Árni Jóhannsson fæddist 30. janúar 1933 að Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp. Hann lést 22. febrúar 2015.

Foreldrar hans voru Jóhann Hjaltason, kennari f. 6.9. 1899 að Gilsstöðum í Steingrímsfirði, d. 3.9. 1992, og k. h. Guðjóna Guðjónsdóttir, húsmóðir frá Hafnarhólmi, f. 20.10. 1901, d. 20.11. 1996.

Systkini Árna eru Finnbogi, f. 85. 1930, Ingigerður, f. 29.7. 1936, og Hjalti, f. 25.1. 1941.

Árni kvæntist Ólöfu Þórarinsdóttur 30. september 1953. Þau skildu. Foreldrar hennar voru Þórarinn Auðunsson, f. 15.5. 1892, d. 24.6. 1957, og Elín Guðbjörg Sveinsdóttir, f. 7.7. 1898, d. 29.12. 1993. Við lát Þórarins flutti Elín á heimili Árna og Ólafar ásamt Elínu Sigurðardóttur dótturdóttur sinni. Árni og Ólöf eignuðust fjögur börn 1. Ágúst Þór, f. 26.5. 1954, maki Alma Oddgeirsdóttir. Börn Ágústar eru a) Guðmundur Árni, f. 1971, maki Mojca Skraban. b) Brynjar, f. 1977, maki Svana Helgadóttir, börn þeirra eru fjögur. c) Elísabet Ólöf, f. 1977, maki Maik Cichon, og eiga þau þrjú börn. 2. Guðjón Trausti, f. 19.11. 1958, maki Kerstin E. Andersson. Börn þeirra eru a) Þórunn Moa, f. 1984. b) Salbjörg Ýr, f. 1986. c) Steinunn Saga, f. 1990, maki Guðjón H. Guðmundsson og eiga þau eitt barn. d) Hrafnkell Erik, f. 1997. Fyrir átti Guðjón Iðunni Maríu, f. 1981, maki Benjamín Sigurgeirsson og á hann eitt barn. 3. Guðbjörg Gígja, f. 12.9. 1960, maki Sigurður Már Jónsson. Börn þeirra eru a) Jóhann, f. 1989. b) Kristín Silja, f. 1993. 4. Jóhanna Harpa, f. 3.11. 1965, maki Þorsteinn Páll Hængsson. Börn þeirra eru a) Rut, f. 1991. b) Hrönn, f. 1994. c) Ólöf, f. 1996.

Kona Árna til þrjátíu ára var Unnbjörg Eygló Sigurjónsdóttir, f. 22.1. 1940. Foreldrar hennar voru Sigurjón M. Jónasson, f. 27.8. 1915, d. 6.9. 1993, og Sigrún Júlíusdóttir, f. 5.6. 1907, d. 24.6. 2006. Árni gekk börnum Eyglóar í föðurstað. Þau eru 1. Nína Þóra Rafnsdóttir, f. 18. 3. 1964, maki Unnar Rafn Ingvarsson. Börn þeirra eru a) Sigríður Eygló, f. 1995 og b) Aldís Ósk, f. 1997. 2. Sigurjón Rúnar Rafnsson, f. 28.12. 1965, maki María Kristín Sævarsdóttir. Börn þeirra a) Jónas Rafn, f. 1994, b) Guðlaug Rún, f. 1997. Börn Maríu af fyrra hjónabandi eru a) Sæunn Adólfsdóttir, f. 1985, maki Alberto Fabian Bonasera. Þau eiga fjögur börn. b) Árni Einar Adólfsson, f. 1987.

Árið 1936 flutti fjölskylda Árna að Bæjum við Snæfjallaströnd (í Hólshús) þar sem hún bjó til ársins 1947 en þá flutti fjölskyldan til Súðavíkur þar sem Jóhann var skólastjóri til ársins 1955. Árni lauk prófi frá Héraðsskólanum í Reykjanesi 1949. Að því loknu fór hann á síld á Straumeynni frá Akureyri. Árni lauk handíðakennarapróf árið 1952 frá Handíða- og myndlistaskólanum og íþróttakennaraprófi frá Íþróttakennarskólanum á Laugarvatni árið 1954. Á þessum árum sinnti Árni ýmsum störfum auk kennslu og sjómennsku svo sem trésmíði og löggæslu. Hann var kennari við Austurbæjarskólann í Reykjavík 1956-61. Árni var til sjós frá 1961-65, m.a. með Þorsteini Gíslasyni, skipstjóra, á Guðrúnu Þorkelsdóttur. Árið 1965 stofnaði Árni byggingarfyrirtækið Brún og starfaði sem verktaki þar til eftirlaunaaldri var náð. Fyrirtæki Árna komu að uppbyggingu stórra mannvirkja í Reykjavík og á landsbyggðinni. Auk vegbrúnna í Kópavogi reisti fyrirtæki Árna brú yfir Elliðaárnar, Höfðabakkabrúna og Gullinbrú. Árni var því ósjaldan titlaður brúarsmiður. Söngur skipaði stóran sess í lífi Árna en hann sótti fyrst tíma í söng hjá Kristni Hallssyni árið 1956. Haustið 1957 var Árni tekinn inn sem félagi í Karlakórinn Fóstbræður og söng sinn fyrsta konsert með kórnum vorið 1958. Fjörutíu árum síðar, árið 1998, söng hann í síðasta skiptið á vortónleikum með Fóstbræðrum. Hann gegndi fjölda trúnaðarstarfa fyrir Fóstbræður og átti sinn hlut í byggingu félagsheimilis kórsins við Langholtsveg. Árni söng með Átthagakór Strandamanna í 13 ár og jafn lengi með Karlakór Kjalnesinga. Árni var virkur í kórnum Gamlir Fóstbræður frá 1998 til 2015.

