Gamalfínt „Í ár er meiri mýkt í skreytingunum en verið hefur undanfarin ár, meira um náttúruleg efni og dálítil nostalgía,“ segir Björg Benediktsdóttir eigandi Föndru.
Gamalfínt „Í ár er meiri mýkt í skreytingunum en verið hefur undanfarin ár, meira um náttúruleg efni og dálítil nostalgía,“ segir Björg Benediktsdóttir eigandi Föndru. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fallegar skreytingar og kerti setja svip sinn á veisluborðið í fermingarveislunni og ekki skemmir ef handbragðið er fermingarbarnsins sjálfs, eða einhvers úr fjölskyldunni. Að auki skapar það skemmtilega stemningu að koma saman og föndra dálítið mitt í öllum fermingarundirbúningnum.

Það er að ótalmörgu að hyggja ef halda á fermingarveislu með öllu tilheyrandi, boðskortum, kertum, gestabók, servíettum, borðskrauti, hárskrauti og jafnvel skóskrauti! Það er því ekki að undra þótt margir fari þá leið að láta prenta boðskort og kaupi skrautið tilbúið en það er alltaf ákveðinn hópur sem hefur bæði tíma og ánægju af því að leggja á sig vinnuna við að föndra sem mest af veisluefninu. Þannig verða boðskortin t.d. aðeins persónulegri og oft ennþá skemmtilegri og dýrmætari minjagripur um fermingardaginn.

Í versluninni Föndru er boðið upp á allt milli himins og jarðar til að búa eitt og annað til fyrir ferminguna. „Við erum með allt í boðskortin, skreytiefni, dúkaefni og renninga, styttur á veisluborðið og fermingartertuna, servíettur og margt, margt fleira,“ telur Björg Benediktsdóttir verslunareigandi upp. Og ef litast er um í búðinni í dag er greinilegt að fermingar eru á næsta leiti, búið er að setja upp dúkuð borð með skreytiefnum og vefnaðarvörudeildin er úttroðin af nýjum og fallegum efnisströngum fyrir fermingarkjólinn, slæður eða fatnað annarra fjölskyldumeðlima en fermingarbarnsins.

Björg segir að í ár sé meiri mýkt í skreytingunum en verið hefur undanfarin ár, meira um náttúruleg efni og dálítil nostalgía jafnvel þar sem gamaldags lausnir séu notaðar. „Það er meira um blúndur og mýkt og mikið t.d. verið að skreyta krukkur til að nota undir kerti á borðinu.“

Ekkert dregið úr föndrinu

Það er ekki beinlínis litadýrðinni fyrir að fara þetta árið í skreytingunum en Björg segir að svokölluð „natur“-lína sé ríkjandi og ef notaðir séu litir séu það helst fuschia-bleikur og petrol-túrkísblár en þeir tónar eru báðir mun dýpri og ekki eins skærir og hreinn bleikur og túrkísblár og setja því aðeins fágaðri og fullorðinslegri blæ á skreytingarnar þótt fólk velji litagleðina.

Að sögn Bjargar hefur ekkert dregið úr því að fólk föndri boðskort og annað fyrir ferminguna þótt tölvutæknin og prentþjónustur geti sparað manni tíma. „Nei, það er ekkert minna föndrað nú en áður og okkur finnst meira um að fermingarbarnið hafi sjálft skoðanir og velji sjálft liti og þema fyrir veisluna.“

Hún hefur fulla trú á að allir geti föndrað og búið til eitthvað persónulegt og fallegt fyrir veisluna og segist hafa allt til þess. „Það er alltaf vinsælt hjá fermingarbarninu að gera kertið sjálf(ur) en einnig að gera veifur til að skreyta með. Þá er mjög einfalt að gera nokkurs konar „bolta“, þá er bandi vafið um blöðru og það svo bleytt með stífelsi og þegar blaðran er sprengd sitja eftir mismunandi skemmtilegir boltar sem eru t.d. tengdir saman með bandi eða borða. Einnig er vinsælt að mála pappamassastafi, nafn eða upphafsstafi fermingarbarnsins, og láta standa á veisluborðinu.“

Þetta segir Björg alla geta gert og er starfsfólk Föndru reiðubúið að segja fólki til og veita leiðbeiningar um vörurnar sem eru þar til sölu. Þá heldur verslunin einnig kerta- og skreytinámskeið sem taka eina kvöldstund.

