Ingólfur fæddist á Kirkjubæjarklaustri 6.3. 1923. Foreldrar hans voru Guðbrandur Guðbrandsson, bóndi á Prestbakka á Síðu, og Guðrún Auðunsdóttir húsfreyja.

Ingólfur fæddist á Kirkjubæjarklaustri 6.3. 1923. Foreldrar hans voru Guðbrandur Guðbrandsson, bóndi á Prestbakka á Síðu, og Guðrún Auðunsdóttir húsfreyja.

Eiginkona Ingólfs 1943-63 var Inga Þorgeirsdóttir kennari og eru börn þeirra Þorgerður kórstjóri; Rut fiðluleikari; Vilborg hjúkrunarfræðingur; Unnur María, fiðluleikari, og Inga Rós sellóleikari.

Eiginkona hans 1964-68 var Laufey Kristjánsdóttir og eru börn þeirra Eva Mjöll fiðluleikari og Andri Már forstjóri, en sonur Ingólfs og Sigrúnar E. Árnadóttur er Árni Heimir tónlistarfræðingur.

Ingólfur lauk kennaraprófi frá KÍ 1943, stundaði tungumálanám við HÍ, tónlistarnám við Guildhall School of Music í London, nam ensku og hljóðfræði við University College í London og stundaði framhaldsnám í tónlist við Tónlistarháskólann í Köln, Augsburg og Flórens.

Hann var tónlistarkennari við Laugarnesskóla frá 1943, námstjóri tónlistarfræðslu hjá menntamálaráðuneytinu og skólastjóri Barnamúsíkskólans í Reykjavík.

Ingólfur var frumkvöðull á sviði ferðaþjónustu og á sviði tónlistarflutnings hér á landi. Hann stofnaði ferðaskrifstofuna Útsýn 1955 og var forstjóri hennar til 1988. Hann stofnaði ferðaskrifstofuna Prímu og Heimsklúbb Ingólfs og starfaði á vettvangi ferðamála til 2006.

Ingólfur stofnaði Pólýfónkórinn 1957 en undir hans stjórn voru frumflutt á Íslandi mörg af stærstu verkum tónbókmenntanna. Kórinn hélt tónleika víða um heim og hefur fjöldi platna og geisladiska komið út með söng hans.

Ingólfur var sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu 1977 og ítölsku riddaraorðunni Cavaliere della Repubblica Italiana sama ár. Hann varð heiðursfélagi Félags íslenskra tónmenntakennara 1972 og útnefndur Capodell'Ordine „Al Merito della Repubblica Italiana“ árið 1991.

Ingólfur lést 3.4. 2009.