Hestar voru annað áhugamál Árna og hann átti sinn þátt í því að vegur álóttra hrossa á Íslandi hefur aukist. Árni og Eygló héldu hesta í landi Kvista í Árbæ en þar áttu þau bústað þar sem þau dvöldust eftir því sem við varð komið.

Árni verður jarðsunginn frá Langholtskirkju í dag, 6. mars 2015, og hefst athöfnin kl. 13.

Tengdafaðir minn, Árni Jóhannsson, er látinn. Árna kynntist ég fyrst 1985 þegar hann birtist á heimili Gígju dóttur sinnar á Mánagötu. Árni var mikill vexti, hafði hvella og glaðværa rödd og aðsópsmikill á alla lund. Handtakið var þétt og höndin stór.

Árni fæddist á Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi þegar kreppan mikla var enn að hrella landsmenn. Efni voru lítil og það var erfitt fyrir foreldra hans að halda barnahópnum saman. Þegar faðir hans, Jóhann Hjaltason, fór suður til Reykjavíkur í kennaranám varð móðir hans, Guðjóna Guðjónsdóttir, að skilja Árna eftir hjá vandalausum til að geta unnið fyrir námi Jóhanns. Að loknu námi varð hún síðan að vinna heilt ár fyrir fóstri Árna. Ekki er langt síðan Árni færði þetta í tal, ekki vegna eftirsjár heldur sem dæmi um það hvað fólk varð að leggja á sig til að brjótast til mennta. Árni var stoltur af áum sínum og uppruna, Vestfirðingur í húð og hár.

Árni lauk kennaraprófi í handavinnu og íþróttum. Hann starfaði ekki lengi sem kennari, hefur sjálfsagt ekki haft þolinmæði til þess. Í framhaldi þess hófst starfsferill hans sem byggingaverktaki. Margir minnast hans fyrir þau störf og flestir þekktu til Árna brúarsmiðs, eins og hann var kallaður. Umsvifin voru mikil á tímabili og það þótti gott að vinna hjá Árna. Hann var ekki mikið í smáatriðunum og vildi borga vel. En sveiflukennt efnahagsástand er verktökum erfitt og sú niðursveifla sem hófst í lok 9. áratugar síðustu aldar reyndist flestum erfið.

Á tvennu hafði Árni meira yndi en af öðru, söng og hestum. Söng fyrsta tenór og var öllum eftirminnilegur, bæði sem söngvari og kórfélagi. Ég er ekki frá því að með honum hafi bærst löngun til að læra meira og taka stærri skref á söngsviðinu. Af því varð þó ekki. Hestamennska Árna snerist í seinni tíð fyrst og fremst um ræktunarstarf og hafði hann á því óbilandi áhuga og mikla þekkingu. Í raun mætti bæta stjórnmálum við sem þriðja áhugamáli Árna. Framsókn var hans flokkur og hann þreyttist seint á að ræða stefnu og menn á þeim vettvangi. Það lá vel á Árna þegar ég sá hann síðast í stuttri heimsókn. Hann vildi ræða stjórnmál og hafði trú á að málum myndi þoka áfram og bað mig um skilaboð til ráðamanna á útleið. Brosti um leið á sinn kankvísa hátt.

Árni kynntist tengdamóður minni, Ólöfu Þórarinsdóttur, á námsárum en þau voru skilin þegar okkar kynni hófust. Samskipti við Árna voru því stopul framan af og það var ekki fyrr en hann kynntist Eygló Sigurjónsdóttur sem heimilishald komst í fastari skorður. Eygló bjó honum hlýlegt og fallegt heimili og til þeirra var ánægjulegt að koma í heimsókn og njóta fjörugra samræða og þiggja höfðinglegar veitingar. Árni var orðinn lélegur til gangs undir það síðasta en andinn var óbugaður. Við þessar aðstæður reyndi meira á hans lífsförunaut, en Eygló var honum samstiga og umhyggjusöm, sem og hennar börn sem Árni gekk í föðurstað. Fyrir það eru börn og tengdabörn þakklát. Kynnin við Árna eru eftirminnileg og fyrir þau er ég þakklátur.

Sigurður Már Jónsson.

Í dag kveð ég Árna afa í hinsta sinn. Ég, eins og fleiri, bjóst við að eiga þennan yndislega mann að um mörg ókomin ár þótt aldurinn færðist yfir hjá honum sem öðrum. Eflaust hafa æskuminningarnar valdið því að ég hef lítið hugleitt líf án Árna afa. Svo langt sem ég man þá var þessi mikli og hlýlegi maður hluti af lífi mínu, áhugasamur um það sem ég tók mér fyrir hendur og um hagi mína almennt. Langdvalir mínar á erlendri grund urðu til þess að við hittumst sjaldnar en ella hefði orðið. Það virtist þó í engu breyta sambandi okkar sem var heilt og órofið alla tíð. Það var gleðilegt að sjá hve árin fóru vel með afa minn og hversu hann naut lífsins með Lælu sér við hlið. Ég er óendanlega þakklát fyrir að börnin mín skyldu fá tækifæri til að kynnast langafa sínum sem þau dáðu. Stúlkurnar mínar báðar, Carolin Freyja og Sophie Sól, eiga Árna afa það að þakka að hafa fengið tækifæri til að kynnast ævintýraheimi hestamennskunnar. Í huga okkar allra lifir afi minn með sína hljómmiklu rödd, hlýlegt fas og einlægan áhuga á lífi og velfarnaði afkomenda sinna. Kæra Læla, hugur okkar, litlu fjölskyldunnar í Noregi, er hjá þér og við sendum þér okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Elísabet Ólöf Ágústsdóttir.

