Hermann Níelsson fæddist 28. febrúar 1948. Hann lést 21. janúar 2015. Útför Hermanns fór fram 14. febrúar 2015.
Fallinn er frá Hermann Níelsson íþróttamaður. Hermann var alla ævi ötull talsmaður íþrótta og heilbrigðs lífernis. Hann helgaði líf sitt íþróttum og var virkur í uppbygginu og starfi íþróttafélaga. Hann var lengi íþróttakennari við Alþýðuskólann á Eiðum og var á þeim tíma í forsvari fyrir íþróttahreyfinguna á Austurlandi. Eftir heimkomuna hingað vestur starfaði Hermann sem íþróttakennari við Menntaskólann á Ísafirði. Þar kom hann á fót afreksbraut sem enn er við lýði og hefur fjöldi ungra vestfirskra íþróttamanna tekið þar þátt. Hann var fljótt kominn í félagsstörf fyrir íþróttahreyfinguna, hann gæddi Knattspyrnufélagið Hörð nýju lífi og gerðist formaður þess. Hann stofnaði glímudeild hjá félaginu og sinnti uppbyggingu glímuíþróttarinnar svo eftir var tekið. Íslandsglíman var loksins haldin utan höfuðborgarsvæðisins vorið 2012 og hafði Hermann veg og vanda af því að hún yrði haldin hér á Ísafirði. Auk þess kom hann að starfi annarra íþróttafélaga og íþróttastarfs í bænum. Ekki má gleyma starfi Hermanns í þágu almenningsíþrótta en hann átti lengi sæti í trimmnefnd ÍSÍ og stóð að átakinu Heilsuefling í Ísafjarðarbæ.
Sjálfur var Hermann mikill íþróttamaður að upplagi og hélt styrk, lipurð og færni á við sér miklu yngri menn. Hann stóð nemendum sínum ekkert að baki hvað líkamlegt form varðar og minnast margir hans taka handstöður og ganga á höndum eins og ekkert væri. Hann skellti sér líka á sjötugsaldri í skólahreystibraut nemenda og sló þeim flestum við í tímatöku.
Hermann var góður félagi og þakkar HSV fyrir hans mikla og góða starf fyrir íþróttahreyfinguna í Ísafjarðarbæ. Fyrir hönd HSV sendi ég aðstandendum innilegar samúðarkveðjur.
Guðný Stefanía
Stefánsdóttir, formaður Héraðssambands Vestfirðinga.
Kveðja frá Eiðavinum
Austfirðingar eiga Hermanni Níelssyni mikið að þakka. Hann kom sem íþróttakennari í Alþýðuskólann á Eiðum árið 1968 aðeins tvítugur að aldri og bjó fyrir austan í um þrjá áratugi. Auk þess að kenna íþróttir á Eiðum kom Hermann að ótal verkefnum sem tengdust íþrótta og æskulýðsstarfi fyrir austan og var m.a. formaður UÍA til margra ára. Hermann var mikill hugsjónamaður og lagði mikið á sig til að byggja upp öflugt og fjölbreytt íþróttastarf fyrir austan. Hann var afar farsæll íþrótta- og æskulýðsleiðtogi sem átti auðvelt með að hrífa ungmenni með sér. Hann var einstaklega góður í öllu samstarfi og var duglegur að virkja fólk með sér til að byggja upp göfugt starf í sameiningu. Honum var mjög í mun að nota íþróttir til að búa til betra samfélag fyrir komandi kynslóðir.Nemendur Eiðaskóla dáðu Hermann sem íþróttakennara. Hann bar virðingu fyrir öllum nemendum og hvatti þá áfram hvort sem um var að ræða íþróttagarpa eða þá sem höfðu ekki eins mikinn áhuga eða sýndu minni árangur.
Það hefur komið vel í ljós eftir fráfall Hermanns hve hann hefur notið mikillar virðingar við gamla skólann okkar. Eiðavinir, félag fyrrum nemenda og starfsmanna Eiðaskóla hafa margir skrifað minningarorð um hann inn á sameiginlegt netsvæði þar sem berlega má sjá hve mikil áhrif hann hefur haft á fyrrum nemendur sína. Einn úr þeim hópi tók þessi minningarorð Eiðavina saman og gerði úr þeim þetta ljóð og geta Eiðavinir margir hverjir fundið kveðjuorð sín fléttuð inn í ljóðið sem er hinsta kveðja til Hermanns frá Eiðavinum.
