Handbolti
Ívar Benediktsson
iben@mbl.is
„Þetta er í fyrsta sinn í sögu Nice-liðsins sem það tryggir sér sæti í úrslitakeppninni,“ segir Karen Knútsdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik og leikmaður franska 1. deildarliðsins Nice, en liðið vann sér í fyrrakvöld sæti í sex liða úrslitakeppni um franska meistaratitilinn. Enn eru tvær umferðir eftir.
Nice vann Toulon, 25:23, á útivelli og situr í fimmta sæti. „Það var frábært að tryggja sætið í úrslitakeppninni í góðum tíma áður en deildarkeppninni lýkur,“ sagði Karen við Morgunblaðið í gær en hún skoraði tvö mörk í viðureigninni í fyrrakvöld.
„Við höfum leikið mjög vel eftir áramótin og vonandi verður framhald á,“ segir Karen sem er afar sátt við veruna hjá Nice en hún samdi við liðið á liðnu sumri til tveggja ára.
„Deildin er mjög jöfn hér og ekki mikill getumunur á liðunum,“ segir Karen og bendir á að neðsta liðið lék til úrslita í bikarkeppninni um síðustu helgi.
Úrslitakeppnin hefst upp úr miðjum apríl og þá mætast í fyrstu umferð liðin sem verða í þriðja, fjórða, fimmta og sjötta sæti. Tvö þeirra halda áfram í aðra umferð og þá mæta til leiks liðin sem hafna í fyrsta og öðru sæti.
Ramune Pekarskyte og samherjar í Havre eru í 8. sæti en eygja veika von um að komast í úrslitakeppnina. Annars tekur við keppni um að forðast fall.