„Elsku Mogginn, ég veit ekki hvernig ég færi að ef ég hefði ekki Moggann,“ sagði Árni Jó stundum þegar ég talaði óvirðulega um þetta ágæta blað, og víst var það fyrsta verk Árna á hverjum degi að lesa blaðið spjaldanna á milli, en sérstaklega þó minningargreinarnar. Árni Jó var áhugamaður um flesta hluti. Það var ekki komið að tómum kofanum þegar Árni var spurður um einhvern mann. Ef hann þekkti ekki manninn sjálfan, var næsta víst að hann þekkti forfeður hans. Árni fylgdist líka afar vel með þjóðmálum og fór ekki í felur með skoðanir sínar og þannig var Mogginn miðpunktur í orðræðu dagsins, þó hann væri að sjálfsögðu ekki sammála öllu því sem þar stóð.

Ég kynntist Árna Jó fyrir rúmlega 20 árum, þegar við Nína Þóra hófum búskap. Þau voru mörg kvöldin sem við sátum frameftir og röbbuðum um allt milli himins og jarðar. Það var alltaf gott að koma til þeirra Árna og Eyglóar. Það voru höfðingjar heim að sækja. Árni hafði góða nærveru. Hann var Vestfirðingur, Djúpmaður og Strandamaður og fór ekki í grafgötur um að honum þótti heldur betra ef hægt væri að rekja ættir manna þangað vestur. Þar voru hans rætur enda fór hann þangað ófáar ferðir og þar átti hann alltaf vinum að mæta. Við fjölskyldan fórum með Árna og Eygló í ferðir til Hólmavíkur og til Súðavíkur og ógleymanlega ferð fórum við Árni, Ágúst sonur Árna, Sigurjón mágur minn og ég í Reykjarfjörð nyrðri fyrir nokkrum árum. Á Vestfjörðum var Árni á heimavelli – hafsjór af fróðleik um byggð og búalið.

Árni og Eygló eyddu sumrum síðustu árin á Kvistum í Rangárþingi. Þar höfðu þau byggt upp fallegan bústað og Eygló búin að rækta sannkallaða gróðurvin umhverfis hann. Þar leið Árna best þar sem hann gat verið úti í náttúrunni með hrossin nærri. Hann hugsaði með hryllingi til þess að þurfa að fara inn á stofnun þar sem hann gæti ekki notið þeirra lífsgæða að vera virkur þátttakandi í samfélaginu. Árni var sannarlega virkur þátttakandi í samfélaginu til dauðadags, sótti fundi og mannfagnaði, hélt sambandi við mikinn fjölda fólks og var afburða ræktarsamur við vini sína og kunningja. Þó líkamleg heilsa væri ekki alltaf góð var minnið óskert og röddin sterk. Hans verður minnst af mörgum fyrir söngröddina og lífsgleðina. Hann litaði hverja stund með sterkri nærveru, var miðpunktur í hverju samkvæmi. Árni vissi að allt ætti sinn tíma. Eftir góða kvöldstund tók hann oft lagið eins og til að ljúka stundinni á hápunkti. Þá varð oft annað tveggja uppáhaldslaga fyrir valinu, Vor eftir Pétur Sigurðsson og Friðrik Hansen eða Vinarkveðja með texta Theódórs Einarssonar:

Besti vinur bak við fjöllin háu,

blærinn flytur mín kveðjuorð til þín,

hvíslar í eyru ljúfu ljóði smáu,

löng er biðin uns kemur þú til mín.

Manstu ekki sumarkvöldin sælu,

við sátum tvö ein við dalsins tæru lind

og hlýddum undurhljóð á hörpu minnar óð

og ortum fögur ástarljóð.

Nú ég vaki um nætur og vænti þín.

Það vorar, allt grætur þig, ástin mín.

Ég heyri vorfugla kvaka, komdu vinur til baka,

þá við vökum og syngjum meðan vornóttin dvín.

Unnar Ingvarsson

Fallinn er frá Árni Jóhannsson, góður félagi og söngvinur. Fráfall Árna var óvænt því fyrir aðeins nokkrum dögum höfðum við félagar hans hitt Árna glaðan á skemmtikvöldi Karlakórs Kjalnesinga. En fráfall hans var í takt við líf hans og upplag og nú hefur hann hafið upp raust sína í nýrri og betri veröld. Það var alltaf bjart yfir Árna og hann bjó yfir sérstakri reisn, handtakið var traust og ákveðið. Hann einkenndi glettni í augum, góðlegt bros og hlýja. Það var aldrei lognmolla í kringum Árna, hann lá ekki á skoðunum sínum og var hispurslaus og hvetjandi. Árni bar yfirbragð konunga og tók oft af skarið á meðan aðrir hikuðu.

Árni var afbragðs tenór og einn af bestu söngmönnum þessa lands, björt tenórrödd með fylltum og kraftmiklum hljóm gaf Karlakór Kjalnesinga annan og bjartari lit á meðan hans naut við. Það var því heiður að fá að standa við hlið hans í Karlakór Kjalnesinga. Árni sló gegn í Kanadaferð kórsins er hann söng einsöng með kórnum og flutti Rósina með glæsibrag á Íslendingadeginum.

