Hugsanlega hafa orðið þáttaskil í óöldinni í Líbíu um síðustu helgi, þegar liðsmenn Ríkis íslams sendu frá sér myndband, sem sýndi aftökur rúmlega tuttugu kopta, kristinna Egypta, sem höfðu starfað sem farandverkamenn í Líbíu. Viðbrögð egypsku herstjórnarinnar voru hröð og ákveðin; hún hóf loftárásir á skotmörk í Líbíu innan við sólarhring síðar. Atburðarásin sýnir glöggt hversu lítil tök hin alþjóðlega viðurkennda ríkisstjórn Líbíu hefur á landinu, þar sem ribbaldaflokkar vaða uppi og lögleysan ræður ríkjum. Í Líbíu eru með öðrum orðum kjöraðstæður fyrir samtök eins og Ríki íslams til þess að koma sér fyrir og breiða úr sér og það hafa þau gert.
Söfnuður kopta í Egyptalandi er einn elsti kristni söfnuður veraldar og hefur í gegnum tíðina náð að dafna þrátt fyrir að hafa átt undir högg að sækja undir yfirráðum múslima í Egyptalandi. Al Sisi, leiðtogi Egyptalands, hefur lagt áherslu á bætt samskipti milli trúarhópa, og meðal annars mætt til kristinnar messu, fyrstur forseta Egyptalands. Viðbrögð hans nú benda til þess að hann vilji sýna það í verki, að Egyptar séu ein þjóð óháð trúarbrögðum, en með þeim boðskap aðskilur hann sig enn frekar frá Bræðralagi múslima, sem herinn hrakti frá völdum.
Óöldin í Líbíu hefur nú staðið í nærri því fjögur ár, og eru þegar farnar að heyrast vangaveltur um að annað borgarastríð sé í raun hafið á milli íslamista og hinnar borgaralegu stjórnar landsins. Vopn flæða í gegnum landið, með þeim afleiðingum að grafið hefur verið undan stöðugleikanum víðar í Norður- og Vestur-Afríku.
Al Sisi kallaði í kjölfar loftárásanna eftir því að alþjóðasamfélagið beitti sér til þess að binda endi á átökin í Líbíu, en ekki er víst að því kalli hans verði hlýtt. Þó hljóta þau vestrænu ríki, sem gripu inn í með hernaðaraðgerðum árið 2011 og veltu þáverandi harðstjóra, Moammar Gaddafí, úr sessi, að íhuga vandlega hvort að ekki standi upp á þau að takast á við afleiðingar aðgerðanna. Ástandið í Líbíu nú, þar sem hætta er á að öfgafullir íslamistar nái völdum, sýnir að ekki er nóg að velta harðstjóra úr sessi ef ekki er tryggt að eitthvað betra taki við. Í þeirri púðurtunnu sem Mið-Austurlönd og Norður-Afríka eru, þarf að fara sérstaklega gætilega í þessum efnum og tryggja að hryðjuverkasamtök nái ekki undir sig heilu ríkjunum.