Hermann
Við munum hann svo vel,
daginn, sem við hittumst fyrst.
Þú komst, brosandi út í annað,
svo ótrúlega léttur í spori,
með fangið fullt af æsku og gleði,
fjöri, þrótti og þori
Þú hreifst okkur með í leikinn
leiddir, studdir, kenndir.
Í hverju verki virðing,
af hverjum sigri sómi.
Þú byggðir með okkur hallir
sem hýstu draumana,
og sáðir fræi sem varð að fögru blómi.
Nú ertu genginn, góði drengur.
Kennari, félagi, fyrirmynd.
Við horfum á eftir þér
hljóð og döpur – klökk.
En minningin um þig lifir
í von og verki austfirskrar æsku
– vinur, hafðu þökk.
(Hannes Sigurðsson)
Eiðavinir senda öllum aðstandendum innilegustu samúðarkveðjur.
F.h. Eiðavina,
Bryndís Skúladóttir, formaður stjórnar Eiðavina.
Hermann naut sín á Eiðum, hann hreinlega elskaði umhverfið og það var draumastaða að kenna ungmennum á veturna og þjálfa þau með ÚÍA á sumrin, íþróttir voru hans líf og yndi og staðurinn rammaði inn fjölskyldulífið í Hermannshúsi með Svandísi og strákunum. Hann fór til Danmerkur til þess að afla sér reynslu, vann fyrir sér sem málari og sótti námskeið og seinna fór hann til Svíþjóðar og settist á skólabekk. Hver annar en Hermann hefði látið sér detta í hug sumarhátíðir í Atlavík með aðkomu Stuðmanna og Ringó bítils? Eða að láta taka mynd af sér með goðinu Péle, hann var ekki í rónni fyrr en átrúnaðargoðið var búið að heimsækja Austurland og taka nokkur létt spörk á knattspyrnuvelli Hattar á Egilsstöðum.
Rúmum 20 árum síðar flutti ég í Hermannshús með mömmu og krökkunum mínum, við urðum öll samkennarar og það var Hermann sem kynnti mig fyrir töfrum umhverfisins en að skokka í skóginum og að vitja um net með krökkunum í Eiðavatni var ógleymanlegt.
Vinkonur mínar stóðu á öndinni, ertu frá þér, hann er níu árum eldri og afi í þokkabót!
Hermann hélt utan um mig og börnin mín af festu og ábyrgð. Hann kenndi þeim að synda, hjóla, boltaíþróttir og glímu. Ég sé hann í anda hlæjandi á hlaðinu á Eiðum, hlaupandi á eftir gula hjólinu og Katerína hrópaði:„Ertu hættur að halda í mig“! Með Önnu Birtu í sundlauginni og að tuskast við Sindra. Á Hvanneyri að þjálfa krakkana í körfubolta, badminton, lífið var samvera og hann var fyrirmynd.
Við bjuggum um tíma fyrir utan London, stofnuðum ferðaskrifstofu og heimsóttum stórborgir Evrópu en í Aþenu skokkaði hann uppá Akrapolis, Hermes og félagar töfruðu hann til sín upp að Parþenon þar sem hann gleymdi sér.
Hermann var kallaður til Ísafjarðar árið 2000 og honum líkaði svo vel við MÍ að hann togaði okkur heim. Kominn tími til að treysta böndin og fara í kaffi til Gunnu ömmu og njóta Arnardals. Nemendur voru kjaftstopp, hann var fimari en þau, rúmlega fimmtugur. Hann stofnaði afreksíþróttabraut og þjálfaði glímukappa undir merkjum Harðar. Hann var á heimavelli og bar hag unga fólksins fyrir brjósti, ljúfur í lund og sanngjarn. 14 ár voru viðburðarík, þau færðu okkur sólargeislann Nínu Dagrúnu og frá því að Hermann klippti á naflastrenginn þá ófu örlagadísirnar dulinn þráð sem tengdi þau alla tíð. Hún varð glímudrottning 12 ára gömul og pabbinn svo óumræðilega hreykinn. Elsku Níels, Rabbi og fjölskyldur, hugurinn er hjá ykkur. Innilegar samúðarkveðjur til Dóru og allra aðstandenda.
Ingibjörg Ingadóttir.