Árni var heiðursfélagi í Karlakór Kjalnesinga og vel að því kominn þar sem hvatningarorð hans urðu til þess að kórinn leysti ýmis verkefni og áskoranir af hendi með meira áræði, dug og myndugleika en ella hefði verið. Þar skipti reynsla Árna miklu en ekki síður upplag hans. Hann þoldi illa að menn kveinkuðu sér eða sýndu ekki dug í þeim verkefnum sem þeim voru falin. Þannig reyndist hann stjórn kórsins og stjórnanda öflugur liðsmaður sem munaði um í starfi kórsins hvort sem var í leik eða starfi en síðast en ekki síst var hann burðarmaður í söng. Þannig gat kórinn ávallt treyst á Árna í söng við útfarir eða annan athafnasöng og var það ómetanlegt.

Árni var hrókur alls fagnaðar þegar svo bar undir og spretti úr spori með félögunum á ógleymanlegum gleðistundum á vegum kórsins hvort sem var í ferðum eða á skemmtikvöldum. Þá var gjarnan tekið lagið og hvergi dregið af sér og máttum við yngri menn hafa okkur alla við að halda í við aldna höfðingjann.

Árni var góður félagi og vinur sem var umhugað um samferðamenn sína. Þannig kom hann gjarnan í kaffi ef hann átti leið framhjá vinnustað mínum. Þá var létt yfir mönnum og margt skrafað um hesta, söng og pólitík.

Það verður því tómlegt hjá okkur á næstu tónleikum að sjá ekki andlit okkar góða heiðursfélaga á fremsta bekk.

Það er með miklum söknuði og eftirsjá sem ég kveð minn kæra söngvin og félaga Árna Jóhannsson og þakka honum fyrir allt það sem hann gaf okkur félögum sínum. Hugur okkar er hjá fjölskyldu Árna og þá sérstaklega Unnbjörgu Eygló Sigurjónsdóttur, „Lælu“ eiginkonu hans, en missir hennar er mikill, við sendum fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur.

En við huggum okkar við að nú ríður Árni á viljugum gæðingi inn í eilíft sumar og þar mun söngurinn hljóma bjartari og meiri en áður. Hafðu þökk fyrir allt og allt, hvíldu í Guðs friði.

Ólafur M. Magnússon

og fjölskylda.

Þegar við komum inn í eldhúsið á Skörðugili heyrðist slík rödd syngja að fínu glösin skulfu í skápunum og maður nam ósjálfrátt staðar, hálfsmeykur við þennan ógnarkraft sem skeiðaði fram húsið. „Það er alheimstenórinn,“ sagði pabbi. Þegar við gengum inn í stofu varð ljósara hvað í þeirri lýsingu fólst.

Þar stóð þá maður á miðju gólfi sem virtist hafa verið fóstraður af bjarndýrum; hvítur á hár með óvenju ræktarlegar augabrýr í sama lit, baðaði út hrömmunum, hallaði höfðinu aftur og lygndi aftur augum um leið og hann hóf upp lokatón í einu af þessum angurværu íslensku sönglögum um eilífar vornætur, óslökkvandi þrá, tár, glerbrot og dauðadjúpar sprungur. Riddararnir og prinsessurnar sem sátu að tafli í útsaumsmyndum ömmu minnar bylgjuðust þegar risinn lyfti sér upp um eina hæð enn, enn lengra með þessa ógnarlegu tenórrödd.

En hann var ekki hættur, svo sannarlega ekki. Það voru einar tvær, þrjár rimar enn í þessum raddstiga sem hann fikraði sig eftir svo allt gamla íbúðarhúsið þeirra afa Dúdda og ömmu Sigrúnar nötraði á sínum veikburða undirstöðum. Síðan kvaddi hann lokatóninn með óperuhnykk og í stofunni á Skörðugili braust út ákaft fagnaðarhróp; afi minn spratt á fætur með fleyg á lofti til að verðlauna alheimstenórinn sem brosti innilegu fagnaðarbrosi, kankvísu og vinalegu eins og hann hefði dregið frá öll tjöld og stæði með sálina bera í andlitinu. „Komið blessaðir og sælir, feðgar,“ sagði hann og rétti okkur sína karlmannlegu hönd.

Þetta var alheimstenórinn Árni Jóhannsson. Seinna varð hann samferðamaður Lælu frænku og það gerði ævi mína betri og ríkulegri að minningum að heyra ótal oft þessa miklu rödd, finna þetta hlýja handtak og sjá hans kankvísa svip þegar hann líkt og dró tjald frá sálinni sem virtist engu hafa að miðla nema gleði og kátínu.

Við Gerður og drengirnir vottum frænku og öllu hans fólki samúð okkar í von um að hann syngi áfram á vegum alheimsins. Guð geymi þennan góða mann.

Kristján

Bjarki Jónasson.

Vinur minn og söngfélagi úr karlakórnum Fóstbræðrum, Árni Jóhannsson, er látinn. Honum kynntist ég fyrir hartnær fjórum áratugum. Hann var vinur foreldra minna og eldri bróður. Seinna gekk ég til liðs við Fóstbræður og kynntist Árna betur. Hann var heillandi í viðkynningu og lífsgleði hans einstök.

Árni var Fóstbróðir af lífi og sál í hartnær hálfa öld og söng fyrsta tenór alla tíð af miklum þrótti. Rödd hans var mikil, björt og fögur, sannkölluð sólórödd. Hann söng oft einsöng með Fóstbræðrum og öðrum kórum. Árni var bráðgreindur, duglegur og fylginn sér, allra manna vinsælastur, einstaklega skemmtilegur og félagslyndur, hrókur alls fagnaðar og höfðingi heim að sækja. Hann var rammpólitískur, framsóknarmaður, leyndi ekki skoðunum sínum og lét menn heyra það. Hann hafði yndi af hestamennsku og átti margan gæðinginn.

Í Norðurlandasöngför Fóstbræðra 1996 sátum við Árni aftast í annarri rútunni sem fluttu okkur milli staða. Þarna var stofnað ráðuneyti Árna Jóhannssonar. Hann skipaði undirritaðan ráðuneytisstjóra og fylgdi því mikil ábyrgð. Árni var strangur húsbóndi og sagðist myndu reka mig væri ég með eitthvert múður. Starfið fólst mjög í flutningi skemmtiefnis af ýmissi gerð í samráði við Árna.

Nú er Árni kominn til hins eilífa ljóss og vors. Ég kveð hann hinsta sinni með miklum söknuði. Hann var í mínum huga afbragðsmaður, heillandi persónuleiki, snillingur í kímni, söng og leik, en umfram allt drengur góður og vinur í raun. Ég þakka honum af heilum hug samferðina í lífinu, skemmtilega viðkynningu, sönginn, lífsgleðina, tryggð og hlýhug í minn garð alla tíð.

Ég votta fjölskyldu Árna, ættingjum og vinum mína dýpstu samúð. Blessuð sé minning Árna Jóhannssonar.

Magnús Ástvaldsson.

Fallinn er nú frá góður vinur og félagi. Við Árni kynntumst upp úr 1990 og tókst með okkur mikil vinátta sem snerist um hrossin okkar, söng og „hafa gleði“ eins og hann nefndi það. Við sátum oft í bústaðnum á Kvistum þar sem við hjónin höfum verið tíðir gestir hjá Árna og Lælu og nutum vináttu þeirra sem var einlæg og sýndi væntumþykju. Þar gátum við setið og talað um hross og ekki var nú mikið varið í hrossaræktina ef ekki var Ófeigur frá Flugumýri í hrossinu og ekki mátti nefna Orra frá Þúfu, þá fussaði Árni, en það var til að koma umræðunni á fjörugra plan og eftir langar vitsmunapælingar um hross átti hann til að segja: „Jæja Holmes, nú fáum við okkur staup og syngjum Besti vinur bak við fjöllin háu,“ og svo Ljómar heimur logafagur sem við sungum iðulega ásamt mörgu öðru og ef að voru fleiri að taka undir byrjaði hann í temmilegri tónhæð og hækkaði svo tóninn þar til hann sprengdi alla því enginn hafði aðra eins tónhæð og Árni.

Nokkrar ferðirnar fórum við norður í Skagafjörð með félögum okkar Lárusi Daníel og Sigga Ásgeirs til að hitta bændur og fá okkur neðan í því og syngja með því mikla söngfólki. Alltaf passaði Árni upp á að fá blómvendi hjá vini sínum Gísla í Dalsgarði til að færa húsfrúnum á bæjunum, þetta eru ógleymanlegar ferðir. Og ekki er hægt að sleppa að minnast á ferðirnar okkar um páska; hittingur hjá Bjarna á Þorláksstöðum, borðað saltað hrossakjöt, og svo riðið upp í Hækingsdal til Brands og Bellu en Árni kom akandi. Þar beið okkar hlaðborð af tertum og auðvitað var sungið og eitt gleymdist aldrei, það var myndavélin til að festa gjörninginn á filmu, Árni var ekki tilbúinn að færa sig í nútímann í myndavélatækninni.

Ég kveð góðan vin og félaga og megi minning hans lifa.

Birgir Hólm.

Léttur og kátur, hvað sem á bjátaði. Fastur fyrir og lét allt fjúka um menn og málefni, þegar honum fannst tilefni til. Ógleymanlegur gleðigjafi og engum líkur. Hávær í tali, hrífandi tenór í söng, hvílík rödd!

Þetta kom upp í hugann, þegar ég frétti lát Árna vinar míns, Jóhannssonar.

Við kynntumst á Laugarvatni í hópi tíu skólasystkina í Íþróttakennaraskóla Íslands, haustið 1953. Þar sem við bjuggum í heimavistum samfellt í níu mánuði urðu kynni mjög náin og bundumst við skólasystkinin traustum vináttuböndum. Öll vorum við um tvítugt, en þar sem Árni var þá þegar kvæntur fannst okkur hann eldri og þroskaðri en við. Hann átti létt með að tjá sig, talaði hátt og skýrt og skorinort og var því tilvalinn til forystu í skólafélagi okkar. Tók hann það góðfúslega að sér. Fórst honum það vel úr hendi. Hélt hann m.a. eftirminnilega ræðu við skólaslit, þar sem hann gagnrýndi tæpitungulaust það, sem honum þótti betur hefði mátt fara í skólastjórn.

Við áttum ógleymanlegar stundir við nám og leik. Árni var ekki beinlínis fæddur fimleikamaður, en afburðagóður sundmaður, sá albesti á Laugarvatni, þann vetur. Og það var einmitt í baðklefum sundlaugarinnar, sem ég heyrði fyrst hans frábæru tenórrödd, þegar við þöndum raddböndin á góðum stundum. Þurfti ekki speking til að skynja, að þar var algjör gullbarki á ferð. Reyndi ég að telja Árna trú um, að hann ætti eftir að ná langt á söngbrautinni sneri hann sér af alvöru að söngnum. Ekki tókst að láta þann draum rætast. Hann hefur hins vegar átt langan og glæsilegan söngferil með Karlakórnum Fóstbræðrum. Þar naut rödd hans sín best á hæstu tónum töfrandi söngs frábærra söngfélaga.

Eftir Laugarvatnsdvölina missti ég af Árna í nokkur ár vegna námsdvalar erlendis, en við náðum saman á ný í afmælum árgangsins okkar. Nutum við skólasystkinin þá oft einstakrar gestrisni Árna og Lælu á heimili þeirra hér í Reykjavík og sumarbústað fyrir austan fjall.

