[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Anna Lilja Þórisdóttir annalilja@mbl.is Foreldrar grunnskólabarna eru hlynntari heimanámi en börnin sjálf og yngri börn eru jákvæðari gagnvart því en þau eldri. Nemendur í 9.bekk nota að meðaltali 45 mínútur daglega í heimanám.

Sviðsljós

Anna Lilja Þórisdóttir

annalilja@mbl.is

Foreldrar grunnskólabarna eru hlynntari heimanámi en börnin sjálf og yngri börn eru jákvæðari gagnvart því en þau eldri. Nemendur í 9.bekk nota að meðaltali 45 mínútur daglega í heimanám. Það er lengri tími en þeim og foreldrum þeirra finnst æskilegt. Um tveir þriðju foreldra yngri barna telja heimanámið skapa jákvæða stund á heimilinu.

Þetta eru niðurstöður tveggja meistarprófsrannsókna sem nýverið voru gerðar á menntavísindasviði Háskóla Íslands, en í þeim var heimanám rannsakað frá ýmsum sjónarhornum.

Aðra rannsóknina gerði Garðar Vignisson, sérkennari í Grunnskólanum í Grindavík. Hann kannaði viðhorf foreldra/forráðamanna, nemenda og kennara til heimanáms barna í 5. og 9. bekkjum í sjö grunnskólum. Meðal þess sem rannsókn Garðars leiddi í ljós var að um helmingur foreldra og nemenda telur að heimanámið geti stuðlað að mismunun nemenda. „Foreldrar hafa mismunandi aðstæður til að aðstoða börn sín við heimanám; þeir hafa misjafnan bakgrunn, menntun og viðhorf,“ segir Garðar.

Nemendur í 9. bekk vörðu að meðaltali 45 mínútum á dag í heimanám og nemendur 5. bekkjar 24 mínútum.

Foreldrar jákvæðari en börnin

Garðar segir foreldra almennt hlynntari heimanámi en nemendur, en þó telji 80% foreldra heimanámið valda miklu álagi á heimilislífið. „Margir hafa einfaldlega ekki tíma, flestir eru í fullu starfi og sinna ýmsu utan vinnu og heimilis. Það má kannski segja að skólinn hafi ekki brugðist við breyttum tímum.“

Garðar segir fátt benda til þess að heimanám styrki nemendur í námi sínu. Spurður um hvers vegna það sé þá jafn stór hluti skólastarfs og raun ber vitni segir hann það m.a. vera vegna arfs frá liðinni tíð, heimanám hafi alltaf verið hluti skólastarfs og það þurfi kjark og kraft til að breyta kennsluháttum. Sjálfur hefur Garðar kennt í meira en 25 ár og segir heimanám hafa aukist á sínum kennsluferli. „Það hefur gerst með lengri skóladegi. Nemendur fá fleiri verkefni í skólanum og þar með meira heimanám. Ég held að heimanámið verði enn um sinn í flestum skólum, en til að gera það markvissara ætti það að vera einstaklingsmiðaðra en það er nú.“

Undir þetta tekur höfundur hinnar rannsóknarinnar, Hjördís Pétursdóttir, kennari við Grunnskólann á Hellu. Hún kannaði viðhorf nemenda, foreldra og kennara á yngsta stigi grunnskólans. „Til þess að heimanámið beri meiri árangur þyrfti að einstaklingsmiða það að hverjum og einum,“ segir Hjördís.

2/3 segja ganga vel

Niðurstöður rannsóknar Hjördísar sýna m.a. að flestir nemendur eru ánægðir með heimanámið og finnst sér ganga vel við að vinna það. „Það var þó gegnumgangandi að þau langaði til að hafa meira um að segja hvernig heimanámið er,“ segir Hjördís. 42% foreldra í rannsókn hennar töldu heimanám nauðsynlegt og 44% töldu að það ætti að takmarkast við lestur.

Þá kom fram að 64% telja heimanámið ganga vel og að það skapi jákvæða stund á heimilinu. 36% töldu það ganga illa og að það ylli togstreitu og spennu í heimilislífinu.

Þau Garðar og Hjördís eru sammála um að umræða um heimanám sé af skornum skammti í skólakerfinu og segja bæði að móta þyrfti stefnu í þessum málum. „Grunnskólaskipið er stórt og þungt og erfitt að snúa því, segir Garðar. „Við þurfum að taka upp markvissa umræðu um heimanám og hver ber ábyrgðina á því.“

„Umræða um heimanám kemur upp af og til, en lognast fljótt út af,“ segir Hjördís. „Það þarf að skilgreina heimanám betur.“