Monróvíu. AFP. | Síðasti staðfesti ebólusjúklingurinn í Líberíu var útskrifaður í gær og greindi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, frá því á miðvikudag að í fyrsta sinn í níu mánuði hefði vika liðið án þess að nýtt smit hefði verið greint.
Heilbrigðisstarfsfólk og embættismenn fögnuðu þegar Beatrice Yordoldo gekk út af meðferðarmiðstöðinni, sem Kínverjar reistu til að berjast gegn ebólufaraldrinum í landinu, í úthverfinu Paynesville í höfuðborginni Monróvíu.
„Í dag er ég mjög þakklát almáttugum guði og kínversku miðstöðinni og öllum líberísku hjúkrunarfræðingunum, sem vinna með þeim,“ sagði Yordoldo, sem var lögð inn fyrir tveimur vikum. „Ég vissi ekki að ég gæti lifað þetta af.“
„Þetta er síðasta staðfesta ebólutilfellið í öllu landinu,“ sagði Tolbert Nyenswah, aðstoðarheilbrigðisráðherra, þegar Yordoldo var kvödd. „Nú eru þrettán dagar liðnir án nýs tilfellis. Þetta er mikill dagur fyrir Líberíu.“
Tæplega 24 þúsund manns hafa smitast af ebólu síðan í desember 2013, nánast allir í Líberíu, Gíneu og Síerra Leóne. 9.807 þeirra hafa látist, samkvæmt tölum WHO. Þar af hafa 4.117 látið lífið í Líberíu. Fyrir sex mánuðum voru tilkynnt þrjú hundruð ný tilfelli af sjúkdómnum á viku.
Heilbrigðiskerfi Líberíu stendur veikum fótum eftir borgarastyrjaldir og þegar ebólufaraldurinn stóð sem hæst varð að vísa fólki frá sjúkrahúsum og heilsugæslum og létu margir lífið á víðavangi. Nú hefur tekist að snúa taflinu við með innlendu átaki og erlendri aðstoð.
Ástandið er hins vegar ekki jafn gott í Gíneu og Síerra Leóne. Þar voru 132 ný tilfelli staðfest í liðinni viku. Að sögn WHO smitast sjúkdómurinn víða í Síerra Leóne og sömuleiðis er áhyggjuefni að þar virðist sjúkdómurinn í sókn því að 51 nýtt tilfelli greindist í liðinni viku, en aðeins 35 ný tilfelli í vikunni þar á undan.
Heilbrigðismálastofnunin segir að þetta bendi til að ekki sé skilningur í þessum löndum á að einangra þurfi sjúklinga strax og hefja meðferð án tafar.