Undanfarna þrjá áratugi hef ég notið þeirra forréttinda að fá að syngja í Fóstbræðrum með Árna og fundið hversu mjög hann er virtur og dáður af kórfélögum og stjórnendum kórsins. Þar var hann í essinu sínu, þar var hans óperusvið!

Kveð ég nú þennan góða dreng með söknuði, en fyrst og fremst þakklæti fyrir ógleymanlegar samverustundir.

Valdimar

Örnólfsson.

Söngbróðir kvaddur – samfylgd þökkuð.

Enn berst sorgarfregn. Árni Jó er látinn. Komið að kveðjustund.

Við Árni stóðum, sátum og sungum saman hlið við hlið í nærfellt 60 ár. Við vorum félagar á söngpalli og í söngstarfinu allan tímann. Áttum skemmtilegar stundir í ferðum innanlands sem utan. Minnisstæðar skemmtiferðir þar sem margt var sungið, skrafað og hlegið dátt. Lífsgleðin í fyrirrúmi.

Vinur minn, þér var gott að kynnast. Þú bættir hverja samverustund. Nú verða ekki fleiri slíkar í bili. Við hittumst svo í himnakórnum. Ég kveð fóstbróðir minn og söngfélaga. Farvel, vinur.

Eygló og öllum aðstandendum sendi ég innilegustu samúðarkveðjur.

Garðar Jökulsson.

Við andlát Árna Jóhannssonar hverfur af sjónarsviðinu stórkostlegur persónuleiki sem enginn mun gleyma sem hlotnast hefur það lán að kynnast honum.

Okkar leiðir lágu fyrst saman vegna áhuga okkar á stóðhestinum Ófeigi frá Flugumýri 882. Stofnað var hlutafélag um Ófeig og var Árni einn af stofnfélögum þess. Ófeigsfélagið starfaði af krafti og var það fyrst og fremst ræktunarfélag. Hinsvegar má ekki gleyma því að í öllu sem Árni tók þátt í voru gleði og skemmtilegheit ávallt í fyrirrúmi.

Hestar hafa oft verið áhrifavaldar í sögunni og það hefur Ófeigur 882 svo sannarlega verið í samskiptum okkar Árna. Í hvert skipti sem við hittumst eða töluðum saman í símann er fullvíst að Ófeigur sjálfur eða afkomendur hans komu til tals.

Árni var Vestfirðingur og var hann stoltur af þeim uppruna sínum. Hann sagði kjarnmiklar sögur sem líklega eiga ekki allar heima á prenti, fólk er líka orðið svo teprulegt nú til dags.

Árni gekk undir nafninu „Árni söngvari“ og það var hann án nokkurs vafa þó að ég sé svo sannarlega ekki sá besti til að dæma um það. Einnig var hann örlátur og mátti aldrei aumt sjá án þess að reyna úr því að bæta.

Árni og Læla eiga sælureitinn sinn hér í sveitinni okkar sem er jörðin Kvistir. Þar hafa þau reist glæsilegt sumarhús. Þar voru þau saman á sumrin og sinntu sínum áhugamálum. Læla að fegra og prýða garðinn, Árni að fylgjast með hrossastóðinu. Sérstaka ánægju hafði hann af því að geta tilkynnt að nýtt folald hefði litið dagsins ljós.

Heimsóknir þeirra Árna og Lælu voru alltaf léttar og skemmtilegar, rétt að kíkja á okkur til að fá fréttir. Ef langur tími hafði liðið og þau höfðu ekki komið við hringdi Árni gjarnan í Kristin og alltaf hófst símtalið á sama hátt: „Sæll höfðingi, ég á ekkert erindi, er ekki allt í góðu lagi?“

Það verður tómarúm hér á Árbæjartorfunni nú þegar Árni er horfinn af sjónarsviðinu.

Við vottum Lælu og fjölskyldu, börnum Árna og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Kristinn, Marjolijn og fjölskylda.

Mig langar til að minnast hans Árna stórvinar míns Jóhannssonar sem lést sunnudaginn 22 febrúar síðastliðinn. Árna kynntist ég fyrir um það bil 50 árum þegar Maggi minn gekk til liðs við Karlakórinn Fóstbræður. Þá æxlaðist það þannig að ég fór að vinna hjá Byggingafélaginu Brún sem Árni var eigandi að og vann ég hjá honum um áratugaskeið. Á þessum árum var mikið að gera hjá Árna, hann var m.a. að byggja Kornhlöðuna í Sundahöfn og voru þá um 350 manns í vinnu hjá honum, bæði iðnaðarmenn og verkamenn. Þá kom Árni víða við í sambandi við brúarsmíði, byggingar og gatnagerð eins og á Suðureyri og Hólmavík. Það var gott að vinna hjá Árna, hann var alltaf glaður og góður og talaði aldrei niður til nokkurs manns. Þetta voru góðir tímar en jafnframt annasamir.

Ég er mjög þakklát í dag fyrir að láta verða af því að heimsækja Árna og Lælu í sumarbústað þeirra í sumar. Þegar ég kom þá sat Árni í skógivöxnu landinu og var að saga niður tré, en þau nutu þess vel að sinna garðinum sínum enda undur fagur, mikið blómaskrúð og þvílíkur fjöldi plantna. Við áttum yndislegan dag saman og Árni lék á als oddi, enda einn af fáum dögum sem veðrið var gott. Árni undi sér vel í sveitinni sinni, geta fylgst með hrossunum, setið úti og horft svo langt sem augað eygði.

