Trúaður Þó Baldvin Alan, leikari í söngleiknum Billy Elliot, sé upptekinn þá tekur ferminguna alvarlega.
Trúaður Þó Baldvin Alan, leikari í söngleiknum Billy Elliot, sé upptekinn þá tekur ferminguna alvarlega. — Morgunblaðið/Golli
Börn eru í eltingarleik og tónlist í bakgrunninum þegar við Baldvin Alan Thorarensen setjumst niður í anddyri Borgarleikhússins til þess að ræða saman.

Börn eru í eltingarleik og tónlist í bakgrunninum þegar við Baldvin Alan Thorarensen setjumst niður í anddyri Borgarleikhússins til þess að ræða saman. Baldvin Alan á að fermast í vor en það er með naumindum að hann hafi tíma til að sinna fermingarfræðslunni, hann er einn þriggja drengja sem leika Billy Elliot í samnefndum söngleik eftir Stephen Daldry, sem nú er verið að frumsýna.

Mér hefur alltaf fundist gaman að leika,“ segir Baldvin Alan Thorarensen þegar ég spyr hann hvernig honum hafi dottið í hug fara í leikprufu fyrir þetta hlutverk.

„Ég er þrettán ára og er að fara að fermast í vor en þegar ég heyrði um þetta þá var aldurstakmarkið níu til ellefu ára. Svo var ég einu sinni sem oftar að æfa samkvæmisdans, þá kom einn strákurinn með miða þar sem stóð að hann væri að fara í prufu fyrir hlutverk Billy Elliot. Hann er jafngamall mér og sagði mér að það væri búið að breyta aldurstakmarkinu. Foreldrar mínir sendu fyrir mig tölvupóst og í framhaldi af því fékk ég að fara í prufu. Þeim leist bara vel á þetta þó enginn í fjölskyldunni hafi fengist við leiklist svo ég viti.“

Ertu búinn að vera lengi að læra samkvæmisdansa?

„Í um fimm ár. Mér hefur alltaf fundist latíndansar skemmtilegir og líka jive. Ég hef aldrei verið í ballett. En mér finnst geðveikt skemmtilegt að æfa ballett núna hér í leikhúsinu.“

Baldvin Alan býr í Hveragerði. En hefur þá ekki stundum verið ófært á æfingar?

„Jú, stundum hefur verið ófært en við eigum vinafólk í bænum og ég gisti þá bara hér. Við erum þrír sem skiptum á milli okkar að leika Billy, Sölvi Viggósson Dýrfjörð heitir einn, hann gistir af og til hjá ömmu sinni og afa og ég hef líka gist hjá þeim. Ég hef stundum haft áhyggjur af veðrinu og við heima höfum fylgst vel með veðurfréttunum. Þriðji Billyinn heitir Hjörtur Viðar Sigurðsson.“

Hvernig líst þér á þetta hlutverk?

„Ég hafði sé myndina um Billy Ellliot oft og finnst hún mjög skemmtileg. En ég vissi ekki að þetta væri söngleikur. Ég hélt því að þetta yrði eitthvað líkt myndinni. En söngleikurinn finnst mér núna skemmtilegri en myndin. Mér finnst mjög gaman að vera á sviðinu. Maður fær að tjá sig og mér finnst ég svo frjáls á sviðinu. Áætlaðar eru fjórar sýningar í viku og við þrír skiptum þeim á milli okkar, ég mun því leika Billy svona einu sinni til tvisvar í viku.“

Tefur leikstarfið þig frá skólanum?

„Já, núna er ég til dæmis ekki búinn að mæta í skólann í þrjár vikur í röð. Ég er á fullu hér og hef lítinn tíma fyrir skólann. Ég læri þó aðeins heima og stundum tek ég bækurnar með mér í bæinn, það hjálpar að ég hef haft góðar einkunnir. Ég fékk frí í skólanum eins og ég þurfti til að geta æft í Billy. Verst er að sleppa stærðfræðinni. En þetta breytist nú allt eftir frumsýninguna. Þetta verður geðveikt flott skal ég segja þér.“

Allir hressir í leikhúsi

Það er auðséð að Baldvin Alan nýtur þess í botn að æfa og starfa í leikhúsinu. Það sést á björtu bliki í augum hans þegar hann talar um leiksýninguna. „Geðveikt,“ bætir hann við dreymandi.

„Það er eitt svo skemmtilegt við leikhús, þar eru allir svo hressir. Ef maður er eitthvað leiður þá eru allir brosandi til manns og þá er maður ekki leiður lengur.“

Hafa þér fundist æfingarnar erfiðar?

„Já, mér hafa fundist þær mjög erfiðar. Hlutverkið er kröfuhart. Ég hef oft legið andvaka og hugsað um hvernig ég eigi að koma þessu öllu heim og saman. Þetta er svo stór sýning sem við Billyarnir erum að halda uppi. Hlutverkið gerir miklar kröfur til sönglistar, dans og leiks. Billy er blátt áfram strákur, svolítið einlægur. Við þrír sem leikum hann erum auðvitað allir ólíkir Billyar, það er þess vegna hægt að fara þrisvar á sýninguna, hún er alltaf öðruvísi þegar nýr Billy leikur hlutverkið. Ég er minnstur, en við erum þó nokkuð svipaðir á hæð.“

Hvernig gengur þér að undirbúa ferminguna með Billy?

„Fermingarfræðslan er eftir skólann svo ég næ oft ekki að fara, en fræðslan er komin á netið svo ég hlusta á hana þar á kvöldin. Ég er trúaður, bið bænir á kvöldin. Stundum bið ég faðirvor, en alltaf þessa bæn: Vertu nú yfir og allt um kring með eilífri blessun þinni. Sitji guð englar saman í hring sænginni yfir minni. Að eilífu. Amen. Þá verð ég rólegur.“

Baldvin fermist í Hveragerðiskirkju.

„Hjá honum séra Jóni, við köllum hann bara það,“ segir hann og brosir. Séra Jón Ragnarsson er sóknarprestur í Hveragerðiskirkju. „Við erum ansi stór hópur sem fermist þetta árið. Ég á að fermast 3. maí, það er síðasta fermingin og þá verðum við líklega svona fimm sem fermumst saman. Ég er búinn að kaupa mér skyrtu og vesti. Kannski fæ ég mér svo jakka yfir vestið. Svo erum við ekki búin að ákveða hvernig buxurnar eiga að vera. Vil bara ekki vera í of þröngum buxum. Ég ætla á frumsýninguna í fermingarfötunum, ég leik ekki þá, ég verð í þriðju sýningu.

Þetta er búið að vera mikið ævintýri, ég er búinn að kynnast fullt af nýjum krökkum og fólki. Við eigum auðvitað kunningja og ættingja í bænum en ég hitti þá ekki oft.“

Fer fjölskyldan með þér á frumsýninguna á Billy?

„Mamma og pabbi og bræður mínir tveir. Þeir eru báðir eldri en ég. Þeir eru ekki dansmenn.“

Við vorum í skýjunum

Ætlar þú að halda fermingarveislu?

„Já, við ætlum að vera með veislu í Garðyrkjuskólanum, það er rétt hjá Hveragerði, það er flottur staður með fiskitjörn. Við ætlum að hafa súkkulaðitertu í eftirmat og gott kjöt áður. Ég held að það verði graflax í forrétt.“

Í hvaða ævintýrum lendir Billy?

„Hann býr í kolanámubæ. Þar ríkja fordómar í garð homma og stráka í ballett. Hann lendir á ballettæfingu eftir einn boxtíma og þá kviknar áhugi hjá honum á að nota hendurnar við eitthvað annað en kýla einhvern. Hann ákveður að fara aftur í balletttíma en segir ekki pabba sínum frá því. Hann veit að hann myndi banna honum að fara. En pabbinn kemst að öllu saman. Svo fer Billy í próf fyrir konunglega ballettskólann og það er alveg svakalegt. Mjög erfitt atriði.“

Voru ekki margir prófaðir í hlutverkið?

„Jú, níu hundruð strákar sóttu um að vera Billy. Fyrst mættu allir, svo var skorið niður smám saman. Við sem eftir vorum áttum svo að læra heima lag og texta. Þá vorum við fimmtán. Daginn eftir vorum við tíu. Þá fórum við með annan texta. Loks var eftir sex manna hópur sem fór í svokallaðan sumarskóla – Billyskólann. Hann var hér í Borgarleikhúsinu alla daga. Þetta var ógeðslega erfitt en mjög gaman. Við lærðum ballett, nútímadans og djassballett, líka fimleika og steppdans. Kennarinn okkar er enskur. Einnig lærðum við leiklist og söng.“

Varstu hissa þegar þú varst valinn?

„Síðasta daginn voru svo valdir þrír af þessum sex. Þann dag fengum við að sýna foreldrum og ættingjum hvað við vorum búnir að vera að gera um sumarið. Eftir það fórum við einn og einn á fund með leikstjóranum. Síðan fór ég með foreldrum mínum að fá okkar að borða og keyra um meðan við biðum eftir niðurstöðu. Það tók rúmlega klukkutíma og það er mest stressaði tími sem ég man eftir. Óvissan var svo slæm. Þegar ég fékk að vita að ég hefði fengið hlutverkið var ég óskaplega ánægður. Við vorum í skýjunum.“

Ætlar þú að halda áfram að leika?

„Ég er eiginlega búinn að ákveða að fara í söngleikjaskóla í London, Musical Theater, þegar ég verð sextán ára. En hvort úr því verður kemur bara í ljós. Eitt er víst, ég kem alltaf glaður úr leikhúsinu.“

gudrunsg@gmail.com