Heiður Guðrún Kristinsdóttir, Ingibjörg H. Harðardóttir, Steinunn Gestsdóttir, Margrét Sveinsdóttir, Nanna Þ. Andrésdóttir og Margrét Ólafsdóttir.
Heiður Guðrún Kristinsdóttir, Ingibjörg H. Harðardóttir, Steinunn Gestsdóttir, Margrét Sveinsdóttir, Nanna Þ. Andrésdóttir og Margrét Ólafsdóttir. — Morgunblaðið/Eggert
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Ég þakka þann mikla heiður sem Hagþenkir veitir okkur, bæði bókinni og mér sem ritstjóra,“ segir Guðrún Kristinsdóttir, ritstjóri bókarinnar Ofbeldi á heimili – Með augum barna , sem í gær hlaut viðurkenningu Hagþenkis fyrir árið 2014. Meðhöfundar bókarinnar eru Ingibjörg H. Harðardóttir, Margrét Ólafsdóttir, Steinunn Gestsdóttir, Margrét Sveinsdóttir og Nanna Þóra Andrésdóttir. Hagþenkir – félag höfunda fræðirita og kennslugagna hefur frá árinu 1986 veitt viðurkenningu fyrir fræðirit og námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings. Verðlaunaupphæðin er ein milljón króna.

Hafa unnið stórvirki

Í greinargerð viðurkenningarráðs Hagþenkis segir að bókin sé „þarft og mikilvægt innlegg í samfélagsumræðuna og hafa höfundarnir unnið stórvirki í að varpa ljósi á aðstæður, þekkingu og seiglu barna og unglinga sem búa við ofbeldi og búa til farveg fyrir raddir þeirra inn í opinbera umræðu“. Þar segir jafnframt að bókin „einkennist af djúpri umhyggju og virðingu fyrir börnum og mæðrum sem þurfa að þola ofbeldi. Verkið ber einnig vitni áræði og hugrekki höfunda og ritstjóra. Þær taka kinnroðalaust fram að rannsókn þeirra sé byggð á femínískum fræðum og grundvallist á þeirri sýn að undirrót heimilisofbeldis sé undirskipun kvenna og barna í feðraveldissamfélagi“.

Vernd felst í samveru

Í samtali við Morgunblaðið segist Guðrún fagna allri athygli sem bókin fái, því þannig nái hún til fleiri. „Aðalatriðið í mínum huga er að fólk láti málefnið meira til sín taka. Markmið okkar með bókinni var að vekja athygli á þeirri meinsemd sem heimilisofbeldi er og sérstaklega vekja athygli á aðstæðum barna,“ segir Guðrún og bendir á að bæði rannsókn höfunda bókarinnar og erlendar rannsóknir hafi leitt í ljós að börn viti almennt mun meira um heimilisofbeldi en margir halda.

„Við ræddum við 1.100 grunnskólabörn í 4.-10. bekk í 13 grunnskólum og leiddi könnun okkar óyggjandi í ljós að íslensk börn þekkja almennt vel til heimilisofbeldis, geta skilgreint hugtakið með eigin orðum og hafa skoðanir á því,“ segir Guðrún. Tekur hún fram að í aðdraganda rannsóknarinnar hafi flestir tekið málaleitan rannsakenda vel, en þó hafi hópurinn einnig mætt því viðhorfi að ekki ætti að ræða við börn um svona erfið mál. „Um það er að segja að vernd barna felst í samveru og samræðu fremur en þögn um hættur, yfirgang og ofbeldi. Erlendar rannsóknir sýna fram á það að börn vilja láta spyrja sig út í viðkvæm málefni, því þannig skynja þau að fullorðnir láta sig það varða hvað þeim finnst. Fullorðnir verða að taka til sín þau skilaboð sem börn koma með þegar við spyrjum þau beint út í þetta. Fullorðnir hafa of lengi verið milliliðir.“