Árni var mikill söngmaður og hafði gaman af að syngja, hann var hrókur alls fagnaðar og þegar ég hélt upp á afmælið mitt þá talaði Árni til mín og söng eins og enginn væri morgundagurinn við mikinn fögnuð viðstaddra

Árni minn, mig langar til að þakka þér fyrir umhyggjuna, gæskuna og vináttuna sem þú sýndir mér og fjölskyldunni. Þegar Maggi minn veiktist hringdi Árni alltaf til að athuga hvernig ég hefði það og eftir að hann lést hélt Árni áfram að hringja í mig og áður en samtalinu lauk sagði Árni alltaf „er þá allt í sómanum“. Ég á eftir að sakna hringinganna frá þér, kæri vinur. Ég sendi mínar bestu samúðarkveðjur til barna Árna og Ólafar, þeirra Ágústs, Guðjóns, Gígju og Jóhönnu og fjölskyldna þeirra. Guð blessi ykkur.

Elsku Læla mín og fjölskylda, innilegar samúðarkveðjur. Guð styrki ykkur í sorginni.

Árni minn, þakka þér kærlega fyrir samfylgdina.

Eitt er það sem aldrei gleymist,

aldrei, það er minning þín.

(Guðmundur G. Halldórsson.)

Þóra Katrín Kolbeins (Kata).

Djúp og varanleg vinátta

er dýrmætari

en veraldlegar viðurkenningar,

og allt heimsins gull og silfur.

Henni þarf ekki endilega alltaf

að fylgja svo mörg orð

heldur gagnkvæmt traust

og raunveruleg umhyggja.

Kærleikur,

sem ekki yfirgefur.

(Sigurbjörn Þorkelsson)

Það var mikið lán í upphafi búskapar hjá okkur Þóru að kynnast Árna Jóhannssyni stórsöngvara sem ég kallaði oft fóstra. Árni bauð okkur að koma með hrossin okkar í hesthúsið í Kópavogi í eitt ár meðan við vorum að koma okkur fyrir í Hólmgarði 50.

Að einu ári liðnu sagði Árni að réttast væri að ég kláraði skólagönguna áður en ég færi annað með hestana. Eftir það tókust með okkur órjúfanleg vinabönd.

Í fyrstu hafði Árni ekki umgengist hesta eða hestamenn en það breyttist fljótt enda hrókur alls fagnaðar hvert sem komið var. Árni las ættir og sögur um íslenska hestinn og fljótlega var hann mjög fróður um ættir hrossa. Hann var svo einn af stofnendum hlutafélagsins um stóðhestinn Ófeig frá Flugumýri. Við Þóra nutum fljótt góðs af því og var okkar bestu bleikálóttu hryssu haldið undir Ófeig. Bleikálótti liturinn var stolt okkar Árna í ræktun góðra reiðhrossa.

Okkar vinum fannst oft sérkennilegt að þegar ákveðið var að fara að heiman eina kvöldstund var barnapían Árni Jóhannsson efstur á blaði. Aldrei minnist ég annars en að Árni hafi komið og passað dætur okkar ef hann hafði tök á. Ró hans og elskulegt viðmót hafði góð áhrif á dætur okkar sem minnast hans með hlýju.

Fyrir stuttu áttum við samtal þar sem við rifjuðum upp góðar stundir og heimsóknina þeirra Eyglóar að Grenjum í haust og ákváðum í framhaldi að hittast á heimili þeirra nú á vormánuðum. Í þessu samtali fann ég glöggt hve vel honum leið og að hann naut hverrar stundar þótt fæturnir væru farnir að gefa sig.

Við fjölskyldan í Hamraborg sendum Eygló, börnum og öðrum aðstandendum okkar innilegustu samúðarkveðju á þessari kveðjustund.

Jóhannes Oddsson.

Árni Jóhannsson byggingarmeistari, vinur okkar, var mikill öðlingur og gleðigjafi.

Fyrstu kynni af Árna voru þegar einn okkar var handlangari hjá honum sumarlangt árið 1955.

Árið 1965 stofnuðum við félagarnir, Helgi, Vilhjálmur og Vífill, Teiknistofuna Óðinstorgi eftir nám erlendis í byggingarlist og verkfræði.

Ekki leið langur tími uns Árni birtist á Teiknistofunni og bað okkur fyrirvaralaust að teikna tvö 7 og 9 hæða fjölbýlishús í Kópavogi. Eftir það var hann fastagestur á Teiknistofunni. Í hvert sinn er hann birtist kom hann með eitthvert góðgæti og glaðning syngjandi, en hann var stórsöngvari, en oftast byrjaði hann þó á því að tukta okkur aðeins til.

Árna Jóhannsson var mjög virkur verktaki á seinni hluta síðustu aldar, hann vann að ýmsum merkum framkvæmdum. Við hönnuðum fyrir hann stórhýsi í miðbæ Kópavogs auk áður nefndra fjölbýlishúsa við Þverbrekku. Þá aðstoðuðum við hann við gerð tilboða og við framkvæmd ýmissa stórverkefna sem hann tók að sér, svo sem endurnýjun Reykjaæðar fyrir Hitaveitu Reykjavíkur, sem þá var eitt stærsta verkefni sem hitaveitan hafði boðið út. Þá tók Árni að sér mörg brúarverkefni og var hann því oft nefndur Árni brúarsmiður. Í þessu sambandi má nefna Höfðabakkabrú yfir Elliðaárnar, Gullinbrú yfir Grafarvog og fjölmargar vegbrýr svo sem brýrnar yfir Nýbýlaveg í Kópavogi. Öllum þessum verkum skilaði Árni með sóma og í góðri sátt við verkkaupa og starfsmenn sína.

Síðast leit Árni inn hjá okkur í nóvember síðastliðnum og þá var nokkuð af honum dregið líkamlega, en ætíð var hann hress og kátur.

