Meirihlutinn er jafn áhugalaus og fyrr um skoðanir hins almenna borgarbúa

Núverandi borgaryfirvöld eru lítið fyrir að hlusta á borgarbúa og eru foreldrar barna í leikskólum og grunnskólum engin undantekning frá þeirri meginreglu. Nýjasta dæmið um áhugaleysið á skoðunum borgarbúa er skýrsla um sameiningar skóla og leikskóla sem keyrð var í gegn fyrir nokkrum árum og sætti margt í þeirri sameiningu mikilli gagnrýni foreldra.

Þrátt fyrir þetta er í skýrslunni ekkert rætt við foreldra, eins og fram hefur komið í gagnrýni Kjartans Magnússonar borgarfulltrúa, sem ásamt öðrum borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins lagði til að samin yrði ný skýrsla til að fá fram sjónarmið foreldra.

Kjartan bendir ennfremur á að skýrslan sem nú liggur fyrir byggist að mestu á samtölum við 17 einstaklinga og 15 þeirra hafi ýmist beitt sér pólitískt fyrir sameiningunni eða borið ábyrgð á henni vegna starfa sinna.

Svör Skúla Helgasonar, formanns skóla- og frístundaráðs, eru vonbrigði. Hann viðurkennir að viðhorf foreldra hafi ekki verið könnuð en að þau komi fram með öðrum hætti. Og hann er líka þeirrar skoðunar að þó að þau hefðu verið könnuð sérstaklega hefði það litlu bætt við.

Nú hefur tillögunni um að kanna afstöðu foreldranna verið vísað til skóla- og frístundaráðs. Svör formanns ráðsins gefa ekki ástæðu til að ætla að áhersla verði lögð á að draga fram allar hliðar málsins. Full ástæða er hins vegar til að svo verði gert.