Ómar Ragnarsson
Ómar Ragnarsson
Eftir Ómar Ragnarsson: "Reynt er að breiða yfir það að nýtt og stækkað Hagavatn verður miðlunarlón og að það mun fyllast af nýjum auri með nýjum leirstormum á vorin."

Í vetur hefur staðið yfir dýrðarsöngur um fyrirhugaða Hagavatnsvirkjun í greinaskrifum og er ekkert lát á því. Í upphafi var fullyrt að Landgræðslan og Skógræktin þrýstu á virkjunina, allir umsagnaraðilar væru einróma um það að henni fylgdu stórkostlegir kostir og engir gallar. Nú þegar er búið að reka þetta ofan í greinarhöfunda og formann atvinnuveganefndar Alþingis. Landgræðslan er andvíg miðlunarlóni þarna. En það er eins og að skvetta vatni á gæs, skrifuð er enn ný grein þar sem látið er að því liggja að Ferðafélag Íslands sé mjög meðmælt virkjuninni, af því að hún muni laða að gríðarlegan ferðamannastraum, bæta mjög allt aðgengi og skapa möguleika fyrir nýjan og flottan skála. Hið rétta er að Ferðafélag Íslands hefur í umsögn sinni mælt á móti því að þarna verði gert miðlunarlón sem muni skilja eftir sex ferkílómetra af nýföllnum fíngerðum leir á hverju vori með tilheyrandi nýjum leirstormum líkt og nú þegar má sjá úr sístækkandi aurkeilu í Sandvatni neðar í Sandá. Fullyrt er nú að með hókus pókus kúnstum verði orkuverið eins konar jafnorkuver eða ígildi rennslisvirkjunar. En í rennslisvirkjunum þarf ekki stór lón eins og vel má sjá í Sogsvirkjununum. Raunar er Kárahnjúkavirkjun meira að segja „jafnorkuver“ með stöðugu rennsli í inntaksgöngunum og stöðuga raforkuframleiðslu upp á 690 megavatta afl allt árið, en til þess þarf að miðla vatninu á milli vetrar og sumars í formi ljótasta miðlunarlóns með hröðustu og mestu vatnsborðssveiflu í heimi, þar sem 35 ferkílómetrar lands eru þurrir og þaktir nýföllnum fínum jökulleir þegar snjó og ís leysir á vorin, sem gerir ólíft við lónið fyrir leirstormum þegar góðviðrishnjúkaþeyr er þar fyrri hluta sumars. Það vill svo til að ég dvel við þetta lón á hverju sumri og engin blaðagrein getur breytt því sem ég hef séð þar og tekið myndir af síðustu sjö vor og sumur. Í fyrrnefndri blaðagrein er látið að því liggja að ísinn liggi svo lengi ofan á leirunum á vorin, að þegar hann loksins bráðni, séu þær komnar á kaf í bræðsluvatnið, sem hafi hækkað og stækkað lónið upp í fulla stærð. Það er kannski vel hægt að segja þetta við þá sem ekki hafa umgengist miðlunarlón á vorin og sumrin, en þetta rímar alls ekki við mína reynslu. Snjóinn tekur að vísu heldur fyrr upp en ísinn, en yfirleitt fer hann mjög fljótt og löngu áður en lónið er fullt. Við Hálslón er hann um metri á þykkt að meðaltali og hefur hverfandi áhrif á lónsstæðið. Greinarhöfundar allir forðast þá staðreynd, sem blasir við í Sandvatni eftir stækkun þess og blasir við í Sultartangalóni og Hálslóni, að jökulár fylla miðlunarlón af auri. Þá myndast nýjar og stærri leirur sem kalla á nýjar og stærri stíflur og skiptir engu hve margar kynslóððir á eftir okkur þurfa að kljást við þau vandamál, við höfum ekki leyfi til þess að ganga svona á hlut miklu fleiri afkomenda okkar en við erum sjálf. Að lokum þetta: Þegar Hálslón var kynnt sýndi Landsvirkjun glæsilegar myndir af framtíðinni; vinsælustu hálendismiðstöðinni á norðurhálendinu við Kárahnjúkastíflu þar sem lónið, stíflan og umhverfið yrði krökkt af útivistar- og ferðafólki með tjöld, klifurbúnað, seglbretti, báta og hvað eina. Undanfarin vor og sumur hefur þessi glansmynd verið dapurlegt dæmi um fáránleika og rugl. Í nágrenni Jóstedalsjökuls í Noregi er lítið vatn sem heitir Langavatn. Það sést ekki frá jöklinum og jökullinn heldur ekki frá því. Fyrirætlanir voru um að stækka vatnið til miðlunar og búa til hagkvæmustu og hreinustu virkjun Norðurlanda með 1.000 metra fallhæð. Horfið var frá því vegna þess að það myndi skemma ímynd svæðisins! Sunnar, niðri í dal, sem liggur samsíða jöklinum, eru tveir litlir þverdalir.

Áður en virkjanaæði Norðmanna lauk endanlega fyrir um 15 árum, var vatn eitt, sem lá í öðrum dalnum stækkað með stíflu en hinn dalurinn látinn ósnertur. Í þeim dal eru tugþúsundir ferðamanna á hverju ári en enginn ferðamaður sést í dalnum með stækkaða vatninu. Þegar ég var þar á ferð hitti ég þar einn Dana, sem sagðist hafa villst! Hvenær ætlum við að læra af reynslu annarra þjóða í stað þess að vera áratugum á eftir þeim í þessum málum til ómælds tjóns fyrir komandi kynslóðir?

Höfundur er áhugamaður um umhverfismál og menningarminjar.

Höf.: Ómar Ragnarsson