Unnur Jónasdóttir fæddist 10. júlí 1935. Hún lést 21. febrúar 2015. Útför Unnar fór fram 27. febrúar 2015.

Elsku mamma, núna ertu farin frá okkur og hefur endað tilvist þína hér á jörð. Eftir nokkur veikindi undanfarin ár var líkami þinn orðinn þreyttur en þú sjálf svo sterk að við áttum stundum ekki til orð. Þann 15. febrúar lendirðu í því slæma óhappi að detta og lærbrotna. Eftir erfiða aðgerð sem þú auðvitað komst vel í gegnum önduðu allir léttar og við systkinin sögðum: Já, þetta er hún mamma, hún er ósigrandi. Undirbúningur var hafinn við að koma þér á fætur á ný, lúmski húmorinn kominn aftur og allt leit vel út. En stutt er á milli gleði og sorgar og óvænt erum við öll komin til þín á spítalann seint að kvöldi 20. febrúar til að kveðja þig. Líkaminn þoldi ekki allt þetta álag og það er á endanum heilablæðing sem tekur þig alla. Við fjölskyldan erum svo þakklát að hafa fengið að vera hjá þér síðasta spölinn, að hafa náð að strjúka þér, hvísla að þér því sem við vildum segja þér að lokum og vera með þér alveg til enda.

Elsku mamma, það sem kemur upp í huga okkar er við hugsum til baka er: þolinmæði, hlýja, hörkutól, harðjaxl, dugleg, hjálpsöm, húmoristi, dansari, söngvari, umhyggjusöm, dýravinur, þetta varstu allt og svo miklu meira. Áður en heilsunni fór að hraka varst þú ótrúlega dugleg að passa fyrir okkur og mikið sem þú varst ánægð þegar barnabörnin fóru að koma í heiminn. Þau eru nú orðin 12 talsins. Eldri barnabörnin muna eftir þér sem hlýlegri og hjálplegri ömmu sem gat spilað við þau á spil endalaust. Einnig sástu um koppaþjálfun elstu barnabarnanna og er skjaldbökukoppurinn góði ennþá til. Ófáar eru næturnar sem þau gistu í ömmu holu og nutu alúðar og hlýju frá þér, elsku mamma. Ekki er hægt að sleppa því að minnast á hann Snúlla þinn. Þú varst frekar andvíg því að fá kött inn á heimilið en Rúnar kom honum þangað með krókaleiðum. Auðvitað fékk hann að vera þar sem þú bráðnaðir alveg á staðnum yfir þessum fallega kettlingi sem varð tólf ára gamall.

Okkur er ljúft að hugsa til þess hvað þér þótti gaman að dansa og elskaðir að fara með pabba að dansa hvenær sem tækifæri gafst. Ættarmót Núparanna voru þér einstaklega kær og vildir þú aldrei missa af þeim. Þar naustu þín svo vel með uppeldissystkinum þínum og niðjum þeirra í gleði, söng og dansi. Alltaf varst þú síðust í tjald eftir skemmtanir, þrátt fyrir að hafa jafnvel verið veik þá áttir þú alltaf auka kraft til að missa ekki af ættarmóti. Elsku mamma, þú settir sjálfa þig aldrei í fyrsta sæti og þér var svo umhugað um að við og barnabörnin hefðum það gott. Þú spurðir reglulega um þau og þá sem þú hafðir ekki séð í einhvern tíma. Við vitum að þú hafðir velferð þeirra ávallt í huga og hafðir oft áhyggjur ef einhver átti við erfiðleika að stríða þó þú ættir oft erfitt með að tala beint út um það.

Við elskum þig ávallt og þú verður ávallt í hjörtum okkar. Þegar sorgin sækir á þá sækjum við í minningabankann og rifjum upp fallegar stundir með þér. Hvíl í friði, elsku mamma.

Sigurjón Ragnar,

Guðmundur, Rúnar Þór, Fanney Dóra og Guðrún.