6. mars 1830 Eldgos hófst í sjó nærri Eldeyjarboða út af Reykjanesi og stóð það í tvo mánuði. „Rak mikið af vikri að næstu ströndum,“ sagði í ritinu Landskjálftar á Íslandi. 6.

6. mars 1830

Eldgos hófst í sjó nærri Eldeyjarboða út af Reykjanesi og stóð það í tvo mánuði. „Rak mikið af vikri að næstu ströndum,“ sagði í ritinu Landskjálftar á Íslandi.

6. mars 1873

Ofsaveður gerði við suðausturströndina og er talið að fimmtán franskar fiskiskútur hafi farist. Fjörutíu lík rak á land og voru þau jarðsett á Stafafelli í Lóni í Austur-Skaftafellssýslu.

6. mars 1905

Botnvörpugufuskipið Coot, fyrsti togari í eigu Íslendinga, kom til Hafnarfjarðar. Skipið gekk „10 mílur á vöku, með 48 hesta afli,“ sagði í Ísafold. Aflann átti að leggja upp „til sölu í soðið eða til verkunar“. Coot strandaði í desember 1908.

6. mars 1998

Frost mældist 34,7 stig í Mývatnssveit, það mesta á landinu í áttatíu ár. „Fimbulkuldi,“ sagði Morgunblaðið.

6. mars 1999

Jón Arnar Magnússon, þá 29 ára, setti Íslandsmet og Norðurlandamet í sjöþraut á heimsmeistaramóti innanhúss í Maebashi í Japan, hlaut 6.293 stig. Íslandsmetið stendur enn.

6. mars 2010

Þjóðaratkvæðagreiðsla var um Icesave-lögin sem forseti Íslands hafði synjað staðfestingar 5. janúar. Rúm 98% þeirra sem afstöðu tóku höfnuðu lögunum. Kjörsókn var 62,7%.

Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson