Miðað við margan hefðbundinn íslenskan mat verður að segjast að íslenska pönnukakan, sem í mörgu líkist frönsku pönnukökunni, crepe, er sannkallað lostæti.

Miðað við margan hefðbundinn íslenskan mat verður að segjast að íslenska pönnukakan, sem í mörgu líkist frönsku pönnukökunni, crepe, er sannkallað lostæti. Hún er gjarnan safarík og með góðu jafnvægi af sætu, bragðstyrk og svo þessum ljúffenga vanillukeim. Margir bæta kaffi í uppskriftina sína og það er bara af hinu góða (þarf ekki nema eitt skot af espressó).

Flestir eru aldir upp við að fá pönnukökur hjá afa og ömmu og þannig var það líka í mínu ungdæmi. Ég vona að fólk sé jafniðið við að steikja pönnukökur og áður fyrr þar sem þær eru feikigóðar – og alíslenskar í mínum huga þó að þær hafi borist hingað frá Evrópu!

Og þeim má auðveldlega breyta. Hægt er að sleppa sykri og vanilludropum og gera „savory“-kökur í staðinn og vefja þeim utan um skinku, ost og sinnep. Ekki leiðinlegt það.

Fyrir 20 pönnukökur

4 dl hveiti,

2 msk. sykur,

½ tsk. salt,

½ tsk. matarsódi,

2 egg,

1 tsk. vanilludropar,

50 g brætt smjör,

500 ml mjólk,

25 g smjör (aukalega),

250 ml rjómi,

1 msk. vanillusykur (í rjómann)

jarðarber, bláber, hindber

1. Blandið öllum þurrefnum nema vanillusykrinum saman í skál.

2. Hrærið egg og vanilludropa saman við ásamt mjólkinni.

3. Bætið svo brædda smjörinu út í deigið og hrærið vel saman.

4. Hitið smjör á pönnukökupönnu og bakið pönnukökurnar, 20 stykki eða svo.

5. Þeytið rjómann og sigtið vanillusykurinn yfir. Blandið saman með sleikju.

6. Setjið eina kúfaða matskeið á hverja köku og svo nokkur ber. Brjótið saman og leggið á disk.

Auðvitað er hægt að bæta ljúffengri sultu við þessa berjadýrð, til dæmis bláberjasultu.