun svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins verður hugað að framtíðar staðsetningu olíuhafnar.
Endurskoðun umferðarmála
Gert er ráð fyrir að fjölbreytt menningar og þjónustustarfsemi verði við vestari hluta Grandagarðs og áhugaverð dvalarsvæði og gönguleiðir við vestur- og norðurhluta Grandagarðs. Fram kemur í greinargerð að unnið er að endurskoðun umferðarmála á Grandagarði frá Grandatorgi að Járnbraut með það fyrir augum að greiða leiðir fyrir gangandi vegfarendur og hjólandi. Sérstaka skoðun fær gatan frá Grandatorgi að Hólmaslóð sem borgargata.Að stórum hluta tekur skipulagssvæðið til lands á uppfyllingu, en jafnframt er hluti þess gamalt athafnasvæði. Talsvert er því um friðlýst mannvirki á svæðinu og má nefna ytra byrði verbúðanna við Grandagarð, steinhleðslur í Norðurgarði og hluta steinhleðslna við Víkina og verbúðarbryggju frá Rastargötu til Bótabryggju.
Fyrirvari við afstöðu
Á fundi stjórnar Faxaflóahafna 14. nóvember var fjallað um deiliskipulag í Örfirisey og var samþykkt að senda tillöguna til hefðbundinnar meðferðar skipulagsráðs Reykjavíkur. Júlíus Vífill Ingvarsson bókaði eftirfarandi á fundinum:„Tillagan er að mestu staðfesting á gildandi deiliskipulagsáætlunum en horfir ekki til framtíðar og þeirra fjölmörgu spennandi tækifæra til byggðaþróunar, sem liggja í svæðinu Enda þótt fulltrúi Sjálfstæðisflokksins telji tillöguna endurspegla litla hugmyndaauðgi samþykkir hann að auglýsa hana en setur fyrirvara við endanlega afstöðu eftir að athugasemdir og ábendingar hafa borist frá hagsmunaaðilum og öðrum sem áhuga hafa á byggðaþróun og betri borg.“
„Vottar ekki fyrir framtíðarsýn“
• Harðorðar athugasemdir frá eigendum fasteigna á níu lóðum við Fiskislóð „Að leggja fram jafn metnaðarlausar tillögur og raun ber vitni veldur miklum vonbrigðum svo ekki sé talað um samráðsleysið,“ segir í bréfi sem sent var stjórn Faxaflóahafna um miðjan desembermánuð. Þar eru gerðar margvíslegar athugasemdir við deiliskipulagstillögu fyrir Vesturhöfnina. Bréfið er ritað af hálfu eigenda fasteigna á níu lóðum við Fiskislóð og eiganda lóðarréttar á einni lóð til viðbótar. Alls er viðkomandi reitur 25.900 fermetrar.
Torvelda byggðaþróun
Í bréfinu segir m.a. að tillögurnar loki fyrir þá möguleika sem hafi falist í nýsamþykktu aðalskipulagi Reykjavíkur um að opna mætti gististaði í flokki II og III á svæðinu. Nýtingarhlutfall sé langt fyrir neðan það sem heimilað hafi verið á öðrum byggingarreitum í borginni, ákvæði um hámarkshæð veki furðu. Þá sé skipting í flokka eftir svæðum íþyngjandi fyrir Lindberg sem er eigandi mannvirkja á lóðunum.„Í tillögunum vottar ekki fyrir framtíðarsýn um uppbyggingu á svæðinu, þvert á móti torvelda þær alla byggðaþróun,“ segir í bréfinu.
Verði dregnar til baka
Eigendur Lindberg fara fram á að deiliskipulagstillögurnar verði dregnar til baka og félaginu verði gefinn kostur á viðræðum við borgaryfirvöld um framtíðaruppbyggingu á svæðinu.Bréfið er ritað fyrir hönd FSPB 2 ehf., sem er félag í eigu SPB hf., áður Sparisjóðabanka Íslands. Það er aftur eigandi félagsins Lindberg ehf. sem er eigandi fyrrnefndra fasteigna. Straumur fjárfestingarbanki hf., fer með eignaumsýslu fyrir hönd skiptaráðanda á eignum þrotabús Sparisjóðabankans.
Bréfinu var vísað til umhverfis- og skipulagssviðs borgarinnar og samkvæmt upplýsingum blaðsins munu fulltrúar Lindberg fylgja athugasemdum sínum eftir nú þegar deiliskipulagstillagan er komin í formlegt ferli.