Svífur Hafdís Sigurðardóttir setti nýtt Íslandsmet innanhúss fyrr á þessu ári þegar hún stökk 6,47 metra. Hún keppir í Prag um hádegið í dag.
Svífur Hafdís Sigurðardóttir setti nýtt Íslandsmet innanhúss fyrr á þessu ári þegar hún stökk 6,47 metra. Hún keppir í Prag um hádegið í dag. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EM í Prag Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is Það var gott hljóð í frjálsíþróttakonunni Hafdísi Sigurðardóttur þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hennar til Prag í gær.

EM í Prag

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Það var gott hljóð í frjálsíþróttakonunni Hafdísi Sigurðardóttur þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hennar til Prag í gær. Hafdís er ein af sex keppendum frá Íslandi sem taka þátt í Evrópumeistaramótinu í frjálsum íþróttum sem hefst í Tékklandi í dag. Hinir fimm eru: Aníta Hinriksdóttir, Kolbeinn Höður Gunnarsson, Trausti Stefánsson, Einar Daði Lárusson og Hrafnhild Eir Hermóðsdóttir.

„Ég er bara mjög vel stemmd og er full tilhlökkunar,“ sagði Hafdís við Morgunblaðið en hún verður í eldlínunni í undankeppni langstökksins um hádegisbilið í dag. 23 keppendur eru skráðir til leiks og komast 12 áfram í úrslitin sem verða á morgun. Keppndur fá þrjú stökk í undankeppninni en Hafdís á 15. besta árangurinn af keppendunum 23.

Verður að setja markið hátt

„Ég held að ég sé bara í mjög fínu standi og hingað er ég komin til gera mitt besta. Að sjálfsögðu er stefnan tekin á að komast í úrslitin. Maður verður að setja markið hátt þegar maður er kominn á svona stórt mót en ég ætla líka að hafa gaman af þessu,“ sagði Hafdís.

Hafdís, sem fór mikinn í langsökksgryfjunni og á hlaupabrautinni á síðasta ári, á Íslandsmetið í langstökki, 6,47 metra.

„Ég gæti þurft að setja nýtt Íslandsmet til að tryggja mig inn í úrslitin. Ég var búin að setja mér markmið í vetur að stökkva yfir 6,50 metrana og þetta markmið hefur ekkert breyst. Undirbúningurinn fyrir mótið hefur bara gengið vel. Ég tók þátt í bikarkeppninni um síðustu helgi og átti þar þrjú stökk yfir 6,30 metra sem var virkilega gott í ljósi þess að ég var talsvert þreytt fyrir mótið. Ég hef þrjú stökk og ég verð að nýta þau eins vel og mögulegt er,“ sagði Hafdís.

Evrópumótið úti góð reynsla

Þetta er í fyrsta skipti sem Hafdís tekur þátt í Evrópumeistaramóti innanhúss en hún keppti á Evrópumótinu utanhúss sem fram fór í Sviss í ágúst á síðasta ári. Þar keppti hún í langstökki og í 200 metra hlaupi. Hafdísi tókst ekki að komast í úrslitin í langstökki á því móti en hún stökk lengst 6,27 metra og endaði í 16. sæti.

„Evrópumótið síðastliðið sumar var góð reynsla fyrir mig en nú finnst mér það gott að geta bara einbeitt mér að einni grein,“ sagði Hafdís, sem var á leið á æfingu í íþróttahöllinni í Prag þegar Morgunblaðið náði tali af henni.

*Undankeppnin í langstökkinu hjá Hafdísi hefst kl. 11.15 í dag.

*Kolbeinn Höður Gunnarsson og Trausti Stefánsson hlaupa í undanrásum 400 m hlaups karla kl. 10.48.

*Aníta Hinriksdóttir hleypur í undanrásum 800 m hlaups kvenna kl. 11.20.