Við sendum aðstandendum Árna innilegar samúðarkveðjur.

Fyrir hönd vina á Teiknistofunni Óðinstorgi,

Helgi, Vilhjálmur og Vífill.

Kveðja frá Gömlum Fóstbræðrum

Leiðir okkar Árna Jóhannssonar lágu saman haustið 1974 þegar ég gekk til liðs við karlakórinn Fóstbræður. Árni hafði þá sungið með kórnum frá árinu 1957. Hann var gæddur einstakri tenórrödd enda var hann burðarmaður í fyrsta tenór í kórnum í mörg ár. Hann hafði hljómmikinn, bjartan og klingjandi tón sem setti mark sitt á hljóm kórsins. Hann lærði nokkuð söng á yngri árum og hefði trúlega náð langt ef hann hefði lagt út á þá braut.

Félagið Gamlir Fóstbræður var stofnað árið 1959 af söngmönnum sem áður höfðu sungið með Fóstbræðrakórnum en voru hættir. Einstaka starfandi söngmenn í Fóstbræðrum hafa þó alltaf sungið með Gömlum þar á meðal Árni. Það eru nokkur ár síðan hann hætti að syngja í aðalkórnum og snéri sér alfarið að söng með þeim gömlu. Nokkur síðustu ár hafa Gamlir Fóstbræður ásamt mökum farið í söng- og skemmtiferðir út á land og haldið tónleika víða. Árni og Læla, sambýliskona hans, hafa tekið þátt í þessum ferðum og notið þess að vera í hópi vina. Hafa þau sannarlega lagt sitt af mörkum til þess að gera þessar ferðir ógleymanlegar.

Árni hafði áhuga á hrossarækt. Hann var fjölfróður um það efni og þekkti fjölmarga hestamenn og hrossaræktendur um land allt. Hann fylgdist með þróun mála í hrossarækt og sótti oft hestamannamót. Þar sem hestamenn koma saman er gjarnan sungið. Minnist ég þess eitt sinn á landsmóti hestamanna á Vindheimamelum í Skagafirði er Árni var staddur þar í veitingaskála. Hópur manna tók að syngja en Árni tók ekki undir. Þegar bráði af söngmönnum hóf Árni upp raust sína í þeirri hæð sem hentaði honum en öðrum ekki. Eftir það sungu aðeins fáir en hinir hlustuðu.

Árni var fæddur og uppalinn við Ísafjarðardjúp og átti þar djúpar rætur. Hann þekkti víða til úti á landi og hafði skilning á aðstæðum þeirra sem þar búa og var dyggur stuðningsmaður landsbyggðarinnar. Árni var ekki einasta góður söngmaður, hann var einnig góður félagi. Hann var skemmtilegur og kom auga á hinar spaugilegu hliðar lífsins. Hann átti auðvelt með að umgangast fólk, bæði unga og aldna og var óspar á góð ráð ef því var að skipta. Hann hafði ákveðnar skoðanir á mönnum og málefnum og sagði óhikað kost og löst í hverju máli.

Árni og Læla dvöldu oft í sumarbústað að Kvistum í Rangárþingi vestra. Þar hefur Læla ræktað garð umhverfis bústaðinn af ótrúlegri eljusemi og dugnaði. Vöxtulegur trjágróður, blóm og skrautjurtir gera garðinn að sönnum sælureit. Í næsta nágrenni voru hryssur og folöld sem þau fylgdust með af áhuga og höfðu gaman af. Var ánægjulegt að verða vitni að því hvað þeim leið vel í þessu einstaka umhverfi og sjá hve góðan stuðning Læla veitti Árna þegar líkamlegri færni hans hrakaði.

Gamlir Fóstbræður og makar þeirra senda Lælu samúðarkveðjur vegna fráfalls Árna Jóhannssonar svo og öðrum ástvinum hans.

Þorleifur Pálsson.

Kveðja frá Karlakór Kjalnesinga

Í dag kveðjum við kæran vin og kórfélaga, Árna Jóhannsson. Árni gekk til liðs við okkur eftir að hafa lokið fjörutíu ára glæstum söngferli með Fóstbræðrum. Hann byrjaði fyrir tilstilli Finnboga bróður síns, sem einnig söng með okkur í mörg ár. Það var mikill fengur að því að fá Árna í okkar raðir og var eftir því tekið hvað hljómur kórsins breyttist mikið við innkomu hans. Árni var duglegur að miðla af reynslu sinni til annarra og hafði metnað fyrir því að kórinn næði árangri. Hann lá ekki á skoðunum sínum ef honum fannst að eitthvað mætti betur fara og lét menn heyra það á sinn skemmtilega hátt. Hann lá heldur ekki á skoðunum sínum ef honum fannst eitthvað vel gert og var hann duglegur að senda jákvæða strauma út í kórinn. Árni söng með okkur í ein 13 ár þar til hann ákvað að nú væri mál að linnti. Við gerðum hann að heiðursfélaga í kórnum fyrir nokkrum árum. Þau hjónin voru dugleg að sækja tónleika og skemmtanir á vegum kórsins og var sérstaklega ánægjulegt að þau skyldu koma í Fólkvang í byrjun febrúar þar sem við skemmtum okkur á Kótilettukvöldi með Karlakórnum Stefni. Það var í síðasta skipti sem við sáum Árna en hann var sjálfum sér líkur og skemmti sér hið besta. Við viljum votta Lælu og afkomendum þeirra dýpstu samúð. Minningin lifir um góðan og skemmtilegan dreng sem gaf okkur félögunum gott veganesti til framtíðar.

Andri Þór Gestsson,

formaður Karlakórs Kjalnesinga.