Sjónarspil Sviðslistahópurinn 16 elskendur á kynningarmynd fyrir Minnisvarða.
Sjónarspil Sviðslistahópurinn 16 elskendur á kynningarmynd fyrir Minnisvarða.
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Sviðslistahópurinn 16 elskendur frumsýnir nýtt verk eftir hópinn, Minnisvarða , í Tjarnarbíói annað kvöld kl. 20.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Sviðslistahópurinn 16 elskendur frumsýnir nýtt verk eftir hópinn, Minnisvarða , í Tjarnarbíói annað kvöld kl. 20. 16 elskendur er samstarf listamanna sem koma úr ólíkum listgreinum: leiklist, myndlist, tónlist, danslist og gjörningalist og setur hópurinn upp sýningar þar sem mörk hefðbundinna leiksýninga eru máð og þannig látið reyna á mæri raunveruleika og sýningar, svo vitnað sé í tilkynningu frá hópnum.

Í Minnisvarða er „tekist á við mikilvægi sjónarspilsins innan nútímasamfélags“, eins og hópurinn orðar það og hópurinn leitast við í efnistökum sínum að prófa og teygja orðræðu líðandi stundar og bjóða áhorfendum í tilraunastofu þar sem þeirra eigið samfélag, hugsjónir og gildi eru krufin, þar sem áhorfendur og leikendur skoða samsetningu þjóðfélagsins í sameiningu.

Leikendur í Minnisvarða eru Aðalbjörg Árnadóttir, Brynja Björnsdóttir, Davíð Freyr Þórunnarson, Eva Rún Snorradóttir, Gunnar Karel Másson, Karl Ágúst Þorbergsson, Ragnar Ísleifur Bragason og Saga Sigurðardóttir. Blaðamaður ræddi í vikunni við Karl Ágúst um þessa forvitnilegu sýningu en hann er listrænn stjórnandi verksins.

Ritgerð útgangspunkturinn

Karl Ágúst segir útgangspunkt sýningarinnar mastersritgerð sem hann skrifaði í Þýskalandi.

„Í henni er ég að fjalla um hvernig við erum farin að sviðsetja okkur sjálf í gegnum raunveruleikasjónvarp og samfélagsmiðla og ekki bara sviðsetja okkur eins og við gerum venjulega í hversdagslegu lífi heldur sviðsetja okkur þannig að okkar allra hversdagslegustu athafnir verða að einhverjum stórfenglegum viðburði,“ segir hann.

-Þannig að ekkert er lengur hversdagslegt?

„Nei, nákvæmlega og það er útgangspunkturinn í ritgerðinni og lykilorðið sem er notað er „sjónarspil“, það verður allt að stórfenglegu sjónarspili eða „spectacle“ á ensku. Það er það sem við vorum að vinna með, þessa hugmynd um sjónarspilið og það að búa til ímyndir úr öllu sem við erum að gera, alla þessa sviðsetningu sem er í kringum okkur alls staðar. Þegar við fórum að vinna þetta sáum við að það væri hundleiðinlegt að gera sýningu um Facebook og fórum að einbeita okkur að þessu hugtaki, sjónarspilinu, hvaðan það kemur og hvaðan þessi þörf kemur fyrir að sviðsetja sig,“ segir Karl Ágúst.

Gylltir diskar í geimnum

„Þegar við fórum að skoða hvaðan sjónarspilið kemur komumst við að því að það kemur frá 19. öldinni og það passar við þær samfélagshugmyndir sem eru enn gangandi í dag og komu fram þá, um millistéttina og allt það. Svo fórum við að skoða hvað er mesta sjónarspilið og þá fórum við út í geim því það er náttúrlega stórkostlegt sjónarspil að senda einhvern út í geim, að fara til tunglsins og það náði sínu hámarki í kalda stríðinu og tilgangurinn lítur ekki út fyrir að vera beinlínis vísindalegur,“ segir Karl Ágúst. Hópurinn hafi fundið stórkostlegt fyrirbæri, gylltan hljóm- og mynddisk sem sendur var með geimförunum Voyager I og II árið 1977 með margvíslegum upplýsingum um jörðina.

„Á þessum diskum voru kveðjur frá jörðinni á 55 tungumálum, alls konar tónlist og myndir af lífi á jörðinni, hljóð og alls konar rugl. Það er algjörlega súrrealískt hvað er á þessari plötu, svo skrítið hvað var valið. Það er t.d. maður að mæla dauðan krókódíl,“ segir Karl Ágúst. Hugmyndin sé furðuleg, að senda geimverum slíkar upplýsingar en það var hópur vísindamanna, undir forystu stjörnufræðingsins Carls Sagan, sem sá um að safna þeim saman.

Óvænt ástarsaga

Karl Ágúst segir það áhugavert að Sagan og einn vísindamannanna, Ann Druyan, hafi orðið ástfangin þegar þau unnu að þessu verkefni. „Þau taka upp þessa ást í formi heilabylgja og alls konar hljóða og setja á plötuna. Þarna finnst okkur eitthvað koma á móti þessu sjónarspili sem er ekki alveg hluti af því og myndar ákveðna spennu eða dramatík. Það er svolítið út frá þessari spennu sem við erum að vinna,“ segir Karl Ágúst.

Um aðferðir 16 elskenda segir Karl Ágúst að hópurinn láti hin ýmsu listform renna saman, vinni á grensunni og brjóti m.a. niður fjórða veginn svokallaða, þann sem stendur milli leikenda og áhorfenda.