Þórdís Gerður Sigurðardóttir fæddist í Þórisholti í Mýrdal 18. febrúar 1949. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi laugardaginn 28. febrúar 2015.

Foreldrar hennar voru Sigurður Ágúst Hafsteinn Jónsson, f. 24.5. 1929, d. 5.1. 2004, og Ingveldur Guðríður Kjartansdóttir, f. 2.8. 1929, d. 9.9. 1999. Systkini Þórdísar Gerðar eru Sigrún Sigurðardóttir, f. 30.11. 1951, Jón Sigurðarson, f. 5.12. 1961, Kjartan Sigurðsson, f. 1.6. 1966, og Vilborg Þórunn Sigurðardóttir, f. 15.12. 1968.

Þórdís Gerður giftist Kristni S. Pálssyni f. 17.4. 1949, d. 21.10. 1987. Börn þeirra: Páll Kristinsson, f. 27.10. 1972, og Ingveldur Kristinsdóttir, f. 28.4. 1975. Barnabarn: Christian Michael Isak, f. 15.4. 1999. Síðar giftist Þórdís Gerður eftirlifandi eiginmanni sínum, Birni Snorrasyni, f. 26.11. 1945. Börn hans eru Inga Björnsdóttir, f. 6.11. 1969, Ragnheiður Björnsdóttir, f. 17.11. 1970, Júlíus Björnsson, f. 10.1. 1973, og Kristín Björnsdóttir, f. 26.3. 1976.

Þórdís Gerður var sjúkraliði að mennt og starfaði lengst af á Hrafnistu í Reykjavík og á öldrunardeild Landspítalans á Landakoti.

Útför Þórdísar Gerðar fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 6. mars 2015, og hefst athöfnin kl. 13.

Elsku Gerður okkar, leiðtogi systkinahópsins, hefur kvatt okkur eftir að hafa háð enn eina orrustuna við marghöfða skrímslið. Dugnaður, ósérhlífni og glæsileiki einkenndu Gerði. Við systurnar áttum okkar stundir og leiddum hesta okkar saman til ferðalaga þegar komið var að krossgötum. Þessar stundir einkenndust af fjörugum uppátækjum. Kankvísi, orðheppni og ríkt hugmyndaflug Gerðar kallaði fram gleði og hlátur sem leysti öll heimsins vandamál og fyllti nýjar vonir í brjóstum okkar. Frelsi til eigin ákvarðana og athafna var Gerði afar huglægt. Hún var þakklát þegar henni var sýndur skilningur og launaði ríkulega með gagnkvæmum skilningi og hvatningu til eigin dáða.

Kæra stóra systir, við munum varðveita blómin sem þú sáðir í kringum okkur og veita Kidda, Ingu, Palla og Bjössa styrk til að brúa bilið sem án þín verður ekki fyllt. Góða ferð.

Vilborg, Sigrún

og fjölskyldur.

Elsku vinkona. Mér finnst erfitt að hugsa til þess að við eigum ekki eftir að eiga saman skemmtilegar stundir úti á palli í sólinni í Vallarásnum eins og undanfarin sumur. En nú hefur þú kvatt þetta líf og ert komin innan um annað fólk sem örugglega tekur vel á móti þér. Okkar vinátta spannar langan tíma og er ég þakklát fyrir að hafa fengið að eiga þig fyrir vinkonu. Þín sýn á lífið og tilveruna var mér alltaf til fyrirmyndar þar sem þú varst ein æðrulausasta manneskja sem ég hef þekkt. Það hefur engan tilgang að horfa til baka og sjá eftir hlutunum, varst þú vön að segja, og mættu margir taka það sér til fyrirmyndar. Í gegnum tíðina áttum við margar skemmtilegar stundir, hvort sem var í sumarbústað fjölskyldunnar þinnar, Djúpaleiti í Mýrdalnum, eða ef hann var upptekinn þá bara tjölduðum við í fjörunni, auðvitað með leyfi eigenda. Það var alltaf mikill hlátur og mikil gleði í kringum okkur og áttum við það til að tileinka okkur ýmsa frasa. Einn af þeim betri er „mjólk er góð“, en hann notuðum við þegar við þurftum ekki önnur orð til að lýsa hlutunum og það var margt spaugilegt sem gerðist hjá okkur sem var hægt að lýsa með „mjólk er góð“. Ferðin okkar að Hótel Búðum á Snæfellsnesi í boði Ingu dóttur þinnar var ein af okkar dásamlegu stundum og vöktum við alla þá fallegu vornótt og töluðum saman um lífsins gagn og nauðsynjar. Í öllum þínum veikindum varst þú þessi líka hetja og alltaf stóðstu og hugsaðir meira um aðra en þig. Þegar ég skoða myndirnar af okkur í Washington sem voru teknar vorið 2011 finnst mér þær vera svo dýrmætar og munu þær ylja mér í minningu þinni um ókomin ár.

Elsku hjartans vinkona mín, þú fórst allt of fljótt og ég á eftir að gráta mikið af söknuði til þín og vil ég að endingu setja þessa grein úr Rutarbók sem mína hinstu kveðju til þín: „Leggðu eigi að mér um það að yfirgefa þig og hverfa aftur, en fara eigi með þér, því að hvert sem þú fer, þangað fer ég, og hvar sem þú náttar, þar nátta ég. Þitt fólk er mitt fólk og þinn guð er minn guð. Hvar sem þú deyr, þar dey ég, og þar vil ég vera grafin. Hvað sem Drottinn lætur fram við mig koma, þá skal dauðinn einn aðskilja mig og þig.“

Og mundu bara að mjólk er góð.

Þín vinkona

Elín.