Þá reyndi kona nokkur að skipa mér að „fara bara heim til mín aftur“ í stað þess að stela vinnunni af rammíslenskum Íslendingum

Æ sjaldnar er ég spurð að því hér heima hvort ég sé íslensk. Því fagna ég því oft og tíðum var býsna vandræðalegt að færa rök fyrir því að víst væri ég íslensk, fædd hér á landi og alin upp. Á háskólaárunum var ég svo lánsöm að geta unnið fyrir mér samhliða námi. Vinnan var um borð í flugvél og sem flugfreyja átti ég í töluverðum samskiptum við fólk. Oft var mér hrósað fyrir íslenskukunnáttu mína, bæði af farþegum og stundum af samstarfsfólki sem sumt gekk út frá því að uppruni minn væri í Þýskalandi eða fyrirheitna landinu, Svíþjóð. „Mikið talar þú góða íslensku. Næstum bara eins og innfæddur Íslendingur,“ sagði maður nokkur, farþegi um borð í vélinni. Það er alltaf gaman að fá hrós en þetta gat ég nú ekki tekið til mín án útskýringa. Maðurinn brást hinn versti við og sagði að ég þyrfi nú ekkert að blygðast mín fyrir að vera innflytjandi. Svo var það einn kennari minn í mannfræðinni í háskólanum sem lagði hönd á öxl mína að fyrirlestri loknum. Það leið að lokaprófum og kennarinn sagði hægt og mjög skýrt við mig að það væri í góðu lagi að ég skrifaði svörin og jafnvel ritgerðina á mínu móðurmáli ef mér þætti það betra.

Svona hefur fólk nú verið indælt við mig í gegnum tíðina og það þykir mér afskaplega vænt um. Verst að ég skuli ekki eiga þetta fyllilega skilið, rammíslensk stelpan.

Fyrir utan heldur óvenjulegt nafn skilst mér að ég hafi alla tíð búið yfir orðaforða sem vel hefði farið voðalega gamalli manneskju. Auk þess talaði ég tiltölulega hægt og skýrt, rétt eins og ég væri að vanda hvert eitt og einasta orð sem út úr mér kom. Þetta getur allt átt þátt í að gera mann að „útlendingi“ í fæðingarlandinu. Aðeins minnist ég þess að hafa orðið fyrir illsku einu sinni vegna meints erlends uppruna míns. Þá reyndi kona nokkur að skipa mér að „fara bara heim til mín aftur“ í stað þess að stela vinnunni af rammíslenskum Íslendingum. Konan var vel við skál en virtist ekki skemmta sér sérlega vel og kraumaði reiðin í henni. Eflaust réttlát reiði í hennar huga byggð á staðfastri trú á að sumir Íslendingar væru íslenskari en aðrir. Það getur verið fróðlegt að prófa að vera útlendingur í eigin landi. Þó ekki of lengi því það var orðið þreytandi að þurfa að færa rök fyrir upprunanum og helst að framvísa fæðingarvottorði. Ætli ég sé ekki farin að tala nógu hratt núna til að ekki hvarfli að nokkrum lifandi manni, íslenskum Íslendingi, að ég sé útlendingur. Reyndar skiptir það mig ekki nokkru máli og sannarlega hefur verið hægt að sjá spaugilegar hliðar þessara upprunadeilna í gegnum tíðina!

Malín Brand malin@mbl.is

Höf.: Malín Brand malin@mbl.is