Kríli Smáhundar kalla ekki á svo mikið umstang. Þrír sætir.
Kríli Smáhundar kalla ekki á svo mikið umstang. Þrír sætir. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Við fermingaraldur eru ungmenni tilbúin að axla meiri ábyrgð. Það er vel skiljanlegt að foreldrar treysti sér ekki til að verða við ítrekuðum óskum um heimilishund meðan börnin eru ung, enda krakkarnir varla færir um að hjálpa til við dýrahaldið.

Við fermingaraldur eru ungmenni tilbúin að axla meiri ábyrgð.

Það er vel skiljanlegt að foreldrar treysti sér ekki til að verða við ítrekuðum óskum um heimilishund meðan börnin eru ung, enda krakkarnir varla færir um að hjálpa til við dýrahaldið. En nú er kannski orðið óhætt að bæta við fjórfættum heimilismeðlimi með dillandi skott og blautt nef.

Hví ekki að gefa hund í fermingargjöf?

Að hafa hund á heimilinu er afskapalega gaman og gerir vistarverurnar óneitanlega hlýlegri að eiga þar loðinn vin sem sníkir klór á bak við eyrun og þykir gaman að hlaupa á eftir bolta.

En rannsóknir hafa líka sýnt fram á að hundar geta haft mjög jákvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu eigandans. Í tilviki barna og unglinga hefur verið sýnt fram á að hundurinn bætir andlega líðan og eflir sjálfstraustið.

Enginn er einmana ef hann á hund, og stór og mjúk eyrun eru meira en tilbúin að hlusta á unglinginn kvarta yfir raunum táningsáranna, hvort sem krakkarnir í skólanum eru leiðinlegir eða illa gengur að fá sæta stelpu eða strák til að sýna áhuga.

Agi og regla

Svo kallar hundurinn á að það sé ögn meiri regla á heimilishaldinu, enda þarf voffi að komast út til að pissa, ryksuga þarf hárin reglulega og ekki sniðugt að hafa matarleifar eða smáhluti í reiðileysi hér og þar ef hundurinn getur náð til þeirra.

Þessi agi og regla smitar vafalítið út frá sér til annarra þátta daglegs lífs, og hver veit nema herbergið verði allt í einu snyrtilegt, rúmið uppábúið og heimavinnan leyst af mikilli festu.

Best af öllu er svo kannski að hundahaldið kallar á reglulega göngutúra. Með hund á heimilinu má toga unglinginn frá tölvuskjánum, svo hann storknar ekki alveg úr sólar- og hreyfingarleysi. Gangan kemur blóðinu af stað og sólin gefur frísklegt útlit.

Sniðugast er að finna heimilslausan hund, t.d. hjá Dýrahjálp, frekar en að eltast við sæta litla hvolpa. Fullorðnu hundarnir eru búnir að ganga í gegnum mest krefjandi æviskeiðið, venja sig af helstu ósiðunum og búnir að þroska persónuleikann.

Nóg er af hundum í heimilisleit, af öllum stærðum og gerðum, og hægt að finna einmitt rétta vininn sem kallar á hreyfingu og félagsskap í samræmi við þarfir nýja eigandans.

ai@mbl.is