Heimasaumaðir kjólar og rúmföt

Fyrir þá sem vilja fara alla leið og sauma fötin fyrir ferminguna eða jafnvel fermingargjafirnar kennir ýmissa grasa í vefnaðarvörudeild Föndru. „Við erum með efni í fatnað, silkisatín, blúndur og fleira í fermingarkjólana en einnig damask því það er mikið verið að gera damaskrúmföt til að gefa í fermingargjöf.“

Anna Stefánsdóttir sér um saumanámskeiðin í Föndru og getur leiðbeint þeim sem ætla að kaupa kjólaefni en mun meira er heimasaumað á fermingarstúlkurnar, mæður þeirra og ömmur, en fermingardrengina. „Við erum með öll helstu sníðablöðin og svo dönsku Onion-sniðin,“ en silkisatínið og blúndan sem Föndra selur hentar sérstaklega vel fyrir þau. Anna segir ljósa blúndukjóla, vanalega off-white og pastelliti, vinsælasta í heimasaumuðum fermingarkjólum þetta árið.

Tími er oft af skornum skammti í fermingarundirbúningnum en þær Anna og Björg segja það ekki þurfa að taka óþarflega langan tíma að gera allt sjálf(ur). „Það er reyndar erfitt að segja, eftir því hvað á að gera og fyrir hve stóra veislu, en það tekur vanalega t.d. eina kvöldstund að gera boðskortin. Saumaskapurinn getur tekið misjafnan tíma eftir því hvað er verið að sauma en við skulum gera ráð fyrir svona tveimur kvöldstundum í einfaldan kjól.“ Þessar kvöldstundir geta náttúrlega nýst betur ef fjölskyldan hjálpast að og skemmtir sér við hagnýtt föndur frekar en sjónvarpsgláp og þannig er allt í senn hægt að spara kostnað, eyða tíma saman og búa til góðar minningar við fermingarundirbúninginn, og afraksturinn verður einstakar og persónulegar skreytingar og fatnaður eftir höfði hvers og eins.

Þær segja þó að það sé meira um að stúlkur taki þátt í að föndra eða sauma fyrir ferminguna sína en strákarnir hafi oft ákveðnar skoðanir á hvernig eigi að skreyta fyrir veisluna og vilji vera með í ráðum. Algengt sé að fjölskyldur komi saman í verslunina til að skoða og velja skreytiefni.

Skart, hár- og skóskraut

Þótt hægt sé að kaupa tilbúnar skreyttar hárspangir og spennur segir Björg mjög auðvelt að búa til sitt eigið hárskraut með því að festa blóm og perlur á spangir og spennur sem Föndra hefur til sölu. Þá sé mikið um að fólk búi til skartgripi fyrir ferminguna, annaðhvort fyrir fermingarbörnin til að bera við athöfnina eða til að gefa sem gjöf. „Það er hægt að búa til mjög fallega skartgripi, bæði úr steinum og perlum, og oft er festur málmkross við. Einnig er vinsælt að mála tréperlur og búa til hálsfestar úr þeim.“

Og þá er enn fremur orðið vinsælt að skreyta fermingarskóna sérstaklega og tryggja þannig að enginn annar klæðist eins skóm, svona fyrir þá sem vilja alls ekki fylgja tískustraumum heldur skapa og sýna sinn eigin stíl á fermingardaginn. „Já, við seljum sérstaka leðurmálningu sem hægt er að nota á skó, og svo er mikið verið að líma glimmer á skóna til að breyta þeim aðeins.“

Það er því ljóst að með góðu ímyndunarafli geta fermingarbarnið og aðstandendur þess útbúið algjörlega einstakan dag með persónulegum blæ og dýrmætum minningum og minjagripum. Og sennilega skemmt sér stórvel í leiðinni við undirbúninginn, jafnvel uppgötvað dulda listræna hæfileika!

ingibjorgrosa@gmail.com