[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Naumhyggjan er á undanhaldi í fermingarskreytingum og rómantíkin að ryðja sér til rúms þar sem lifandi blóm eru í aðalhlutverki, segir María Másdóttir, eigandi Blómahönnunar í Listhúsinu í Laugardal.

Fermingarskreytingarnar í ár eru nokkuð frábrugðnar því sem verið hefur; naumhyggjan er að víkja og rómantíkin að taka við þar sem náttúrulegt hráefni og fersk blóm fá notið sín,“ segir María Másdóttir, eigandi Blómahönnunar í Listhúsinu í Laugardal. „Litirnir í skreytingum eru hreinir og bjartir, en jafnframt eru rómantískir pastellitir áberandi.“

María segir lifandi blóm í aðalhlutverki í fermingarskreytingum og þannig hafi þróunin raunar verið síðustu árin. „Íslensk blóm verða æ vinsælli og það er auðvitað afar ánægjulegt; rósir, silkivöndur og gerberur, þessi blóm henta til dæmis mjög vel. Það er alltaf best að vinna með ferskt hráefni, íslensku blómin eru falleg og endingargóð og möguleikarnir í skreytingum óþrjótandi.“

Ballettskórnir

Aðspurð kveðst María alltaf hlakka til fermingarundirbúningsins, það sé skemmtilegur tími og ánægjulegt að hitta unga fólkið. „Það er svo gaman að útbúa fermingarskreytingarnar. Langoftast koma unglingarnir með foreldrum sínum til okkar í blómabúðina og hafa ákveðnar skoðanir á því hvernig þeir vilja hafa hlutina. Það er ávallt mikil eftirvænting á meðal fermingarbarnanna, enda stór dagur og mikil gleðistund framundan hjá þeim. Allir eru einbeittir og glaðir og ákveðnir í að gera fermingardaginn sérstakan og eftirminnilegan.“

Að sögn Maríu kjósa margir unglingar skreytingar með persónulegu yfirbragði, þar sem skírskotað er til bernskunnar eða jafnvel tómstundaiðkunar. „Þá spyrjum við fermingarbörnin út í áhugamálin og fáum til dæmis að nota myndir, fyrstu skóna, handboltann, ballettskóna eða annað úr þeirra eigu í skreytingarnar. Persónulegar fermingarskreytingar vekja alltaf mikla lukku og þær eru oft hafðar á sérborði, til dæmis með gestabókinni, þar sem þær fá að njóta sín.“

Blómaskúlptúrinn

Hún segir að ýmsu að hyggja þegar fermingarskreytingar eru annars vegar. „Umgjörðin skiptir höfuðmáli. Ef fermingarveislan er haldin í sal er mikilvægt fyrir okkur starfsfólk Blómahönnunar að skoða húsnæðið vel. Sama á við um veislur sem haldnar eru í heimahúsi, þá kíkjum við í heimsókn til að fá góða tilfinningu fyrir því hvað passar best. Við val á blómategundum tökum við svo mið af aðstæðum og veljum vasa og annað undirlag eftir því hvar skreytingin verður staðsett.

Við lánum blómavasa og undirlag með öllum okkar skreytingum og svo er því bara skilað þegar blómin visna. Það er mjög gaman að hanna skreytingar inn í ákveðið rými og við eigum fjölbreytt úrval af vösum, sem passa fyrir mismunandi staðsetningar og ólíkar blómategundir.

Þó að við notum íslensk blóm eins og kostur er pöntum við líka inn blóm frá Hollandi og getum nánast útvegað hvaða blómategund sem er, í takt við óskir viðskiptavina. Lifandi blóm eru eins og áður sagði langvinsælust en þó er alltaf eitthvað um þurrkaðar fermingarskreytingar, í bland við hitt. Í þurrkuðu skreytingarnar veljum við til dæmis mosa, bambus, strá og greinar. Það er gaman að nota þetta efni með lifandi blómum, skreytingarnar tengjast þá svolítið villtri náttúrunni og eru jafnvel eins og skúlptúr,“ segir María, sem er menntuð bæði í myndlist og blómaskreytingum.

Hárskrautið

Lifandi blóm eru ekki aðeins vinsæl á fermingarveisluborðið, þau eru mikilvægur partur af hárskrauti fermingarstúlkna og ennfremur oft notuð í pakkaskreytingar, að sögn Maríu. „Lifandi blóm í hárið eru alltaf í tísku, það ræðast yfirleitt af hárlengd, klæðnaði og auðvitað smekk hvort fermingarstelpurnar velja að fara þá leið. Við útbúum alls kyns hárskraut úr lifandi blómum. Sumar stelpur vilja náttúrulegt útlit og velja lítil, látlaus blóm, til dæmis grófa statiku eða brúðarslör, á meðan aðrar kjósa rómantískara yfirbragð og meira áberandi hárskraut, svo sem silkivönd eða orkídeur.

Miklu máli skiptir að velja réttu blómin í hárið því þau þola misvel íslenskt veðurfar, rigningu, rok og jafnvel frost. Við vinnum allt hárskraut í samvinnu við hárgreiðslustofur fermingarstúlknanna, enda fer það alveg eftir greiðslunni hverju sinni hvernig best er að festa blómin í hárið.

Pakkarnir

Svo pökkum við mikið inn fermingargjöfum, það er auðvitað enn skemmtilegra að gefa pakka sem er fallega skreyttur og mér finnst alltaf gaman að fá það verkefni. Við notum til dæmis fersk blóm, þurrkuð strá, víra og fallega borða utan um gjafirnar.

Allt sem snýr að fermingunni er ánægjulegt og í mínum huga eru það forréttindi að fá að taka þátt í þessum stóra og mikilvæga degi með fermingarbörnunum og fjölskyldum þeirra. Þannig er ég í hvert sinn þakklát fyrir að fá að leggja mitt af mörkum til þess að fermingardagurinn verði ógleymanlegur, þar sem ilmandi, yndisleg blóm gegna lykilhlutverki.“

beggo@mbl.is